Hoppa yfir valmynd
21. desember 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Nýr samstarfsvettvangur um eflingu rannsókna um lífeyrismál

Frá undirritun samningsins. - mynd

Ný rannsóknastofnun lífeyrismála tekur til starfa í ársbyrjun 2024 en samningur um þetta var undirritaður í gær.

Um er að ræða samstarfsvettvang starfandi fræðimanna á sviði lífeyrismála hjá Háskóla Íslands, Seðlabanka Íslands, fjármála- og efnahagsráðuneytinu og öðrum stofnunum eftir atvikum. Markmiðið er að efla rannsóknir og auka skilning á lífeyrismálum, efna til samstarfs við erlenda fræðimenn, afla upplýsinga og hugmynda um skipan lífeyrismála erlendis og benda á mögulegar lausnir og úrbætur til að bregðast við áskorunum sem lífeyrissjóðir á Íslandi standa frammi fyrir.

Undir samning um stofnunina skrifuðu Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Jón Ólafur Halldórsson, stjórnarformaður Landssamtaka lífeyrissjóða, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Guðrún Þorleifsdóttir, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Meðal verkefna verður að halda úti upplýsingavef, skipuleggja vinnustofur fræðimanna til að bera saman bækur sínar og kynna rannsóknir sínar á sviði lífeyrismála, skipuleggja árlega ráðstefnu til að kynna rannsóknaniðurstöður og koma árlega að því að styðja við einn doktorsnema og einn starfsmann til að vinna að rannsóknum er nýst geti íslenska lífeyriskerfinu.

Rannsóknastofnun lífeyrismála verður hýst í Háskóla Íslands og HÍ ber jafnframt ábyrgð á skuldbindingum hennar.

Stofnunin verður faglega sjálfstæð en starfar náið með PeRCent (The Pensions Research Centre) við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta