Hoppa yfir valmynd
13. júlí 2022 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 271/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. júlí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 271/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22050044

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.         Málsatvik

Þann 24. ágúst 2021 kærði einstaklingur sem kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. ágúst 2021, um að hafna umsókn hans um dvalarleyfi, sbr. 4. mgr. 51. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Með úrskurði dags. 14.október 2021, nr. 500/2021, staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar.

Hinn 24. maí 2022 barst kærunefnd beiðni frá kæranda um endurupptöku málsins, ásamt fylgigögnum. Kærandi gerir kröfu um að málið verði endurupptekið og honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 51. gr. sömu laga.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann byggi endurupptökubeiðni sína á því að aðstæður hans hafi breyst frá því að kærunefnd kvað upp úrskurð nr. 500/2021 þar sem nefndin staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar frá 9. ágúst 2021 um synjun á umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar. Kærandi hafi 13. maí sl. gengið í hjúskap með eiginkonu sinni hér á landi, sbr. vottorð sem hann hafi lagt fram með endurupptökubeiðninni. Að mati kæranda beri kærunefnd að taka til skoðunar að nýju umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga og veita honum dvalarleyfi skv. 70. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 51. gr. sömu laga.

 

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi beiðni um endurupptöku

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum kemur m.a. fram:

Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. á aðili rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef íþyngjandi ákvörðun um viðvarandi boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Ef atvik þau, sem talin voru réttlæta slíka ákvörðun, hafa breyst verulega er eðlilegt að aðili eigi rétt á því að málið sé tekið til meðferðar á ný og athugað hvort skilyrði séu fyrir því að fella ákvörðunina niður eða milda hana. Ákvæði þetta hefur náin tengsl við meðalhófsregluna í 12. gr. 

Kærandi byggir eins og áður segir endurupptökubeiðni sína á því að breyttar aðstæður séu uppi í máli hans þar sem hann hafi hinn 13. maí 2022 gengið í hjúskap með eiginkonu sinni. Því til stuðnings lagði kærandi fram afrit af hjúskaparvottorði útgefnu af sýslumanninum á Suðurnesjum.

Í gögnum málsins liggur fyrir að hinn 17. desember 2020 lagði kærandi fram til Útlendingastofnunar umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara. Útlendingastofnun hafnaði umsókn kæranda, meðal annars á þeim forsendum að kærandi hefði ekki haft heimild til að vera á landinu þegar umsókn um dvalarleyfi var lögð fram og aðstæður í máli hans væru ekki þess eðlis að undanþágur 51. gr. laga um útlendinga ættu við. Kærandi kærði þá ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar 24. ágúst 2021. Lauk því máli hjá kærunefnd með fyrrgreindum úrskurði nr. 500/2021.

Í gögnum dvalarleyfismáls kæranda var afrit af hjúskaparvottorði útgefið af sómölskum dómstól, dags. 5. nóvember 2020. Var hjúskaparvottorðið jafnframt lagt fram við meðferð endurupptökumáls kæranda hjá kærunefnd sem lauk með úrskurði nr. 343/2021 kveðnum upp 15. júlí 2021.

Í úrskurði kærunefndar nr. 500/2021, stjórnsýslumál nr. KNU21080042, var vísað til þess að verulegur vafi lægi á réttmæti framlagðs hjúskaparvottorðs með tilliti til áreiðanleika þess. Þá væri ljóst að kærandi hefði greint frá því að hafa aldrei komið til Sómalíu og því hefði hann ekki verið viðstaddur hjónavígslu þar. Var vísað til þess að kærunefnd hefði í fyrri úrskurðum komist að þeirri niðurstöðu að svokallaðar fulltrúagiftingar þar sem annað eða bæði hjónaefnanna væri ekki viðstatt hjónavígslu færi í bága við meginreglu íslensks hjúskaparréttar og allsherjarréttar og gæti því ekki veitt rétt til dvalarleyfis á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga þar af leiðandi ætti ákvæði 3. mgr. 51. gr. laganna ekki við.

Kærandi hefur nú lagt fram hjúskaparvottorð útgefið af sýslumanninum á Suðurnesjum hinn 13. maí 2022. Á því kemur fram að kærandi og kona að nafni [...] hafi, eftir að hafa sýnt og lagt fram nauðsynleg skilríki samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993, verið gefin saman í hjónaband.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. hjúskaparlaga skulu hjónaefni áður en hjónvígsla fer fram leggja fram vottorð þess efnis að könnun hafi átt sér stað á hjónavígsluskilyrðum samkvæmt því sem segi í II. kafla og að lög tálmi ekki ráðahagnum. Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. setur ráðuneytið nánari reglur um könnun á hjónavígsluskilyrðum, þar á meðal um þau skilríki sem krefja skuli hjónaefni um við gæslu þessara skilyrða, svo sem fæðingarvottorð og gögn um lok fyrri hjúskapar.

Í 2. gr. reglugerðar nr. 55/2013 um könnun hjónavígsluskilyrða kemur fram að þegar hjónaefni óska eftir könnun á hjónavígsluskilyrðum skulu þau leggja fram fyrir könnunarmann eftirtalin gögn:

  1. Fæðingarvottorð.
  2. Persónuskilríki með nafni hjónaefnis, ljósmynd og fæðingardegi til sönnunar, svo sem vegabréf, ökuskírteini eða nafnskírteini.
  3. Vottorð frá Þjóðskrá Íslands um hjúskaparstöðu eða sambærilegt vottorð frá erlendu yfirvaldi ef unnt er.

Á framangreindu hjúskaparvottorði kæranda koma ekki fram frekari upplýsingar um skilríki þau sem kærandi og eiginkona hans hafi lagt fram fyrir könnunarmann en samkvæmt vottorðinu þá verður ekki annað ráðið en að könnunarmaður hafi talið þau fullgild.

Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að atvik málsins hafi breyst verulega frá því ákvörðun var tekin. Kærunefnd fellst því á að tilefni sé til að endurupptaka mál kæranda hjá nefndinni á grundvelli 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

IV.    Niðurstaða kærunefndar útlendingamála varðandi umsókn um dvalarleyfi

Úrlausnarefni málsins er að skera úr um hvort staðfesta eigi ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar samkvæmt 70. gr. laga um útlendinga.

Í VIII. kafla laga um útlendinga er fjallað um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laganna er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laga um útlendinga og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 70. gr. laganna. Þá segir í sama ákvæði að sambúð skuli hafa varað lengur en eitt ár og hvor aðili um sig verði að hafa verið eldri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins eða sambúðarinnar og að hjúskapur eða sambúð þurfi að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögheimilislögum. Heimilt sé að krefja aðila um að leggja fram gögn til sönnunar á hjúskap eða sambúð erlendis.

Í málinu liggur fyrir hjúskaparvottorð, dags. 13. maí 2022, útgefið af sýslumanninum á Suðurnesjum. Á vottorðinu kemur fram að kærandi og [...] hafi eftir að hafa sýnt og lagt fram nauðsynleg skilríki samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993 verið gefin saman í hjónaband.

Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að stuðla að réttaröryggi aðila máls með skoðun máls hans á tveimur stjórnsýslustigum. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að rétt sé að Útlendingastofnun taki mál kæranda til til nýrrar meðferðar og afstaða verði tekin til gildi þeirra gagna sem kærandi hefur lagt fram hjá kærunefnd og skilyrða laga um útlendinga sem ekki komu til skoðunar þegar Útlendingastofnun tók ákvörðun í máli hans. Kærandi getur þá eftir atvikum leitað endurskoðunar á ákvörðun Útlendingastofnunar hjá kærunefnd útlendingamála. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 


 

 

Úrskurðarorð:

 

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

The appellant´s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration is instructed to re-examine the appellant‘s case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

                                                                                                                                   Gunnar Páll Baldvinsson                                                             Sandra Hlíf Ocares


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta