Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mannréttindi fá aukið vægi í innanríkisráðuneytinu

Mannréttindamál hafa fengið aukið vægi í innanríkisráðuneytinu en við stofnun þess um áramótin var ákveðið að einn sérfræðingur helgaði sig eingöngu þeim málaflokki. María Rún Bjarnadóttir lögfræðingur hefur tekið við þessu sérfræðingsstarfi en hún sinnti áður verkefnum á sviði fjarskiptamála.

Mannréttindamál snerta nánast öll svið samfélagsins og því er um yfirgripsmikinn og vaxandi málaflokk að ræða. Með því að einn starfsmaður sinni málaflokknum í fullu starfi leggur ráðuneytið áherslu á að vel sé fylgst með allri umræðu og þróun á sviði mannréttindamála – á landsvísu jafnt sem heimsvísu – og að ráðuneytið hafi jafnan skýra stefnu í málaflokknum.

Mannréttindamál heyra undir skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga sem er ein af sex skrifstofum ráðuneytisins. Meðal verkefna á sviði mannréttinda má nefna að ráðuneytið hefur umsjón með lagabreytingum þegar þeirra er þörf vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga og skýrslugjöf til nefnda um framkvæmd þeirra mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að. Þá ber ráðuneytið ábyrgð vegna mála sem rekin eru gegn Íslandi fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.

Þá má nefna að innanríkisráðherra hefur nýlega skipað vinnuhóp til að annast skýrslugerð vegna úttektar á stöðu mannréttindamála hér á landi og tekur hann til starfa á næstunni. Tilefnið er almenn endurskoðun á stöðu mannréttindamála í aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna.

Tilgangurinn með þessari tilhögun er eins og áður segir að málefni er snerta hin ýmsu svið mannréttinda fái aukið vægi innan ráðuneytisins.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta