Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2021 Innviðaráðuneytið

Ný Oddabrú sameinar samfélag í Rangárþingi

Við opnun Oddabrúar: Frá vinstri: Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, og sr. Elín Hrund Kristjánsdóttir, sóknarprestur í Odda. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, opnaði nýja brú yfir Þverá með viðhöfn í tengslum við fjölmenna Oddahátíð á laugardaginn var. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, og sr. Elín Hrund Kristjánsdóttir, sóknarprestur í Odda voru einnig viðstödd opnun brúarinnar ásamt fjölda gesta hátíðarinnar.

Brúin, sem 93 m á lengd, er langþráð samgöngubót en hún tengir Oddahverfi á Rangárvöllum við Bakkabæi sunnan Þverár og Landeyjar og styttir akstursleiðir íbúa um 15 km. Oddabrú er mikilvæg öryggisleið ef til náttúruhamfara kemur og þörf reyndist að rýma svæðið í skyndi. Brúin eykur möguleika íbúa og ferðafólks að ferðast innan héraðs og skapar fjölbreyttari möguleika til ferðaþjónustu. 

„Það er mér sérstakt gleðiefni að á þessari glæsilegu afmælishátíð Oddafélagsins að opna brúna yfir Þverá og koma á vegtengingu innan þessa stórfenglega svæðis hér hjá Odda,“ sagði Sigurður Ingi í ávarpi sínu við opnun brúarinnar. „Það er ánægjulegt að fylgjast með áformum um mikla uppbyggingu sem er framundan á Odda og mun nýja vegtengingin færa Odda aftur í alfaraleið líkt og á tímum Oddaverja. Með þessum samgöngubótum tengjast Bakkabæir Rangárvöllum á eðlilegri hátt og í samræmi við það sem áður var. Svæðið verður ein heild og samgöngur mun betri innan héraðs,“ sagði ráðherra.

Sveitarfélagið Rangárþing ytra hafði frumkvæði að verkefninu og sá um framkvæmdir í góðu samstarfi og með ráðgjöf Vegagerðarinnar. Við athöfnina var Vegagerðinni afhent vegtengingin og brúarmannvirkið endurgjaldslaust í samræmi samning milli Vegagerðarinnar og sveitarfélagsins Rangárþings ytra frá árinu 2016. Vegagerðin mun í sumar leggja varanlega klæðningu á veginn.

„Það er rík ástæða til að fagna hinu góða samstarfi sveitarfélagsins Rangárþings ytra og Vegagerðarinnar við að koma á þessari langþráðu og þörfu vegtengingu og tryggja öryggisleið fyrir íbúa í Rangárþingi,“ sagði Sigurður Ingi í ávarpi sínu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta