Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 1998 Forsætisráðuneytið

42/1998 Úrskurður frá 20. febrúar 1998 í málinu nr. A-42/1998

Hinn 20. febrúar 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-42/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 16. desember sl., kærði [...], það að umhverfisráðuneytið hefði ekki svarað beiðni hans, dagsettri 2. desember sl., um að veita honum upplýsingar um þá sem skráðir væru gildir skipulagsfulltrúar hjá ráðuneytinu. Í öðru bréfi frá kæranda, dagsettu sama dag, greindi hann frá því að honum hefði þann dag borist svar umhverfisráðuneytisins við beiðni sinni.

Að því virtu taldi úrskurðarnefnd ekki ástæðu til að sinna frekar fyrra erindi hans og tilkynnti honum það með bréfi, dagsettu 13. janúar sl. Í síðara erindi kæranda var tveimur spurningum beint til nefndarinnar. Með hliðsjón af hlutverki nefndarinnar, eins og því er lýst í 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996, þótti heldur ekki tilefni til að sinna þeim frekar og var kæranda jafnframt tilkynnt um það í framangreindu bréfi.

Með bréfi, dagsettu 30. janúar sl., til "áfrýjunarnefndar" bárust úrskurðarnefnd athugasemdir kæranda við framangreinda afgreiðslu nefndarinnar frá 13. janúar sl. Þar eð líta verður svo á að með bréfinu krefjist hann þess að málið verði tekið upp að nýju hefur úrskurðarnefnd ákveðið að taka það til formlegs úrskurðar skv. 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 4. mgr. 16. gr. upplýsingalaga.

Í fjarveru Elínar Hirst og Valtýs Sigurðssonar tóku Ólafur E. Friðriksson og Sif Konráðsdóttir varamenn sæti þeirra við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.


Málsatvik
Atvik máls þessa eru þau að með bréfi til umhverfisráðuneytisins, dagsettu 2. desember sl., fór kærandi fram á, með vísun til upplýsingalaga, að fá "upplýsingar um nöfn, starfsheiti og heimilisföng þeirra aðila sem eru skráðir sem gildir skipulagsfulltrúar hjá umhverfisráðuneytinu". Í beiðni þessari kom fram að hún væri byggð á ákvæði í drögum að nýrri skipulagsreglugerð, sem gerði ráð fyrir að umhverfisráðherra gæfi tvisvar á ári út lista yfir þá sem uppfylla skilyrði til að sinna starfi skipulagsfulltrúa. Erindi þetta ítrekaði kærandi við ráðuneytið með bréfi, dagsettu 9. desember sl.

Umhverfisráðuneytið svaraði beiðni kæranda með bréfi, dagsettu 12. desember sl. Þar kom fram að í þágildandi skipulagslögum nr. 19/1964, með síðari breytingum, væri ekki gert ráð fyrir að starfandi væru sérstakir skipulagsfulltrúar. Í 2. mgr. 7. gr. nýrra skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 væri hins vegar gert ráð fyrir slíkum fulltrúum. Þar segði jafnframt að kröfur til menntunar þeirra og starfsreynslu skyldu ákveðnar í skipulagsreglugerð. Þegar beiðni kæranda var svarað höfðu lög nr. 73/1997 ekki öðlast gildi og reglugerð samkvæmt þeim ekki verið sett. Í svari ráðuneytisins kemur því fram að "af sjálfu sér leiðir að engar upplýsingar eru til um skipulagsfulltrúa á þessari stundu".

Í síðara bréfi kæranda til nefndarinnar, dagsettu 16. desember sl., var athygli úrskurðarnefndar vakin á athugasemdum er kærandi hafði gert við drög umhverfisráðuneytisins að skipulags- og byggingarreglugerðum. Í bréfinu er sú spurning lögð fyrir nefndina "hvort svarfirring umhverfisráðuneytisins eigi e.t.v. rætur sínar að rekja til þeirrar gagnrýni sem þar komi fram?". Þá er svofelldri spurningu beint til nefndarinnar: "Hvernig getur skipulagsmarkaðurinn virkað samkvæmt samkeppnislögum ef hann er fyrirfram eyrnamerktur ákveðnum aðilum í samfélaginu og ekki einu sinni haft samráð um hann við æðstu stofnun samkeppnismála í landinu?"
Þetta erindi afgreiddi úrskurðarnefnd með þeim hætti sem lýst er í kaflanum um kæruefni hér að framan.

Í bréfi til "áfrýjunarnefndar", dagsettu 30. janúar sl., gerir kærandi athugasemdir við að úrskurðarnefnd hafi látið málshraða umhverfisráðuneytisins óátalinn og ekki stutt afgreiðslu sína fullnægjandi rökum. Þá telur hann að við meðferð málsins hafi ekki verið tekið tillit til röksemda sinna í síðara erindinu til úrskurðarnefndar, dagsettu 16. desember sl., né heldur þeirra gagna er kæru hans fylgdu. Þau gögn voru athugasemdir kæranda við drög að byggingarreglugerð, dagsett 5. nóvember 1997, og athugasemdir hans við drög að skipulagsreglugerð, dagsett 27. október 1997. Loks telur hann að nefndin hefði átt að afla frekari gagna að eigin frumkvæði, þ.e. umræddra draga að skipulags- og byggingarreglugerðum og skrár, sem iðnaðarráðherra heldur, um þá sem fengið hafa leyfi til að bera starfsheitið skipulagsfræðingur skv. 6. gr. laga nr. 8/1996 um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum.

Niðurstaða
Svo sem fram kemur í lok kaflans um kæruefni verður að líta svo á að í bréfi kæranda, dagsettu 30. janúar sl., felist krafa um endurupptöku máls þessa á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Í 1. tölul. 24. gr. segir að aðili máls eigi rétt á því að mál, eins og það sem hér um ræðir, verði tekið til meðferðar á ný ef "ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik".

Kærandi skaut máli þessu upphaflega til úrskurðarnefndar vegna þess að umhverfisráðuneytið hefði ekki svarað beiðni hans um upplýsingar. Síðar svaraði ráðuneytið beiðninni, svo sem gerð er grein fyrir hér að framan. Af þeirri ástæðu tók úrskurðarnefnd þá ákvörðun, sem tilkynnt var kæranda með bréfi, dagsettu 13. janúar sl., að vísa kæru hans frá nefndinni. Byggðist sú ákvörðun jafnframt á því að þær spurningar, sem kærandi lagði fyrir nefndina í bréfi, dagsettu 16. desember sl., og teknar eru upp í kaflanum um málsatvik, heyri ekki undir valdsvið hennar, sbr. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt 62. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 öðluðust þau gildi hinn 1. janúar sl. Í 10. gr. laganna er kveðið á um að umhverfisráðherra skuli setja skipulagsreglugerð um atriði sem þar eru nánar greind. Í 1. tölul. ákvæðis til bráðabirgða sagði upphaflega að skipulagsreglugerð skyldi öðlast gildi um leið og lögin, en því ákvæði var síðar breytt með a-lið 13. gr. laga nr. 135/1997. Samkvæmt ákvæðinu, svo breyttu, á að setja reglugerðina eins fljótt og við verður komið og í síðasta lagi hinn 1. júlí nk. Ný skipulagsreglugerð hefur enn ekki verið gefin út og þangað til heldur núverandi skipulagsreglugerð gildi sínu, að svo miklu leyti sem hún stangast ekki á við lög.

Þessar upplýsingar lágu fyrir þegar úrskurðarnefnd tók umrædda ákvörðun sína. Með vísun til þess verður hafnað þeirri kröfu kæranda að mál þetta verði tekið til meðferðar á ný.

Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda, [...], um að mál þetta, sem vísað var frá með bréfi úrskurðarnefndar til hans, dagsettu 13. janúar sl., verði tekið til meðferðar á ný.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Sif Konráðsdóttir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta