Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2019 Forsætisráðuneytið

810/2019. Úrskurður frá 3. júlí 2019

Úrskurður

Hinn 3. júlí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 810/2019 í máli ÚNU 19010016.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 29. janúar 2019, kærði A, fréttastjóri DV, synjun Seðlabanka Íslands á beiðni um gögn. Kærandi óskaði eftir því með erindi, dags. 19. nóvember 2018, að Seðlabanki Íslands veitti upplýsingar um tilhögun námsleyfis sem B, þáverandi [starfsmaður] Seðlabanka Íslands, hefði farið í um mitt ár 2016. Óskað var eftir upplýsingum um það hversu háa fjárhæð bankinn hefði greitt fyrir nám hennar, hvort hún hefði fengið greidd laun að fullu eða að hluta á meðan á námsleyfinu stóð, hversu háar upphæðir hún hefði fengið frá bankanum, hvort gerður hafi verið samningur þess efnis að hún þyrfti að starfa hjá bankanum að námi loknu, hvenær hún hefði að nýju hafið störf eftir námslok og hvenær hún hefði lokið störfum fyrir bankann.

Með tölvupósti, dags. 30. nóvember 2018, upplýsti Seðlabanki Íslands kæranda um að B hefði lokið störfum fyrir bankann í lok árs 2017. Seðlabanki Íslandi gæti að öðru leyti ekki veitt svör við spurningunum á grundvelli trúnaðarákvæðis 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 og 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, auk persónuverndarsjónarmiða.

Í kæru kemur fram að það sé mat kæranda að Seðlabanka Íslands beri að veita aðgang að upplýsingum um greiðslur til B á meðan hún var í námsleyfi. Ótækt sé að æðstu stjórnendur Seðlabankans geti úthlutað verulegum gæðum í dýrt háskólanám til undirmanna sinna án þess að almenningur sé upplýstur um það. Þá kemur fram að óskað sé eftir því að Seðlabanki Íslands veiti upplýsingar um það hversu marga slíka námsstyrki bankinn hafi veitt frá því að Már Guðmundsson tók við sem seðlabankastjóri í ágúst 2009. Að auki sé óskað eftir heildarupphæð slíkra námsstyrkja.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 1. febrúar 2019, var kæran kynnt Seðlabanka Íslands og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Í umsögn Seðlabanka Íslands, dags. 22. febrúar 2019, er synjun bankans á beiðni kæranda í fyrsta lagi rökstudd með vísan til þagnarskylduákvæðis 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001. Bankinn telur upplýsingarnar sem kærandi óski eftir vera þess eðlis að þær varði málefni bankans sjálfs og teljist því ekki til opinberra upplýsinga. Upplýsingarnar séu háðar þagnarskyldu nema annað hvort úrskurður dómara eða lagaboð geri bankanum skylt að láta þær af hendi.

Vísað er til þess að með gagnályktun frá ákvæði 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga megi ætla að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að almenningi verði veittur aðgangur að gögnum í vörslum stjórnvalda. Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/212 sé fjallað um sérstök þagnarskylduákvæði og muninn á þeim og almennum þagnarskylduákvæðum. Þar komi m.a. fram að um sérstök þagnarskylduákvæði sé að ræða þegar þagnarskylda eigi að ríkja um einstaklingsbundnar upplýsingar, einkamálefni, persónuleg málefni eða upplýsingar um hagi einstaklinga eða fyrirtækja. Í sérstökum þagnarskylduákvæðum séu þær upplýsingar sem þagnarskylda skuli ríkja um þannig sérgreindar andstætt því sem gildi um almenn þagnarskylduákvæði.

Í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 segi að þagnarskylda skuli ríkja um annars vegar hagi viðskiptamanna bankans og hins vegar málefni bankans sjálfs, en með þessum hætti séu þær upplýsingar, sem þagnarskylda skuli ríkja um samkvæmt lögunum, sérgreindar. Þá er vísað til túlkunar úrskurðarnefndar um upplýsingamál á ákvæðinu í úrskurðum í málum A-324/2009, A-423/3012 og úrskurða nr. 582/2015 og 774/2019 og dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 329/2012, þar sem því var slegið föstu að 1. mgr. 35. gr. laga nr. 36/2001 væri sérstakt þagnarskylduákvæði.

Í öðru lagi byggir Seðlabanki Íslands á því að upplýsingarnar séu undanþegnar upplýsingarétti almennings á grundvelli 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012. Óhugsandi sé að líta öðruvísi á en að upplýsingarnar varði starfssamband Seðlabanka Íslands og umrædds starfsmanns, sem sanngjarnt sé og eðlilegt að trúnaður skuli ríkja um. Í þriðja lagi er vísað til 9. gr. upplýsingalaga, en samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- og fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Að mati Seðlabanka Íslands er ljóst að upplýsingarnar varði einkamálefni viðkomandi starfsmanns og réttur almennings til aðgangs nái þegar af þeirri ástæðu ekki til þeirra.

Með umsögn Seðlabanka Íslands fylgdi samningur milli Seðlabanka Íslands og B, dags. 29. apríl 2016. Í bréfi sem fylgdi samningi er þess getið að B hafi starfað í hlutastarfi (fjarvinnu) fyrir bankann frá því í september 2017 og til loka þess árs en engin gögn séu til um það fyrirkomulag.

Umsögn Seðlabanka Íslands var kynnt kæranda með bréfi, dags. 24. febrúar 2019, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Engar athugasemdir bárust.

Niðurstaða
1.

Í málinu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að gögnum sem geyma upplýsingar um það hvort [starfsmaður] Seðlabanka Íslands hafi fengið námsstyrk frá bankanum. Synjun Seðlabanka Íslands er aðallega reist á því að bankanum sé óheimilt að veita upplýsingarnar á grundvelli þagnarskylduákvæðis 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001, sbr. 2. málslið 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Í 2. málslið 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga segir að almenn ákvæði laga um þagnarskyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Með gagnályktun frá ákvæðinu verður að telja að sérstök þagnarskylduákvæði geti, ein og sér, komið í veg fyrir að aðgangur verði veittur að gögnum í vörslum stjórnvalda, hvað sem líður ákvæðum upplýsingalaga. Þegar um er að ræða sérákvæði laga um þagnarskyldu, þ.e. þegar upplýsingarnar sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar, fer það eftir efni og orðalagi þagnarskylduákvæðis hvernig slík ákvæði verða skýrð og samþýdd ákvæðum upplýsingalaga, eins og segir í almennum athugasemdum frumvarps þess sem síðar varð að upplýsingalögum, nr. 140/2012.

Hæstiréttur Íslands komst að þeirri niðurstöðu með dómi frá 3. júní 2014 í máli nr. 329/2014 að 1. mgr. 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 feli í sér sérstaka þagnarskyldureglu en ekki almenna. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur byggt á því að þagnarskyldan sé sérgreind með þeim hætti að hún nái til upplýsinga sem varða hagi viðskiptamanna bankans og málefni bankans sjálfs og annars þess sem starfsmenn bankans fá vitneskju um í starfi og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Að því er varðar orðlagið „málefni bankans sjálfs“ hefur úrskurðarnefndin við það miðað að undir það kunni að falla upplýsingar um fjárhagsleg málefni eða fjárhagslegar ráðstafanir bankans, um beinar ákvarðanir sem varði starfsemi hans eða undirbúning þeirra og eftir atvikum aðrar upplýsingar sem af tilliti til hagsmuna bankans sjálfs megi telja eðlilegt að leynt fari.

Í málinu er óskað eftir upplýsingum um samkomulag Seðlabanka Íslands við starfsmann bankans um tilhögun námsleyfis, launakjör og önnur hlunnindi. Þrátt fyrir að slíkar ráðstafanir lúti eðli málsins samkvæmt að fjárhagslegum ráðstöfunum bankans og kunni að sumu leyti að varða framkvæmd verkefna hans er ekki um að ræða upplýsingar um fjárhagsleg málefni eða fjárhagslegar ráðstafanir bankans vegna þeirrar starfsemi sem honum er með lögum falið að sinna heldur lúta þær að starfsmannamálum bankans. Við mat á því hvort engu að síður sé um að ræða upplýsingar sem telja verði eðlilegt að leynt fari af tilliti til hagsmuna Seðlabanka Íslands verður til þess að líta að almenningur hefur verulega hagsmuni af því að geta kynnt sér hvernig opinberum fjármunum er ráðstafað. Verður því að vega saman hagsmuni Seðlabanka Íslands af því að upplýsingarnar lúti leynd og hagsmuni almennings af aðgangi að gögnunum.

Það er mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að Seðlabanki Íslands hafi ekki slíka hagsmuni af því að upplýsingarnar njóti leyndar að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær verði felldar undir þagnarskylduákvæði 1. mgr. 35. gr. nr. 36/2001. Er þá litið til þess að ekki er um að ræða upplýsingar sem eru til þess fallnar að hafa áhrif á starfsemi bankans verði þær gerðar opinberar. Auk þess hefur almenningur ríka hagsmuni af aðgangi að upplýsingunum sem m.a. felast í því að geta veitt stjórnvöldum aðhald, sbr. 3. tölul. 1. gr. upplýsingalaga. Með hliðsjón af framangreindu fellst úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki á að Seðlabanka Íslands sé óheimilt að veita upplýsingarnar vegna þagnarskylduákvæðis 1. mgr. 35. gr. nr. 36/2001. Verður því leyst úr málinu á grundvelli takmarkana upplýsingalaga á upplýsingarétti almennings samkvæmt lögunum.

2.

Seðlabanki Íslands byggir einnig á því að umbeðnar upplýsingar séu undanþegnar upplýsingarétti á grundvelli 7. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 á þeim grundvelli að þær varði starfssamband Seðlabanka Íslands og fyrrum starfsmanns bankans.

Meginreglan um upplýsingarétt almennings kemur fram í ákvæði 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem segir að þeim sem falla undir gildissvið upplýsingalaganna sé, ef þess er óskað, skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum. Í ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga, er að finna takmörkun á upplýsingarétti almennings sem lýtur að gögnum sem varða opinbera starfsmenn. Segir í ákvæðinu að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki almennt ekki til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna sem lúta að umsóknum um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Við úrlausn málsins reynir á það hvort þær upplýsingar sem kærandi hefur óskað eftir aðgangi að falli undir 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga á þeim forsendum að þær varði starfssamband umrædds starfsmanns og Seðlabanka Íslands „að öðru leyti“.

Í athugasemdum við 7. gr. í frumvarpi til laga nr. 140/2012 kemur fram að upplýsingar um það hvaða starfsmenn starfi við opinbera þjónustu, hvernig slík störf séu launuð og hvernig þeim sé sinnt séu almennt ekki talin að öllu leyti til einkamálefna viðkomandi starfsmanns eða vinnuveitanda hans. Að hluta til kunni að vera um að ræða mikilvægar upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna. Því gildi að nokkru marki önnur sjónarmið en almennt eigi við í vinnuréttarsambandi á almennum vinnumarkaði. Af þessari ástæðu sé ekki óeðlilegt að almenningur eigi rétt á aðgangi að ákveðnum upplýsingum um það hvernig störfum sem stofnað er til í þágu opinbers verkefnis sé sinnt, þar á meðal um menntun æðstu stjórnenda og starfsheiti hlutaðeigandi starfsmanna. Á hinn bóginn sé viðurkennt að tilteknir hagsmunir stjórnvalda og starfsmanna sem lúti m.a. að því að varðveita traust og trúnað í starfssambandinu geti leitt til þess að réttmætt sé að takmarka þann upplýsingarétt.

Við afmörkun á því hvort upplýsingarnar varði starfssamband opinbers starfsmanns og stjórnvalds verður að hafa í huga að ákvæði 7. gr. upplýsingalaga felur í sér undantekningu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laganna um aðgang almennings að upplýsingum og ber því að skýra það þröngt. Við skýringu á því hvaða upplýsingar falli undir „starfssambandið að öðru leyti“ verður enn fremur að horfa til þeirra sjónarmiða sem fram koma í lögskýringargögnum með ákvæði 7. gr. en þar segir:

„Með gögnum í málum sem varða starfssambandið að öðru leyti, sbr. niðurlag 1. mgr. 7. gr., er átt við gögn í málum þar sem teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna. Þau rök búa hér að baki að rétt sé veita starfsmanni ákveðið öryggi í starfi og varðveita trúnað í vinnusambandinu sem ella væri hætta á að brysti ef veittur yrði aðgangur að gögnum í slíkum málum. Af þessu leiðir enn fremur að opinberir aðilar ættu síður möguleika á því að laða til sín og halda hjá sér hæfu starfsfólki. Til mála er varða starfssambandið teljast t.d. mál þar sem starfsmaður hefur þurft að sæta frádrætti frá launum, ákvarðanir stjórnenda um sveigjanlegan vinnutíma og um aukastörf, sbr. IV. kafla laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og enn fremur mál er lúta að aðfinnslum og áminningu eða eftir atvikum starfslokum.“

Af framangreindum sjónarmiðum verður að ætla að ákvæði 1. mgr. 7. gr. upplýsingalaga sé að meginstefnu ætlað að takmarka aðgang að gögnum þar sem taka á ákvarðanir um ,,réttindi og skyldur þeirra starfsmanna“ sem í hlut eiga. Við afmörkun þess hvaða ákvarðanir teljast vera ákvarðanir um „réttindi eða skyldur“ þeirra starfsmanna sem í hlut eiga verður að horfa til þess hvaða ákvarðanir í stjórnsýslu teljist almennt til slíkra ákvarðana. Nærtækast er að telja að orðalagið eigi við þær ákvarðanir í málefnum starfsmanna sem falla undir ákvæði 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 þar sem kveðið er á um að stjórnsýslulögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Í athugasemdum við 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, segir að ákvarðanir um skipun, setningu og ráðningu opinberra starfsmanna, svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikningu þeirra, hafi verið flokkaðar sem stjórnvaldsákvarðanir. Sama eigi við um ákvarðanir stjórnvalda um að beita opinbera starfsmenn stjórnsýsluviðurlögum, eins og frádrætti frá launum vegna ólögmætra fjarvista frá vinnu. Því falli þessar ákvarðanir undir stjórnsýslulögin.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur farið yfir umbeðin gögn. Um er að ræða skjal sem ber heitið „Samningur um stuðning við námsdvöl og leyfi frá störfum“ og er dagsett 29. apríl 2016. Það geymir samkomulag Seðlabanka Íslands og viðkomandi starfsmanns um heimild til námsleyfis, tilhögun launa og launatengdra réttinda á meðan á leyfinu stendur og styrkgreiðslu vegna námsins. Þar af leiðandi er ekki um að ræða einhliða ákvörðun stjórnvalds gagnvart starfsmanni eða stjórnvaldsákvörðun heldur gagnkvæmt samkomulag. Með vísan til athugasemda við 7. gr. upplýsingalaga, sem felur í sér undantekningu frá meginreglu 5. mgr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings, verður því að álykta sem svo að upplýsingarnar sem fram koma í skjalinu varði ekki „starfssambandið að öðru leyti“ í skilningi ákvæðisins. Því verður takmörkun á aðgangi ekki byggð á ákvæðinu.

3.

Seðlabanki Íslands ber því einnig við að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að umbeðnum gögnum á grundvelli 1. málsl. 9. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt ákvæðinu er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, nema með samþykki þess sem í hlut á. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga segir að í greininni megi finna nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:

„Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“

Að því er varðar takmörkun að aðgangi að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari segir í athugasemdunum:

„Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.“

Eðli málsins samkvæmt teljast upplýsingar um styrkveitingar til starfsmanna og launakjör þeirra í námsleyfi til upplýsinga um fjárhagsmálefni þeirra. Í því felst þó ekki sjálfkrafa að rétt sé á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga að halda þeim leyndum. heldur þarf að meta hvort upplýsingarnar séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt gagnvart þeim starfsmanni sem upplýsingarnar varða, að þær lúti leynd. Við matið þarf að vega saman hagsmuni viðkomandi einstaklings af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Einnig þarf að horfa til markmiða upplýsingalaga um aðhald að opinberum aðilum og gegnsæi við meðferð opinberra hagsmuna, sbr. 1. gr. laganna. Þá felur ákvæði 9. gr. í sér undantekningarreglu frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings og ber því að túlka hana þröngt.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni skjalsins „Samningur um stuðning við námsdvöl og leyfi frá störfum“, dags. 29. apríl 2016. Sem fyrr segir er um að ræða samkomulag Seðlabanka Íslands og viðkomandi starfsmanns um heimild til námsleyfis, tilhögun launa og launatengdra réttinda á meðan á leyfinu stendur og styrkgreiðslu vegna námsins. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál geymir skjalið ekki upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni viðkomandi starfsmanns sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum. Ekki koma fyrir í skjalinu viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Þá er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að um sé að ræða upplýsingar sem almenningur hafi hagsmuni af að kynna sér. Er þá tekið mið af því að um er að ræða einkaréttarlegan samning sem felur í sér ráðstöfun opinberra hagsmuna. Þegar vegnir eru saman hagsmunir viðkomandi starfsmanns af því að efni skjalsins fari leynt og hagsmunir almennings af því að kynna sér efni skjalsins er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að almenningur hafi ríkari hagsmuni af því að skjalið sé gert opinbert en viðkomandi starfsmaður af því að skjalið lúti leynd. Er því ekki fallist á að Seðlabanka Íslands sé óheimilt að veita almenningi aðgang að skjalinu vegna 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða nefndarinnar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir Seðlabanka Íslands að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum.

Það athugast að í kæru óskar kærandi eftir því að Seðlabanki Íslands veiti upplýsingar um það hversu marga slíka námsstyrki bankinn hafi veitt frá því að Már Guðmundsson tók við sem seðlabankastjóri í ágúst 2009, auk upplýsinga um heildarupphæð þeirra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál vekur athygli kæranda á því að um er að ræða nýja gagnabeiðni sem beina þarf til Seðlabanka Íslands.

Úrskurðarorð:

Seðlabanka Íslands er skylt að veita A, fréttastjóra hjá DV, aðgang að skjalinu „Samningur um stuðning við námsdvöl og leyfi frá störfum“, dags. 29. apríl 2016.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Sigurveig Jónsdóttir

Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta