Hoppa yfir valmynd
25. janúar 2013 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 85/2012

Úrskurður

 

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 25. janúar 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 85/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Velferðarráðuneytinu barst 4. ágúst 2011 kvörtun frá A, dags. 28. júlí 2011. Kvörtunin varðaði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að synja kæranda um að aðstoð við að sækja um störf fyrir hann þar sem vinnuvélaréttinda er krafist, þar sem hann hefur ekki slík réttindi. Velferðarráðuneytið framsendi erindi kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 18. maí 2012, með vísan til 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Ráðuneytið taldi að líta beri á erindi kæranda sem stjórnsýslukæru þar sem kærð sé ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. maí 2011, um að synja kæranda um aðstoð við að sækja um störf þar sem gerðar séu kröfur um að þeir sem ráðnir verði til að gegna umræddum störfum hafi tilskilin réttindi til að stjórna vinnuvélum. Það sé því hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða en ekki ráðuneytisins að taka erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu. Erindið hafi fyrir mistök verið sett í rangan farveg. Var þess farið á leit, með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga, þar sem kærufrestur samkvæmt lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, var liðinn, að úrskurðarnefndin tæki erindið til efnislegrar afgreiðslu.

 

Vinnumálastofnun telur að sér sé ófært að aðstoða kæranda með að sækja um störf þegar kærandi krefst þess að stofnunin tiltaki í umsókninni að hann hafi vinnuvélaréttindi. Kærandi óskað aðstoðar við atvinnumál sín.


Eftir að kærandi hafði fullnýtt bótarétt sinn hjá Vinnumálastofnun hélt hann áfram að nýta sér vinnumiðlun stofnunarinnar eins og honum var heimilt. Kærandi óskaði eftir því að Vinnumálastofnun þann 9. maí 2011 aðstoðaði hann við að sækja um starf þar sem skilyrði var að umsækjendur hefðu vinnuvélaréttindi. Aðspurður um réttindi til slíkra starfa framvísaði kærandi skírteini þar sem er vottað að hann hafi lokið 80 kennslustunda bóklegu námi á vinnuvélar og hafi náð tilskildum árangri. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnueftirliti ríkisins hafði kærandi einungis lokið bóklega hluta umræddra réttinda. Með því öðlaðist hann rétt til að leita æfingatíma hjá aðila sem hefur kennararéttindi og að því loknu hefur hann rétt til að taka verklegt próf hjá prófdómara frá Vinnueftirlitinu. Vinnuréttindaskírteini er ekki gefið út fyrr en viðkomandi hefur klárað verklega prófið.

 

Kærandi kveðst hafa verið án atvinnu í fimm ár. Alltaf sé annar ráðinn í stöður og finnist honum vera að sér vegið. Hann veltir jafnvel fyrir sér hvort um geti verið að ræða skaðabótamál. Hann óskar liðsinnis við þetta mál og kveðst ekki hafa úr miklu að spila. Kærandi bendir á að hann sé með bóklegt nám á vinnuvélar en spyr hvernig hann eigi að fá reynslu á slíkar vélar ef hann fái ekki vinnu við þær.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. júní 2012, bendir stofnunin á að vinnumiðlun Vinnumálastofnunar sé starfrækt á grundvelli 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006. Af 2. mgr. 10. gr. laganna leiði að hverjum sem er, á aldrinum 16 til 70 ára, sé heimilt að leita aðstoðar hjá Vinnumálastofnun vegna atvinnuleitar. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir skuli aðili sem nýtir sér vinnumiðlun Vinnumálastofnunar leggja fram allar þær upplýsingar sem liggi fyrir um vinnufærni hans, meðal annars upplýsingar um það ef aðili hefur meirapróf eða vinnuvélaréttindi. Samkvæmt 2. gr. reglna um réttindi til að stjórna vinnuvélum, nr. 198/1983, sé skilyrði þess að geta öðlast réttindi til að stjórna vinnuvél að viðkomandi hafi lokið tilskildu námi og þjálfun, sbr. 3., 5. og 6. gr. Í 3. gr. komi meðal annars fram að að loknu prófi og þjálfun öðlist þátttakendur rétt til að gangast undir verklegt próf, sem veitir rétt til að stjórna þar til greindum tækjum og vinnuvélum í A flokki.

 

Fram kemur að kærandi hafi lagt fram til vinnumálastofnunar skírteini um að hann hefði lokið bóklega hluta vinnuvélaréttinda ferlisins en ekki vinnuvélaskírteini. Þegar Vinnumálastofnun hafi haft samband við Vinnueftirlit ríkisins hafi komið í ljós að kærandi hafði ekki lokið síðari hluta þjálfunar og staðist verklegt próf í samræmi við reglur nr. 198/1983. Vinnumálastofnun hafi því talið sér ófært að aðstoða kæranda við að sækja um störf þar sem skilyrði hafi verið að umsækjandi hefði vinnuvélaréttindi, sér í lagi þar sem kærandi vildi að stofnunin tiltæki að hann hefði viðkomandi réttindi.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 20. júní 2012. Kærandi hefur ekki komið frekari athugasemdum á framfæri.

 

 

2.

Niðurstaða

Hin kærða ákvörðun var tekin 23. maí 2011 og erindi kæranda til velferðaráðuneytisins barst 4. ágúst sama ár. Kærandi fékk ekki leiðbeiningar um að hann ætti að beina erindi sínu til úrskurðarnefndar um atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða. Með vísan til þessara atvika máls og 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður fallist á að taka kæru þessa til efnislegrar meðferðar í stað þess að vísa henni frá í samræmi við meginreglur um kærufresti, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga og 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

 

Kærandi hefur fullnýtt bótarétt sinn en nýtir sér eigi að síður vinnumiðlun Vinnumálastofnunar. Hann hefur sérstaklega óskað eftir störfum þar sem skilyrði er að umsækjandi hafi vinnuvélaréttindi. Kærandi hefur lokið 80 kennslustunda bóklegu námi á vinnuvélar, en hann hefur hvorki tekið æfingatíma né verklegt próf hjá prófdómara á viðeigandi vinnuvél.

 

Vinnumiðlun er starfrækt á grundvelli 10. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006. Í 2. mgr. 10. gr. laganna kemur fram að Vinnumálastofnun skal aðstoða alla á aldrinum 16 til 70 ára sem hafa heimild til að ráða sig til starfa hér á landi án takmarkana við atvinnuleit. Stofnunin skal miðla upplýsingum um laus störf til atvinnuleitenda og veita þeim aðstoð við að finna störf við hæfi. Þegar talið er að atvinnuleitandi uppfylli skilyrði starfslýsingar á lausu starfi skal Vinnumálastofnun veita aðstoð við að koma á sambandi milli atvinnuleitanda og þess atvinnurekanda sem óskar eftir starfsmanni.

 

Í 2. mgr. 11. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir kemur fram að þegar atvinnuleitandi sækir um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum fari fram mat á vinnufærni hans hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Atvinnuleitandi skal leggja fram allar þær upplýsingar sem liggja fyrir um vinnufærni hans svo unnt sé að aðstoða hann við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í einstökum vinnumarkaðsúrræðum.

 

Í 1. gr. reglna um réttindi til að stjórna vinnuvélum, nr. 198/1983, kemur fram að með reglunum sé leitast við að tryggja næga þekkingu, þjálfun og öryggi í meðferð vinnu- og farandvéla. Í 2. gr. reglnanna kemur fram að sá einn geti öðlast réttindi til að stjórna vinnuvélum sem uppfylli það skilyrði meðal annars að hafa lokið tilskildu námi og þjálfun. Í 3. gr. reglnanna kemur meðal annars fram að að loknu prófi og þjálfun öðlist þátttakandi rétt til að gangast undir verklegt próf, sem veitir rétt til að stjórna þar til greindum tækjum sem og vinnuvélum.

 

Fyrir liggur að kærandi er ekki með vinnuvélaréttindi samkvæmt reglum um réttindi til að stjórna vinnuvélum og hann hefur ekki heimild til þess að sinna störfum þar sem krafist er slíkra réttinda. Vinnumálastofnun var því rétt að synja honum um að aðstoða hann við að sækja um störf þar sem þess er krafist að umsækjandi um starf sé með slík vinnuvélaréttindi. Hin kærða ákvörðun er staðfest.


 

Úr­skurðar­orð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 23. maí 2011 í máli A er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta