Tillaga um breytingu á reglugerð um stærð og þyngd ökutækja
Vegagerðin hefur óskað eftir því við innanríkisráðuneytið að breytt verði reglugerð um stærð og þyngd ökutækja á þann veg að leyfðar verði undanþágur frá þungatakmörkunum vegna ökutækja sem notuð eru við snjómokstur og hálkuvarnir. Unnt er að senda inn umsagnir um breytingartillöguna á netfangið [email protected] til og með 30. apríl.
Breytingartillagan snýst um að bæta við undanþáguheimild í 12. grein reglugerðar nr. 155/2007 um stærð og þyngd ökutækja. Í greinargerð Vegagerðarinnar fyrir breytingartillögunni segir að breyttar og auknar kröfur um snjómokstur og hálkuvarnir á þjóðvegum hafi leitt til aukins og þyngri búnaðar á snjómoksturstækjum. Það þýði í mörgum tilfellum að ás- og heildarþungi þeirra ökutækja fari yfir almenn mörk um leyfðan þunga á vegakerfinu. Þá segir einnig að hlutfall þessara ökutækja í heildarumferð þungra ökutækja sé mjög lágt og á þeim árstíma sem vinna með þessi tæki standi yfir séu vegir yfirleitt frosnir og með mikið burðarþol.