Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 1998 Forsætisráðuneytið

44/1998 Úrskurður frá 20. febrúar 1998 í málinu nr. A-44/1998

Hinn 20. febrúar 1998 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í málinu nr. A-44/1998:

Kæruefni
Með bréfi, dagsettu 18. desember 1997, kærði [...], meðferð Kópavogsbæjar á beiðni hans, dagsettri 4. desember sl., um að veita honum upplýsingar um heildargreiðslu til tveggja verktaka fyrir skipulagsvinnu á svonefndri [A] í Kópavogi.

Með bréfi, dagsettu 13. janúar sl., var kæran kynnt Kópavogsbæ og því beint til bæjarskrifstofanna að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðninnar eins og fljótt og við yrði komið og eigi síðar en 23. janúar sl. Jafnframt var þess óskað að ákvörðun bæjarins yrði birt kæranda og nefndinni eigi síðar en kl. 12.00 þann dag. Yrði kæranda synjað um umbeðnar upplýsingar var bænum gefinn kostur á að koma að athugasemdum við kæruna og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni innan sama frests. Einnig var farið fram á að upplýst yrði á hvaða formi upplýsingarnar væru varðveittar og hvort þeim hefði verið safnað í eitt eða fleiri skjöl eða annars konar gögn. Ef svo væri var þess jafnframt óskað að nefndinni yrðu látin í té sem trúnaðarmál afrit þeirra gagna.

Hinn 30. janúar sl. barst úrskurðarnefnd bréf frá bæjarlögmanni í Kópavogi, dagsett 29. janúar sl., ásamt ljósriti af svarbréfi hans til kæranda, dagsettu sama dag.
Í fjarveru Elínar Hirst og Valtýs Sigurðssonar tóku Ólafur E. Friðriksson og Sif Konráðsdóttir varamenn sæti þeirra við meðferð og úrskurð í kærumáli þessu.

Málsatvik
Atvik máls þessa eru í stuttu máli þau að með bréfi til bæjarstjórans í Kópavogi, dagsettu 4. desember sl., fór kærandi þess á leit, með vísan til upplýsingalaga nr. 50/1996, að fá upplýsingar um "heildargreiðslu til verktakanna [...] og [...] fyrir skipulagsvinnu á [A]" í Kópavogi. Erindi þetta ítrekaði kærandi með bréfi til bæjarstjórans, dagsettu 11. desember sl. Í kæru til nefndarinnar, dagsettri 18. desember sl., kemur fram að Kópavogsbær hafi þá ekki enn tekið ákvörðun um afgreiðslu á beiðni hans.

Í bréfi bæjarlögmanns til kæranda, dagsettu 29. janúar sl., eru honum veittar upplýsingar um heildarkostnað vegna skipulagsvinnu við umrætt skipulag. Á hinn bóginn er því hafnað, með vísun til 5. gr. upplýsingalaga, að veita honum upplýsingar "um greiðslur til einstakra aðila er unnu að þessu verki". Í bréfi bæjarlögmanns til úrskurðarnefndar, dagsettu 29. janúar sl., eru nefndinni veittar í trúnaði upplýsingar um þær fjárhæðir, sem greiddar hafa verið fyrrgreindum verktökum, hvorum sig, vegna verksins, en þær tölur eru fengnar úr bókhaldi Kópavogsbæjar.

Í bréfi bæjarlögmanns til kæranda eru ekki gefnar skýringar á þeim drætti sem varð á því að erindi hans væri svarað. Í bréfi lögmannsins til nefndarinnar kemur hins vegar fram að tafir þessar hafi orðið vegna mistaka.
Kærandi hefur með bréfi til nefndarinnar, dagsettu 30. janúar sl., og í leiðréttu eintaki þess, dagsettu 2. febrúar sl., komið á framfæri athugasemdum við svar bæjarlögmanns þar sem áreiðanleiki tölulegra upplýsinga í svari hans er dreginn í efa. Jafnframt fer kærandi fram á að honum verði veittar aðrar og frekari upplýsingar en séð verður að hann hafi óskað eftir áður.

Kærandi hefur fært frekari rök fyrir kæru þessari. Með vísun til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ekki gerð frekari grein fyrir þeim röksemdum í úrskurði þessum, en úrskurðarnefnd hefur haft þær til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða

1.
Í 1. mgr. 11. gr. upplýsingalaga segir svo: "Stjórnvald skal taka ákvörðun um hvort það verður við beiðni um aðgang að gögnum svo fljótt sem verða má. Hafi beiðni ekki verið afgreidd innan sjö daga frá móttöku hennar skal skýra aðila frá ástæðum tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta." Átta vikur liðu frá því kærandi bar fram beiðni sína við Kópavogsbæ og þar til bærinn svaraði. Þótt þessi dráttur á svari af hálfu bæjarins hafi stafað af mistökum var um að ræða skýlaust brot á hinu tilvitnaða ákvæði í upplýsingalögum og er það ámælisvert.

2.
Í 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga er tekið fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt lögum nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Í 1. mgr.1. gr. þeirra laga segir orðrétt: "Lög þessi taka til hvers konar kerfisbundinnar skráningar og annarrar meðferðar á persónuupplýsingum. Lögin eiga við hvort heldur sem skráning er vélræn eða handunnin. Lögin taka til skráningar af hálfu atvinnurekenda, fyrirtækja, félaga, stofnana og til skráningar á vegum opinberra aðila." Samkvæmt því er það álit úrskurðarnefndar að lög nr. 121/1989 taki til aðgangs að þeim upplýsingum, sem kærandi hefur óskað eftir, en þær er sem fyrr segir að finna í bókhaldi Kópavogsbæjar.

Samkvæmt framansögðu fellur aðgangur að hinum umbeðnu upplýsingum ekki undir upplýsingalög, enda hafa þær ekki verið teknar saman þannig að þær sé að finna á sérstöku skjali eða í öðru sambærilegu gagni. Verður þegar af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá úrskurðarnefnd skv. 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð:
Kæru kæranda, [...], á hendur Kópavogsbæ er vísað frá.

Eiríkur Tómasson, formaður
Ólafur E. Friðriksson
Sif Konráðsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta