Breyting á reglugerð um starfsleyfi fyrir mengandi atvinnurekstur í umsögn
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar eftir umsögnum um breytingu á reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.
Mikilvægt er að á iðnaðarsvæðum, þar sem fleiri en eitt fyrirtæki er með mengandi starfsemi, sé heildstæð umhverfisvöktun svo hægt sé að fylgjast með ástandi umhverfisins og miðla því til almennings. Með breytingunni er sett fram skilgreining á því hvað sameiginleg vöktun felur í sér og er Umhverfisstofnun gert kleyft að setja það sem skilyrði í starfsleyfi vegna starfsemi rekstraraðila að þeir viðhafi sameiginlega vöktun þegar það á við. Áfram mun hver rekstraraðili bera ábyrgð á sinni losun í umhverfið enda einungis um að ræða sameiginlega vöktun.
Gert er ráð fyrir að það verði í höndum sveitarstjórnar að ákveða með hvaða hætti umsóknareyðublöð fyrir starfsleyfi og aðrar upplýsingar því tengdar verði gerðar aðgengilegar almenningi.
Umhverfisstofnun fær auknar heimildir til að gera kröfur til rekstraraðila svo að fyrirbyggja megi mengun og koma rekstrarsvæði í viðunandi horf eftir að starfsemi er hætt.
Óskað er eftir að umsagnir um reglugerðardrögin berist fyrir 21. desember nk. á netfangið [email protected] eða í bréfpósti, á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík.