Jökulsárlón í eigu ríkisins
Kaup ríkisins á Felli í Suðursveit eru nú frágengin en ríkisstjórnin ákvað í gær að nýta forkaupsrétt ríkisins á jörðinni. Stefnt er að því að landareignin verði hluti Vatnajökulsþjóðgarðs.
Jörðin Fell er landmikil. Hún nær yfir Jökulsárlón að hluta og á bæði landamerki að þjóðlendu og Vatnajökulsþjóðgarði. Landareignin var seld á nauðungarsölu til slita á sameign í haust en samkvæmt lögum um náttúruvernd hafði Ríkissjóður forkaupsrétt að henni þar sem hún er á náttúruminjaskrá. Hafa umhverfis- og auðlindaráðuneytið og fjármálaráðuneytið um nokkurt skeið unnið að því að ríkið nýtti forkaupsrétt sinn og m.a. var í því skyni tryggð fjárheimild fyrir þeim í fjáraukalögum ársins 2016. Kaupverð eignarinnar er 1.520 milljónir króna.
Náttúra þessi svæðis er einstök. Jökulsárlón er jafnframt einn fjölsóttasti ferðamannastaður landsins. Á síðasta ári er áætlað að um 500 þúsund gestir hafi heimsótt staðinn og skiptir því miklu að innviðir á svæðinu séu góðir til að tryggja vernd náttúru og sjálfbæra nýtingu. Til þessa hefur flókið eignarhald á jörðinni Felli staðið þróun svæðisins fyrir þrifum en með kaupum ríkisins á landareigninni skapast möguleikar á að hefja nauðsynlega uppbyggingu svæðisins.
Ríkið átti fyrir stóran hluta Jökulsárlóns en fullt eignarhald ríkisins einfaldar til muna það ferli sem ráðast þarf í til að þessi náttúruperla geti orðið hluti Vatnajökulsþjóðgarðs. Nýverið samþykkti ríkisstjórnin að unnið verði að tilnefningu Vatnajökulsþjóðgarðs sem náttúruminja á heimsminjaskrá UNESCO og má gera ráð fyrir að það styrki tilnefninguna til muna að Jökulsárlón verði hluti þjóðgarðsins.