Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 9/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 15. janúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 9/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18120033

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 524/2018, dags. 28. nóvember 2018, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. október 2018, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Fyrir liggur að kærandi nýtur alþjóðlegrar verndar í Grikklandi.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 3. desember 2018. Þann 7. desember sl. barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað af kærunefnd með úrskurði, dags. í dag.

Þann 12. desember 2018 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku og þann 17. desember sl. lagði kærandi fram greinargerð og fylgigögn vegna málsins. Þá bárust kærunefnd upplýsingar og viðbótargögn frá kæranda með tölvupósti, dags. þann 21. desember sl. Óskaði kærandi m.a. eftir því að fá að tjá sig við nefndina um efni málsins. Taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa kæranda kost á að koma fyrir nefndina, sbr. 2. málsl. 7. mgr. 8. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir aðallega á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku aðallega á 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem ákvörðun í máli hans hafi verið byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.

Kærandi byggir í fyrsta lagi á þeirri málsástæðu að mat íslenskra stjórnvalda á heilsufari hans, aðgengi hans að heilbrigðisþjónustu í Grikklandi og áhrifa umhverfis á sálrænan bata hans hafi verið ófullnægjandi. Vísar kærandi í því sambandi til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 2. mgr. 36. laga um útlendinga, um sérstakar ástæður, með fyrirvara um lögmæti 32. gr. a reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017.

Kærandi sé rétt rúmlega […] ára, hafi dvalið í Grikklandi sem fylgdarlaust barn og sé þolandi nauðgunar og annars ofbeldis. Við meðferð máls kæranda fyrir íslenskum stjórnvöldum hafi hann lagt fram gögn frá Grikklandi um lyf sem honum hafi verið ávísað og sálfræðitíma sem hann hafi sótt. Kærandi kveður að ekki hafi verið um að ræða eiginlega læknis- eða sálfræðimeðferð heldur einungis stuttar læknisheimsóknir, lengst fimm mínútur í senn, í fjögur eða fimm skipti.

Andleg heilsa kæranda sé verulega slæm og hann hafi loks hér á landi hafið meðferð vegna andlegra afleiðinga framangreinds ofbeldis sem hann hafi orðið fyrir, þ. á m. sjálfsstyrkingarmeðferð hjá Stígamótum. Í framlögðu sálfræðimati kæranda frá Domus Mentis, geðheilsustöð, komi m.a. fram að niðurstöður sjálfsmatskvarða bendi til þess að kærandi hafi mikla þörf fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu vegna sálræns vanda og þá uppfylli hann greiningarskilmerki kvíðaröskunar, geðlægðar og áfallastreituröskunar. Kærandi telji að framangreind þörf hans fyrir sérhæfða heilbrigðisþjónustu hafi ekki verið hluti af mati stjórnvalda þegar ákvörðun í máli hans hafi verið tekin. Útlendingastofnun hafi ranglega komist að þeirri niðurstöðu að meðferð við veikindum kæranda sé honum aðgengileg í Grikklandi en kærunefnd hafi viðurkennt að það geti verið vandkvæðum bundið að sækja sér heilbrigðisþjónustu þar, einkum sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Hins vegar hafi nefndin ekki tekið tillit til þess að viðkvæm staða kæranda geri honum enn erfiðara um vik að sækja sér heilbrigðisþjónustu í Grikklandi. Vísar kærandi í því sambandi til framlagðs bréfs mannréttindasamtakanna Refucomm.

Kærandi kveður að aðstæður hans í Grikklandi verði verulega síðri en almennings, komi til flutnings hans þangað, og vísar í því sambandi til 32. gr. a reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga, og úrskurðar kærunefndar útlendingamála nr. 393/2018 frá 27. september 2018. Þá vísar kærandi til framlagðra bréfa bandarísks lífsþjálfa (e. life coach), sem hafi verið í samskiptum við kæranda símleiðis meðan sá síðarnefndi hafi dvalið í Grikklandi, og bresks starfsmanns mannréttindasamtaka með starfsstöð í Grikklandi.

Kærandi telur óraunhæft að meta aðstæður hans án tillits til þess hvaða áhrif umhverfið í Grikklandi muni hafa á hann og bata hans, í ljósi alvarlegrar áfallastreituröskunar og skorts á félagslegum stuðningi þar. Vísar kærandi í því sambandi til áðurgreinds sálfræðimats og framlagðs bréfs prófessors í barnalækningum við Suður-Kaliforníuháskóla og stofnanda Adolescent and Young Adult Cancer Program.

Þá byggir kærandi í öðru lagi á þeirri málsástæðu að flutningur hans til Grikklands, vegna ófullnægjandi mats stjórnvalda á aðstæðum hans, feli í sér brot gegn grundvallarreglunni um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. Vísar kærandi í því sambandi m.a. til 42. gr. laga um útlendinga, 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011. Við mat á aðstæðum kæranda beri að taka tillit til heilsufars hans og aðgengis að heilbrigðisþjónustu, raunverulegrar hættu á heimilisleysi, svo og möguleika hans til að afla sér atvinnu og tryggja öryggi sitt í Grikklandi. Vísar kærandi í því sambandi m.a. til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Tarakhel gegn Sviss (mál nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2014. Kærandi kveður að þó að í hans tilviki sé ekki um að ræða mál á grundvelli reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin) beri íslenskum stjórnvöldum að gæta að þeim meginreglum sem staðfestar hafi verið í máli Tarakhel, einkum að við flutning einstaklinga í sérstaklega viðkvæmri stöðu verði að afla tryggingar fyrir því að endursending brjóti ekki gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá vísar kærandi til framlagðrar greinar úr Newsweek um aðstæður í Grikklandi, tölvupóstssamskipta við áðurnefndan starfsmann mannréttindasamtaka í Grikklandi og mannréttindasamtökin Equal Rights Athens, framlagðs bréfs grísks lögmanns, athugasemda mannréttindafulltrúa Evrópuráðsins, álits aðstoðarmanns dómara við Evrópudómstólinn frá 25. júlí 2018 og fyrirliggjandi gagna um aðstæður í Grikklandi.

Þá byggir kærandi beiðni sína um endurupptöku jafnframt á 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, þar sem atvik máls hafi breyst verulega frá því að íþyngjandi ákvörðun hafi verið tekin. Vísar kærandi í því sambandi til þess að heilsufar hans sé mun verra en fyrirliggjandi gögn hafi gefið til kynna og þá hafi ný gögn bæst við í máli hans, sbr. framlagt sálfræðimat. Þá hafi tengsl kæranda við landið styrkst og hann njóti stuðnings hérlendis, sbr. framlagt bréf velunnara hans hér á landi sem hafi tekið hann að sér í óformlegt fóstur. Kærandi hafi enn fremur lokið sínu fyrsta íslenskunámskeiði hér á landi og þá sé hann aðstoðarþjálfari í sjálfboðastarfi hjá íþróttafélaginu […]. Því til staðfestingar vísar kærandi til framlagðrar viðurkenningar frá tungumála- og menningarsetrinu […] og staðfestingar frá framkvæmdastjóra […].

Þá byggir kærandi á því að efni 32. gr. a reglugerðar nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga, fari út fyrir vilja og markmið löggjafans m.t.t. til lögskýringargagna. Að mati kæranda sé útilokað að beita samræmisskýringu við túlkun 2. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar annars vegar og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hins vegar og því sé reglugerðin í andstöðu við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. Kærandi kveður að ákvæði 32. gr. a reglugerðarinnar geri mun strangari kröfur en leiði af ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og vísar í því sambandi til lögskýringargagna að baki ákvæðinu, þar sem m.a. komi fram að með því sé stjórnvöldum eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiði af sérstökum reglum, s.s. reglum Dyflinnarreglugerðarinnar. Þá kveður kærandi að viðmið í 4. mgr. 32. gr. a reglugerðarinnar skorti lagastoð og fari gegn stjórnarskrárbundnum rétti einstaklings til tjáningarfrelsis, sbr. 73. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. einnig 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með vísan til framangreinds hafi kærunefnd því verið óheimilt að leggja ákvæði reglugerðarinnar til grundvallar við ákvörðunartöku í máli hans.

Svo sem fram hefur komið lagði kærandi fram ýmis gögn með beiðni sinni um endurupptöku, þ. á m. skýrslu sálfræðings vegna mats á honum, ljósmyndir sem lágu fyrir við uppkvaðningu úrskurðar kærunefndar, minnispunkta, vottorð frá Stígamótum, fréttir og tilvísanir til heimilda um aðstæður í Grikklandi, ýmis meðmæli, vottorð, viðurkenningar og staðfestingar, bréf sérfræðinga, forúrskurð Evrópudómstólsins í málum nr. C-297/17, C318/17 og C-319/17, tölvupósta o.fl.

III.            Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 28. nóvember 2018, var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærunefnd mat kæranda í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Svo sem fram hefur komið lagði kærandi m.a. fram með endurupptökubeiðni sinni skýrslu sálfræðings, dags. þann 13. desember 2018, vegna sérfræðimats á honum. Niðurstöður framangreindrar skýrslu gefa m.a. til kynna að kærandi glími við alvarlegt eða mjög alvarlegt þunglyndi, mjög alvarlegan kvíða og alvarlega streitu. Þá uppfylli hann greiningarskilmerki kvíðaröskunar, alvarlegrar geðlægðar og áfallastreituröskunar. Að mati sálfræðings megi rekja vanda kæranda að miklu leyti til aðstæðna hans, óvissu um framtíðina og ótta við flutning til Grikklands. Þá virðist hann stundum eiga í vanda með að virkja heilbrigð bjargráð.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar frá 28. nóvember sl. og þau fylgigögn sem liggja fyrir í málinu, þ. á m. framlagt sálfræðimat. Telur kærunefnd að um sé að ræða ítarlegri upplýsingar um það sem þegar lá fyrir þegar úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp. Þau nýju gögn sem lögð hafa verið fram, m.a. varðandi heilsufar kæranda, benda ekki til þess að um verulega breyttar aðstæður hans sé að ræða frá því að úrskurður kærunefndar lá fyrir í máli hans. Við ákvörðunartöku í máli kæranda lá fyrir að hann væri ungur að árum og glímdi við kvíða, streitu og afleiðingar ofbeldis og sýndi einkenni áfallastreituröskunar. Var það lagt til grundvallar við úrlausn málsins. Í máli kæranda var hins vegar jafnframt lagt til grundvallar, með vísan til framburðar hans, framlagðra gagna frá Grikklandi og fyrirliggjandi gagna um aðstæður þar, að hann gæti leitað sér viðhlítandi heilbrigðisþjónustu þar í landi vegna heilsufarsvandamála sinna.

Í ljósi ofangreinds telur kærunefnd að þegar hafi verið tekin afstaða til málsástæðna og aðstæðna kæranda, sem hann ber fyrir sig í máli þessu, í úrskurði kærunefndar frá 28. nóvember 2018. Þá ítrekar kærunefnd það sem fram kom í áðurgreindum úrskurði nefndarinnar þess efnis að kærandi, sem handhafi alþjóðlegrar verndar í Grikklandi, á rétt á sambærilegri félagslegri aðstoð og grískir ríkisborgarar. Að teknu tilliti til frásagnar kæranda og fyrirliggjandi gagna, þ.m.t. framlagðra gagna kæranda, er það mat kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að áðurgreindur úrskurður hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The request of the appellant to re-examine the case is denied.

 

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

 

Erna Kristín Blöndal                                                                                         Árni Helgason

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta