Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 15. janúar 2021

Heil og sæl og gleðilegt ár!

Utanríkisþjónustan er komin á fullan snúning eftir góða en öðruvísi jólahátíð sem auðvitað var lituð af heimsfaraldri kórónuveirunnar. Við hefjum þennan fyrsta föstudagspóst ársins á fyrstu skýrslu ársins sem gefin var út á dögunum. Skýrslan ber hið hressandi nafn Áfram gakk! og fjallar um allar hliðar utanríkisviðskipta Íslands. Skýrslan kom út þann 6. janúar síðastliðinn og ítarlega var fjallað um hana í Morgunblaðinu og þar á meðal á forsíðu blaðsins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, skrifaði einnig grein í tilefni af útgáfu skýrslunnar sem birtist í Viðskiptablaðinu í gær en um þessar mundir eru einnig liðin fjögur ár frá því að hann tók við embætti.

„Allar götur frá því að ég tók við embætti utanríkisráðherra fyrir rúmum fjórum árum hef ég lagt höfuðáherslu á að efla utanríkisviðskipti og að standa vörð um hagsmuni íslenskra útflutningsgreina. Frjáls viðskipti eru forsenda efnahagslegra framfara eins og Íslendingar þekkja svo vel af eigin raun,“ ritaði ráðherra. 

Í tilefni af fjögurra ára starfsafmælinu sendi ráðherra kveðju á Facebook í myndskeiði sem áhugasamir geta horft á hér fyrir neðan. Á næstunni mun ráðherra birta fleiri slík myndskeið þar sem farið verður yfir helstu þætti úr hans ráðherratíð. Á meðal þess sem má nefna í því sambandi er að á þessum tíma hefur hann átt 369 fundi með ráðherrum og fulltrúum erlendra ríkja og yfirmönnum alþjóðastofna (þar af 119 fundi í fyrra).

Ljóst er að utanríkisráðuneytið hefur hafið árið af krafti en á miðvikudag hélt ráðherra uppteknum hætti og bauð upp á óundirbúinn fyrirspurnatíma á Facebook, sem hefur notið mikilla vinsælda upp á síðkastið. Hægt er að fylgjast með því sem fram fór hér

Guðlaugur Þór lét einnig í sér heyra í kjölfar óeirðanna er múgur braust inn í þinghús Bandaríkjanna. „Ógnvekjandi fréttir frá Bandaríkjunum, öflugasta lýðræðisríkis heims. Nú ríður á að hratt og vel takist að kveða niður þessa árás á þingið. Mikilvægt að heyra háttsetta þingmenn úr báðum flokkum tala gegn ofbeldi og standa vörð um lýðræðisleg gildi á þessari ögurstundu,“ skrifaði ráðherra á Facebook.

Síðasti föstudagspóstur kom út á Þorláksmessu og þótt tíminn á milli jóla og nýárs sé iðulega með rólegra móti í utanríkisþjónustunni var hitt og þetta sem átti sér stað. Við áramót hefst iðulega nýr kafli í lífi fólks, margir staldra við og velta fyrir sér hvað framtíðin ber í skauti sér. Það má með sanni segja að nýr kafli hafi hafist í samskiptum Íslands og Bretlands um áramótin er EES-samningurinn hætti að gilda um Bretland. Af því tilefni stakk ráðherra einnig niður penna. 

„Þótt að ýmsu sé að hyggja varðandi útgöngu Breta úr ESB hafa lykilhagsmunir Íslands verið tryggðir. Ég er sannfærður um að spennandi tímar séu framundan í sambandi okkar við þessa góðu granna okkar,“ sagði ráðherra meðal annars í grein sinni í Morgunblaðinu.

Guðlaugur Þór ritaði einnig grein um sama efni í Fréttablaðið þar sem hann skrifaði m.a. um viðræður Íslands, sem er í samfloti við Noregi og Liechtenstein, um fríverslunarsamning við Bretland.

„Á aðfangadag bárust svo þau jákvæðu tíðindi að Bretland og ESB hefðu náð samningnum um framtíðarsamband sitt. Þær lyktir eiga eftir að gagnast okkur á margan hátt og verða um leið gott veganesti í endasprettinum framundan,“ sagði Guðlaugur Þór.

Í þessu samhengi er vert að minnast á fund utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra með Michel Barnier, aðalsamningamanni ESB gagnvart Bretlandi, sem fór fram á þriðjudaginn sl. Þar hafði ráðherra eftirfarandi að segja: 

„Það var afar gagnlegt að fá innsýn frá fyrstu hendi inn í samninginn og ferlið. Við vitum að þetta samkomulag var erfitt í fæðingu en nú ríður á að horfa til framtíðar og vinna sameiginlega að því að tryggja gott samstarf Bretlands, Evrópusambandsins og EFTA-ríkjanna innan EES,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundinn.

Við lítum þessu næst til starfs sendiskrifstofa okkar upp á síðkastið. Starf margra þeirra hefur auðvitað verið undirlagt af borgaraþjónustutengdum málum og það breyttist ekkert yfir jólahátíðina þegar veiran fór að dreifa sér af meiri krafti um heiminn. Það er þó engin ástæða til þess að vera reifa þau mál hér. Það sem skiptir máli er að okkar fólk stendur vaktina!

Fyrst ber að minnast á nýja færslu Brussel-vaktarinnar sem kom út í dag en þar er aðgangur að bóluefni er í brennidepli. Óhætt er að mæla með lestri!

Það er sjaldan lognmolla hjá fastanefnd Íslands í Genf og þann 5. janúar tók Liechtenstein við af Íslandi við að leiða starf Vesturlandahópsins í mannréttindaráðinu. Formennskunni var hleypt af stokkunum af utanríkisráðherra í byrjun árs 2020 en varð fljótlega eftir það að rafrænni formennsku á meðan unnið var með forseta ráðsins að því að tryggja hvernig hið mikilvæga starf ráðsins gæti haldið áfram í skugga COVID-19.

Í sömu viku stýrði fastafulltrúi Íslands viðskiptarýni Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um Indland. Á fundinum minnti Katrín Einarsdóttir varafastafulltrúi Íslands á mikilvægi þess að ljúka viðræðum um fríverslunarsamning við EFTA og spurði einnig út í aðgerðir Indverja sem miða að jafnrétti kynjanna í viðskiptum

Í Strassborg hófst starf Evrópuráðsins af krafti í vikunni með fundum um drög að nýjum stefnumiðum fyrir starf ráðsins næstu árin. Ragnhildur Arnljótsdóttir fastafulltrúi tók þátt í umræðunni þar sem hún fagnaði drögunum. Hún áréttaði einnig mikilvægi þess að Evrópuráðið haldi áfram starfi sínu að styðja mannréttindi, lýðræði og réttarríkið í aðildarríkjum sínum, með aukinni áherslu á skilvirkni starfsins og markvisst starf þess næstu ár.

Í New York í byrjun árs afhenti Jörundur Valtýsson trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Kúbu með aðsetur í New York. Athöfnin fór fram í fastanefnd Kúbu gagnvart Sameinuðu þjóðunum og var í formi rafræns fundar með forseta Kúbu, Miguel Díaz-Canel Bermúdez. 

Í Osló fundaði Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra með Karntimon Ruksakiati nýjum sendiherra Taílands en hún afhenti Noregskonungi trúnaðarbréf sitt í nóvember. Meðal annars var rætt um alþjóðamál, samskipti ríkjanna, heimsfaraldurinn og bóluefnamál, ræðismál og trúnaðarbréfsafhendingar. Ruksakiati er ein af 38 sendiherrum í Osló sem hefur Ísland í umdæmi sínu og bíður þess að geta afhent forseta Íslands trúnaðarbréf sitt. 

Sendiráð okkar í Moskvu vakti svo athygli á Facebook-síðu sinni á því að nýr sendiherra Rússlands á Íslandi, Mikhaíl Noskov, hefði afhent forseta Íslands, herra Guðna Th. Jóhannessyni, trúnaðarbréf sitt við athöfn á Bessastöðum.

Fyrir þau sem enn hafa ekki séð nýárskveðju ráðherra má nálgast hana hér en þar gefur að líta greinargott yfirlitt yfir árið 2020. Ljóst er að afar krefjandi ár er baki og stríðinu við veiruna er hvergi nærri lokið, en nú hækkar sól á lofti og ekkert annað gera en að segja áfram gakk og komum fagnandi (eins og Eyjamenn sungu forðum), inn í árið 2021!

Í næstu viku mun ráðherra kynna Áfram Gakk! fyrir utanríkismálanefnd og flytja innlegg á UN Food System Summit and Hight Level Energy Dialogue. Auk þess kemur Alþingi saman eftir hlé, svo eitthvað sé nefnt.

Ekki var það fleira í bili.

Bestu kveðjur,

upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta