Hoppa yfir valmynd
13. apríl 2011 Innviðaráðuneytið

Tilraunaverkefni um 10 milljarða framlag til almenningssamgangna á tíu árum

Uppi eru hugmyndir um að í tilraunaskyni muni ríkið leggja fram einn milljarð króna á ári í 10 ár til að styrkja almenningssamgöngur á suðvesturhorni landsins. Ætlunin er að fá sveitarfélögin til að leggja einnig fram fjármagn og að með þessu átaki yrði hægt að gera almenningssamgöngur greiðari, hagkvæmari og sjálfbærari.

Almenningssamgöngur - morgunverðarfundur 13. apríl
Almenningssamgöngur - morgunverðarfundur 13. apríl

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti þessa hugmynd á almennum fundi um almenningssamgöngur sem ráðuneytið stóð fyrir í morgun í samvinnu við samgönguráð. Auk Ögmundar tóku til máls þeir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Þorsteinn Rúnar Hermannsson, verkfræðingur í innanríkisráðuneytinu, Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. og Dagur B. Eggertsson, formaður samgönguráðs. Í lokin voru pallborðsumræður og auk ræðumanna tóku þátt í þeim bæjarstjórarnir Aldís Hafsteinsdóttir og Ásgerður Halldórsdóttir. Ragnhildur Hjaltadóttir ráðuneytisstjóri stýrði fundinum.

Almenningssamgöngur - morgunverðarfundur 13. apríl

Starfshópur á vegum samgönguráðs hefur lagt fram hugmyndina um ofangreint tilraunaverkefni og að sögn ráðherra er næsta skref að kynna hana og ræða við fulltrúa landshlutasamtaka sveitarfélaga og afla henni fylgis. Verði undirtektir jákvæðar er það tillaga samgönguráðs að verkefnið fari inn í næstu 12 ára samgönguáætlun. Ráðherra segir gert ráð fyrir að hugmyndin yrði endurmetin á tveggja ára fresti og komi á daginn að hún þyki ekki skila árangri verði tilrauninni hætt.

Nýting ekki nógu góð

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri fjallaði um ríkisstyrktar samgöngur, núverandi stöðu og nauðsyn breytinga með nýrri stefnumótun. Vegagerðin sér um styrki til sérleyfisaksturs, ferjureksturs og áætlunarflugs. Fram kom í máli Hreins að stór hluti þeirra styrktu ferða sem eru í boði væru lítið nýttar af almenningi. Í ljós hefði komið við greiningu á 40 sérleiðum á landi að það hefðu verið færri en þrír farþegar í hverri ferð á 30 leiðum og færri en einn farþegi í ferð á tíu leiðum. Nýtingin á styrktum flug- og ferjuleiðum er betri en eigi að síður langt undir flutningsgetu. Hann sagði öflugar almenningssamgöngur á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og að leggja yrði áherslu á samvinnu við sveitarfélögin.

Þorsteinn Rúnar Hermannsson, verkfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu, kynnti í erindi sínu tillögur og forsendur starfshóps varðandi grunnnet almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og áhrifasvæði þess svo og tillögur samgönguráðs um fjármögnun:

  • Ríkið skuldbindi sig til að leggja fjármagn í rekstur almenningssamgangna á svæðinu í 10 ára tilraunaverkefni. Á móti verði stórum vegaframkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu frestað.
  • Framlag til rekstrar almenningssamgangna verði greitt til landshlutasamtaka á svæðinu (eða beint til Strætó bs.) sem á móti ábyrgjast ákveðna þjónustu á skilgreindum leiðum í grunnneti og upplýsa samgönguyfirvöld árlega um fyrirkomulag þjónustunnar.
    Styrkveiting verði háð því að þjónusta verði bætt, þ.e. framlög sveitarfélaga í reksturinn skerðist ekki á móti. Sambærilegt fyrirkomulag er þekkt t.d. í Danmörku.
  • Framlag frá ríkinu í reksturinn verði háð því að á móti komi skuldbindingar sveitarfélaganna um sátt um frestun stórra vegaframkvæmda og markvissar stuðningsaðgerðir sem stuðla að aukinni notkun almenningssamgangna, t.d. í skipulagi byggðar, bílastæðamálum og samgöngustefnu opinberra fyrirtækja.
  • Sveitarfélögin og ríkið komi sér saman um mælanleg markmið t.d. í loftslags-, loftgæðamálum og breytingum á ferðamátavali. Í samræmi við forsendur aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum verði markmiðið á tíu árum að a.m.k tvöfalda hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu.

    Árangur af þessu tilraunaverkefni verði metinn, m.a. með ofangreindum mælikvörðum, í framvindumati á tveggja ára fresti og framlög verði þá endurskoðuð.
  • Fjármögnun
    Hluta af kolefnisgjaldi sem ríkið innheimtir á eldsneyti verði varið í almenningssamgöngur. Á móti verði endurgreiðslu olíugjalds af olíu vegna rekstrar almenningsvagna í áætlunarferðum hætt, þar sem það fyrirkomulag getur unnið gegn vistvænni endurnýjun almenningsvagna og þar með umhverfismarkmiðum.
  • Mótun og framfylgd sameiginlegrar áætlunar ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu og rekstur hjólreiðastíga verði hluti af þessu 10 ára tilraunaverkefni.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs., ræddi nýjungar og hugmyndir um aukna þjónustu fyrirtækisins sem snertir meðal annars aukna nýtingu á netinu í upplýsingaskyni, umbætur á þjónustu með betri vögnum og öðrum tækjakosti og sagði stóran gulan strætisvagn ekki endilega eina kostinn hjá fyrirtækinu, margs konar önnur farartæki kæmu og til skoðunar.

Dagur B. Eggertsson, formaður samgönguráðs, sagði það tíðindi að nú sýndu yfirvöld vilja sinn í verki til að fylgja eftir markmiðum um að bæta almenningssamgöngur. Hann sagði brýnt að hugsa málin á annan hátt, dreifa valdinu og færa skipulagsvald og ákvörðun um forgangsröðun til einstakra landshluta.

Almenningssamgöngur - morgunverðarfundur 13. apríl

Í lokaorðum sínum undirstrikaði Ögmundur Jónasson nauðsyn þess að hugsa stórt, næstu skref yrði að fjalla um að færa ákvörðunarvald heim í hérað og tók undir hugmyndina um að nýta hluta kolefnisgjalds í tilraunaverkefnið. Þakkaði hann að lokum starfshópi samgönguráðs fyrir framlagið með tillögunum sem hann sagðist styðja og sagði næsta skref að gera þær að veruleika.

Ráðgert var að sýna fundinn á netinu en vegna tækniörðugleika á fundarstað komst það ekki í gang fyrr en nokkuð var liðið á fundinn. Reynt verður að setja tengil á upptökuna hér á vefinn þegar tekist hefur að laga tæknihliðina.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta