Netöryggisráðstefna Atlantshafsbandalagsins haldin á Íslandi
Um 200 sérfræðingar í netöryggismálum frá bandalagsríkjum Atlantshafsbandalagsins tóku þátt í ráðstefnu sem fram fór í Reykjavík dagana 9.-11. apríl. Þar voru til umræðu helstu áskoranir og ógnir sem stafa að netöryggi ríkjanna, en viðburðurinn var haldinn á vegum Atlantshafsbandalagsins í samstarfi við varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og netöryggissveit íslenskra stjórnvalda, CERT-IS.
„Netöryggismál hafa að undanförnu fengið aukið vægi hér heima, sem og innan Atlantshafsbandalagsins, og það er afar mikilvægt að Ísland taki áfram virkan þátt í samtali og samstarfi á því sviði. Þarna höfum við tækifæri til að leggja meira af mörkum til bandalagsins samhliða því að efla eigin varnir og getu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Fulltrúar frá herstjórnum, greiningardeilum, netöryggissveitum og einkafyrirtækjum á sviði netöryggismála tóku þátt í ráðstefnunni þar sem sjónum var beint að óvinveittum aðgerðum ríkja og hópa sem ógnað geta öryggi bandalagsríkja. Netöryggismál eru í brennidepli hvað varðar viðbúnað og varnir bandalagsins og hefur Ísland tekið virkari þátt í samstarfi bandalagsríkja á þessu sviði á síðustu árum, svo sem í æfingum, upplýsingaskiptum og viðbúnaðaráætlunum.