Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2006 Forsætisráðuneytið

Fundargerð 14. fundar stjórnarskrárnefndar

1. Inngangur

Fundur var settur á Hótel Reykjavík Centrum hinn 23. janúar 2006 klukkan 08.30 árdegis. Mætt voru úr stjórnarskrárnefnd: Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Jón Kristjánsson (formaður), Kristrún Heimisdóttir, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Guðjón A. Kristjánsson, Jónína Bjartmarz og Steingrímur J. Sigfússon voru forfölluð. Þá voru einnig mætt úr sérfræðinganefnd um stjórnarskrána: Björg Thorarensen, Eiríkur Tómasson (formaður) og Kristján Andri Stefánsson. Gunnar Helgi Kristinsson var staddur erlendis. Páll Þórhallsson ritaði fundargerð.

Lögð var fram fundargerð síðasta fundar og var hún samþykkt.

Þá voru lagðar fram til kynningar fundargerðir 20.-23. fundar sérfræðinganefndarinnar.

Formaður bar nefndarmönnum kveðju Steingríms J. Sigfússonar sem liggur á sjúkrahúsi eftir bílslys. Yrði hann frá störfum næstu vikurnar. Nefndarmenn báðu fyrir hlýjar kveðjur til Steingríms og óskuðu honum góðs bata.

2. Erindi sem borist hafa nefndinni

Ekki höfðu borist nein ný erindi frá síðasta fundi. Ritari greindi frá undirbúningi ráðstefnu um forsetaembættið í samvinnu við Sagnfræðingafélag Íslands. Yrði hún haldin laugardaginn 25. mars næstkomandi í Þjóðminjasafninu. Fram komu ábendingar um tilhögun dagskrár sem ritara var falið að koma á framfæri.

3. Vinnulag næstu mánuði

Formaður gerði vinnulag næstu mánuði að umtalsefni. Til álita kæmi að skipta nefndinni upp í vinnuhópa um afmörkuð viðfangsefni. Tóku nefndarmenn undir að þetta gæti verið vænleg leið til að koma meiru í verk á skemmri tíma. Var því beint til formanns og ritara að setja upp fundaáætlun á þeim grunni sem rædd yrði á næsta fundi.

4. Efnisleg umræða um einstök stjórnarskrárákvæði

Eiríkur Tómasson gerði grein fyrir starfi sérfræðinganefndarinnar frá síðasta fundi og kynnti minnisblað um helstu spurningar sem svara þyrfti við endurskoðun II. kafla stjórnarskrárinnar.

Haldið var áfram umræðu um forsetaembættið og ríkisstjórn og tengd atriði eins og þjóðaratkvæðagreiðslur. Meðal annars komu fram þau sjónarmið að æskilegt væri að nefndin kæmi sér saman um ákvörðunarskjal sem tæki á helstu efnisatriðum. Því næst yrði hægt að fela sérfræðinganefndinni útfærsluna.

Einn nefndarmanna lagði fram minnisblað með tilteknum hugmyndum sem ættu erindi í slíkt ákvörðunarskjal. Voru þær ræddar og ákveðið að þær myndu vera áfram til umræðu á næstu fundum.

5. Önnur mál

Fleira var ekki rætt og var fundi slitið kl. 12. Var næsti fundur ákveðinn mánudaginn 27. febrúar frá kl. 8.30-12.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta