Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2017 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 65/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 2. febrúar 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 65/2017

Í stjórnsýslumáli nr. KNU16110081

Kæra [...] og barna hennar

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 29. nóvember 2016 kærði [...] (hér eftir nefnd kærandi), þær ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 24. nóvember 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir hennar og barna hennar, [...], um alþjóðlega vernd frá [...], að synja þeim um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna á Ítalíu og synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002.

Kærandi krefst þess að umsóknir hennar og barna hennar um alþjóðlega vernd sem flóttamenn frá [...] verði teknar til efnismeðferðar hér á landi í ljósi ákvæða 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Fyrrgreindar ákvarðanir voru kærðar á grundvelli 1. mgr. 30. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

Hinn 1. janúar 2017 tóku gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Samkvæmt 2. mgr. 121. gr. laganna gilda ákvæði þeirra um mál sem bárust kærunefnd útlendingamála fyrir gildistöku laganna en höfðu ekki verið afgreidd með úrskurði. Fer því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Í gögnum frá embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum greinir að kærandi hafi óskað eftir alþjóðlegri vernd á Keflavíkurflugvelli þann 4. desember 2014 ásamt manni sínum og fjórum ólögráða börnum. Kærandi hafi framvísað ferðaskilríki flóttamanns, útgefnu af yfirvöldum á Ítalíu. Með ákvörðun, dags. 30. janúar 2015, synjaði Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda og barna um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi kærði þá ákvörðun við birtingu þann 6. febrúar sama ár. Kærunefnd útlendingamála felldi ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi með úrskurði, dags. 15. júlí 2015, þar sem lagt var fyrir stofnunina að taka umsóknir kæranda um alþjóðlega vernd til meðferðar á ný. Útlendingastofnun synjaði á ný að taka umsóknir kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með ákvörðunum, dags. 23. september 2015. Kærandi kærði þær ákvarðanir þann 29. september sama ár. Kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvarðanir Útlendingastofnunar með úrskurði, dags. 23. febrúar 2016, en afturkallaði úrskurð sinn þann 28. júní 2016. Með úrskurði, uppkveðnum sama dag, felldi kærunefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kæranda úr gildi og lagði fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný. Þann 24. nóvember 2016 synjaði Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd frá [...] til efnismeðferðar hér á landi auk þess sem þeim var synjað um alþjóðlega vernd vegna aðstæðna á Ítalíu og um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga. Kærandi kærði ákvarðanirnar við birtingu þann 29. nóvember 2016. Þann 30. nóvember sama ár óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa meðan málin væru til meðferðar hjá kærunefnd útlendingamála. Með bréfi kærunefndar, dags. sama dag, var fallist á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa. Kærunefnd útlendingamála hefur borist greinargerð kæranda, dags. 13. janúar 2017.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hefði verið veitt viðbótarvernd á Ítalíu. Útlendingastofnun vísaði til þess að samkvæmt b-lið 46. gr. a þágildandi laga nr. 96/2002 gætu stjórnvöld, með fyrirvara um ákvæði 45. gr. laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn samkvæmt 1. mgr. 46. gr. ef umsækjanda hefur verið veitt alþjóðleg vernd í öðru ríki.

Í ákvörðun sinni byggði Útlendingastofnun á því að með dómum Mannréttindadómstóls Evrópu hefði því verið slegið föstu að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu legði ekki skyldu á aðildarríki að sjá öllum sem dvelji innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum.

Með vísan til framangreinds var það niðurstaða Útlendingastofnunar að 1. mgr. 45. gr. þágildandi laga nr. 96/2002 um útlendinga kæmi ekki í veg fyrir að kærandi yrði send aftur til Ítalíu og var umsókn hennar um alþjóðlega vernd frá [...] því synjað um efnismeðferð, sbr. b-lið 1. mgr. 46. gr. a sömu laga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom einnig fram að með hugtakinu heimaland í 44. gr. þágildandi laga um útlendinga væri, samkvæmt lögskýringargögnum með ákvæðinu, átt við það land sem viðkomandi ætti ríkisfang í. Kærandi, sem ríkisborgari [...], gæti því ekki átt rétt á alþjóðlegri vernd sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna á Ítalíu þar sem hún hefði þegar hlotið vernd. Kæranda var því synjað um stöðu flóttamanns hér á landi, sbr. 44. gr. laganna. Þá var það mat Útlendingastofnunar að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis samkvæmt ákvæðum 12. gr. f laga nr. 96/2002 væru ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barna kæranda kom fram að ekkert í framburði foreldra þeirra benti til þess að hælisbeiðni barnanna væri byggð á öðrum málsástæðum en foreldra þeirra. Var því ekki talið tilefni til að taka sérstök viðtöl við börn kæranda. Útlendingastofnun hefði synjað kæranda og eiginmanni hennar um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi og var niðurstaða stofnunarinnar hin sama í málum barna kæranda.

Með hinum kærðu ákvörðunum var kæranda og börnum hennar vísað frá landinu á grundvelli a-liðar 1. mgr. 18. gr. þágildandi laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti jafnframt kæranda og börnum hennar að kæra frestaði ekki framkvæmd ákvarðana hennar með vísan til a- og c-liða 1. mgr. 32. gr. sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð krefst kærandi þess að umsóknir hennar og barna hennar um alþjóðlega vernd frá [...] verði teknar til efnislegrar meðferðar hér á landi. Er krafan reist á ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. núgildandi laga nr. 80/2016 um útlendinga, þar sem kveðið er á um að hafi meira en 12 mánuðir liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skuli taka hana til efnismeðferðar. Kærandi og börn hennar hafi lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd fyrir rúmum tveimur árum og beri enga ábyrgð á þeim töfum sem hafi orðið á afgreiðslu umsóknanna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Úrlausnarefni kærumáls þessa er að skera úr um hvort rétt sé að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kæranda og barna hennar um alþjóðlega vernd frá [...] og vísa þeim frá landinu.

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 40. gr. við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum. Á hinn bóginn er stjórnvöldum skylt að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsóknin barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu er í ákvæðinu kveðið á um 12 mánaða tímabil sem leitt getur til þess að taka beri umsókn til efnismeðferðar. Í ákvæðinu er skýrt að upphaf tímabilsins er þegar umsókn er lögð fram. Í ákvæðinu er aftur á móti ekki vikið að því hvenær tímabilinu lýkur. Í athugasemdum sem fylgdu 36. gr. frumvarps til laga nr. 80/2016 er heldur ekki skýrt nánar hvenær 12 mánaða tímabilinu er ætlað að ljúka að öðru leyti en að þar er tekið dæmi um að undir 2. mgr. 36. gr. laganna falli tilvik þegar afgreiðsla á máli sem fellur undir c-lið 1. mgr. hefur dregist lengur en 12 mánuði og ástæður þess eru ekki á ábyrgð umsækjanda.

Kærunefnd útlendingamála telur því að skýra verði ákvæðið í samræmi við orðalag þess og þá á þann veg að þegar stjórnvald hefur mál til meðferðar sé skylt að taka málið til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn barst fyrst íslenskum stjórnvöldum nema tafir á afgreiðslu hennar séu á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Kærunefnd telur að fresturinn í 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga byrji að telja þegar kærandi sækir um alþjóðlega vernd og haldi áfram að telja þar til flutningur kæranda til endursendingarlands hefur farið fram enda sé flutningurinn á ábyrgð stjórnvalda.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 4. desember 2014. Greint hefur verið frá meðferð málsins fyrir stjórnvöldum en kærandi eða börn hennar verða ekki talin bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsóknanna. Verða hinar kærðu ákvarðanir því felldar úr gildi og lagt fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barna hennar til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda og barna hennar til efnismeðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the applications of the applicant and her children for asylum in Iceland.

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður

Pétur Dam Leifsson Anna Tryggvadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta