Byggðaáætlun 2022-2036 samþykkt á Alþingi
Alþingi samþykkti í gær þingsályktunartillögu innviðaráðherra um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036 og aðgerðaáætlun fyrir árin 2022-2026. Aðgerðaáætlunin kveður á um 44 aðgerðir. Öll ráðuneytin eru beinir aðilar að byggðaáætlun og ber hvert þeirra ábyrgð á minnst einni aðgerð. Flestar aðgerðirnar eru á ábyrgð innviðaráðuneytis, alls 12 og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið ber ábyrgð á 10 aðgerðum.
Samráð og samhæfing eru leiðarljós við mótun og framkvæmd byggðaáætlunar. Samráðið er ekki hvað síst við sveitarfélög í gegnum landshlutasamtök þeirra og Samband íslenskra sveitarfélaga og við ráðuneyti í gegnum stýrihóp Stjórnarráðsins um byggðamál. Samhæfingin birtist meðal annars í nánu samráði við ábyrgðaraðila annarra málaflokka ríkisins þar sem leitað er leiða til að tengja byggðaáætlun sem mest við aðrar opinberar stefnur á áætlanir.