Forsætisráðherra ávarpar leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um ný heimsmarkmið
Forsætisráðherra ávarpaði í gær leiðtogafund aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna (SÞ) þar sem samþykkt voru ný heimsmarkmið allra 193 aðildarríkja SÞ um sjálfbæra þróun. Forsætisráðherra fagnaði samþykkt nýrra heimsmarkmiða og kvað þau vera til marks um kraft alþjóðlegrar samvinnu. Í ávarpi sínu lagði forsætisráðherra m.a. áherslu á jafngildi markmiðanna og að árangur á einu sviði gæti liðkað fyrir árangri á öðru sviði. Lagði hann m.a. áherslu á mikilvægi endurnýjanlegrar orku, stöðvun landeyðingar, sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins, jafnrétti kynjanna og framfarir í lækningu sjúkdóma og skaða á taugakerfinu. Forsætisráðherra kom inn á mikilvægi þess að heimsmarkmiðin fjalli einnig um margvíslegar ástæður fólksflutninga og þörf alþjóðlegrar samvinnu því tengdu. Þá gerði forsætisráðherra grein fyrir fyrirætlunum Íslands í samstarfi við Evrópusambandið og Noreg um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda um 40%. Sjá nánar í ávarpi forsætisráðherra.
Heimsmarkmiðin eru sautján með 169 undirmarkmiðum. Þau taka gildi árið 2016 og gilda til ársins 2030. Markmiðin, ásamt pólitískri yfirlýsingu, áætlun um framkvæmd og eftirfylgni ná yfir afar vítt svið. Með samþykkt þeirra er stefnt að því að útrýma fátækt, tryggja velmegun, mannréttindi og jafnrétti um allan heim - með hliðsjón af umhverfi okkar. Enginn verður skilinn eftir - er rauður þráður markmiðanna.
- Ávarp forsætisráðherra (ávarpið er á ensku)