Álit, að því er tekur til markmiða í skólanámskrá í kristinfræði í 1. bekk grunnskóla
Mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafa undanfarin ár borist reglulega fyrirspurnir er lúta að mismunandi samstarfi skóla og kirkju eða framkvæmd kristinfræðikennslu í skólum.
Í aðalnámskrá grunnskóla í kristin fræði, siðfræði og trúarbragðafræði í grunnskóla eru sett fram markmið til viðmiðunar í kennslu í greininni og er kennslustundafjöldi sem nemendur eiga rétt á skilgreindur í almennum hluta aðalnámskrár. Í inngangi að námskránni er sérstaklega bent á að saga og menning þjóðarinnar verði vart skilin án þekkingar á kristinni trú og siðgæði og sögu kristinnar kirkju. Svo samofin er kristin trú menningu þjóðarinnar svo og vestrænni sögu og menningu.
Inntak námsgreinarinnar er þríþætt. Í fyrsta lagi fræðsla um kristna trú og menningu og sögu kirkjunnar, í öðru lagi siðferðileg viðfangsefni og í þriðja lagi fræðsla um helstu trúarbrögð heims. Grunnskólar geta haft samstarf við kirkjuna um ýmis konar verkefni sem miða að því að ná markmiðum aðalnámskrár grunnskóla en í aðalnámskrá eru skýr ákvæði um að í kennslu felist ekki trúboð heldur fræðsla um kristni, önnur trúarbrögð og siðfræði. Nám í kristnum fræðum, siðfræði og trúarbragðafræði skal einkennast af lýðræðislegu samstarfi, kristilegu siðgæði og umburðarlyndi sbr. 2. laga um grunnskóla þar sem kveðið er á um hlutverk grunnskóla. Í námskránni er lögð áhersla á vaxandi fjölmenningu þar sem skólinn komi til móts við óskir um fræðslu um trú og menningu nemenda og stuðli þannig að auknum skilningi, virðingu og umburðarlyndi. Markmið í aðalnámskrá eru sett fram á þessum forsendum. Sérstaklega er á það bent í inngangi námskrárinnar að skólinn sé fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun og því fyrst og fremst ætlað að miðla þekkingu og auka skilning á kristinni trú og öðrum trúarbrögðum. Skólar bera sjálfir faglega ábyrgð á útfærslu markmiða í kennslu og kennsluháttum. Kennsla er leið að settu marki og á að taka mið af þörfum einstaklingsins hverju sinni og þeim markmiðum sem stefnt er að.
Í markmiðum aðalnámskrár er ekki gert ráð fyrir að fram fari kirkjustarf í grunnskóla í þeim kennslustundum sem ætlaðir eru til kennslu í skyldunámsgreinum enda er það hlutverk viðkomandi kirkju eða trúfélags að annast slíka fræðslu. Þetta á t.d. við um fermingarfræðslu og hefur grunnskólum verið sent formlegt bréf vegna þeirrar fræðslu sérstaklega en þetta á einnig við um annað kirkjustarf. Mennta- og menningarmálaráðuneytið lítur svo á að fermingarfræðsla og annað kirkjustarf eigi að fara fram utan lögbundins skólatíma nemenda. Annað fyrirkomulag samrýmist ekki grunnskólalögum eða aðalnámskrá grunnskóla.
Mennta- og menningarmálaráðherra setur leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum aðalnámskrár sbr. lög um þessi skólastig. Sveitarfélög og skólarnir sjálfir undir forystu skólastjórnenda eru samkvæmt grunnskólalögum ábyrgir fyrir skólastarfi í sínum skóla. Eins og fram kemur í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla setur aðalnámskrá skólum almenn viðmið en það er hins vegar hvers skóla að útfæra þau nánar bæði með tilliti til þess nemendahóps sem stundar nám í skólanum sem og þeirra kennsluhátta sem skólinn aðhyllist. Skólum ber samkvæmt lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 að gefa út starfsáætlun og skólanámskrá þar sem fram kemur nánari útfærsla á aðalnámskrá grunnskóla. Í skólanámskrá útfærir skólinn t.d. ýmis almenn og fagbundin markmið aðalnámskrár og þar kemur einnig fram hvernig skólinn skipuleggur kennsluna.
Það er mat ráðuneytisins að með breytingum á markmiðsgreinum laga um leikskóla og grunnskóla sem tóku gildi 2008 og breytingum á námskrám sem lýst er hér að framan leitist ráðuneytið við að koma til móts við mismunandi lífsskoðanir fólks í landinu.
Grunnskólinn er eina skólaskylda skólastigið á Íslandi og er rekstur þess í höndum sveitarfélaga. Mennta- og menningarmálaráðuneytið setur hins vegar grunnskólum lög, reglugerðir og aðalnámskrár og annast jafnframt eftirlit með skólahaldi, en sveitarfélög annast einnig sjálf eftirlit, skv. grunnskólalögum. Sveitarfélög bera samkvæmt grunnskólalögum ábyrgð á því hvort skólastarf sé í samræmi við lög og reglugerðir. Sveitarfélög og skólarnir sjálfir undir forystu skólastjórnenda, sem samkvæmt grunnskólalögum eru ábyrgir fyrir skólastarfi í sínum skóla vega það og meta í samvinnu við foreldara nemenda sinna hvort þeir vilji nýta sér þjónustu kirkjunnar eða ekki og hvort þeir vilji skapa henni aðstöðu innan veggja skólans. Sveitarfélög og skólarnir þurfa almennt að vega og meta hvaða utanaðkomandi þjónustu þeir þiggja og hvaða aðstaða er veitt innan skólans, enda sé farið að lögum og reglugerðum sem málið varða. Einnig ber skólum að skýra frá því í skólanámskrá skólans og starfsáætlun.