Mál nr. 16/2021- Úrskurður
Úrskurður kærunefndar jafnréttismála
A
gegn
Alcoa Fjarðaáli sf.
Ráðning í starf. Mismunun á grundvelli kyns. Ekki brot.
A kærði ákvörðun A sf. um að ráða þrjá karla í starf leiðtoga í skautsmiðju. Að mati kærunefndar var ekki sýnt fram á að A hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starfið. Var því ekki fallist á að A sf. hefði gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
- Á fundi kærunefndar jafnréttismála 31. maí 2022 er tekið fyrir mál nr. 16/2021 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
- Með kæru, dags. 23. október 2021, kærði A ákvörðun Alcoa Fjarðaáls sf. um að ráða karla í þrjú störf leiðtoga í skautsmiðju fyrirtækisins. Af kæru má ráða að kærandi telji að með ráðningunum hafi kærði brotið gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
- Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 8. nóvember 2021. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 26. s.m., og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 6. desember s.á. Í framhaldinu bárust athugasemdir kæranda með tölvupósti, dags. 6. og 13. s.m., sem kynntar voru kærða með bréfi kærunefndar, dags. 21. s.m. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dags. 10. janúar 2022, og voru þær sendar kæranda með bréfi kærunefndar, dags. 17. s.m. Sama dag barst tölvupóstur frá kæranda með viðbótarupplýsingum sem sendar voru kærða 31. s.m., en hans athugasemdir bárust nefndinni með tölvupósti 3. febrúar 2022 og voru sendar kæranda samdægurs.
MÁLAVEXTIR
- Kærði auglýsti innan fyrirtækisins leiðtogastörf í skautsmiðju og var umsóknarfrestur til 31. mars 2021. Í auglýsingu kom fram að leitað væri að jákvæðum og drífandi einstaklingum til að leiða hlutverkastýrð framleiðsluteymi í skautsmiðju. Verkefni og ábyrgð leiðtoga voru skilgreind í auglýsingu þannig að hann hefði viðveru á framleiðslugólfi hluta af vinnutíma sínum og fylgdi því eftir að teymið framleiddi samkvæmt áætlun og uppfyllti þarfir viðskiptavina á öruggan, heilbrigðan og umhverfisvænan hátt. Hann sinnti mannauðsmálum teymisins og gegndi lykilhlutverki í helgun starfsmanna með því að miðla upplýsingum, skýra væntingar til hlutverka, tryggja þjálfun og veita stuðning, hvatningu og endurgjöf og að hann ynni að því að þróa teymi ólíkra einstaklinga með heilindi, árangur og umhyggju að leiðarljósi. Áhersla var lögð á jákvæð samskipti og góðan starfsanda í teyminu.
- Menntunar- og hæfniskröfur leiðtoga voru skilgreindar þannig að æskilegt væri að hann hefði menntun sem nýttist í starfi og fimm ára reynslu af framleiðslu eða stjórnun. Hann þyrfti að geta stutt og hvatt starfsmenn, en um leið tekið á erfiðum málum af festu, en mikið reyndi á samskiptahæfni. Hann þyrfti að hafa frumkvæði í starfi, vilja til að vinna að stöðugum úrbótum og metnað til að ná árangri, auk þess sem gerð var krafa um sterka öryggisvitund. Tekið var fram að leiðtogastarf krefðist nákvæmni og skipulagshæfileika og að mikilvægt væri að leiðtogi hefði gott vald á íslensku og tölvuvinnu. Þá var góð enskukunnátta tilgreind sem kostur.
- Alls bárust 19 umsóknir um þrjú störf. Eftir fyrsta viðtal við flesta umsækjendur var ákveðið að bjóða einum karli eitt starfið sem hann þáði. Sex umsækjendur voru boðaðir í seinna viðtal, tvær konur og fjórir karlar, en einn karlinn dró umsókn sína til baka áður en kom að seinna viðtalinu. Eftir seinna viðtal voru fjórir umsækjendur metnir hæfir, þrír karlar og kærandi. Í framhaldinu voru tveimur körlunum boðin þau tvö störf sem eftir stóðu sem þeir þáðu.
SJÓNARMIÐ KÆRANDA
- Kærandi telur sig hafa orðið fyrir mismunun við ráðningu í leiðtogastöðu í skautsmiðju hjá kærða á grundvelli kyns en þrír karlmenn hafi verið ráðnir í þrjár stöður sem voru auglýstar. Af kæru má ráða að hún telji ákvörðun um ráðningu þessara þriggja karla hafa farið gegn lögum nr. 150/2020.
- Kærandi tekur fram að hún hafi starfað í skautsmiðju fyrirtækisins frá 1. júní 2009, nú síðast sem stóriðjutæknir 2 frá 1. mars 2021, en hún hafi lokið grunn- og framhaldsnámi í stóriðju hjá Austurbrú. Bendir hún á að hún hafi lengri starfsferil en allir karlarnir sem voru ráðnir og hafi stóriðjunám fram yfir einn þeirra. Hafi hún auk þess leyst leiðtoga af í starfi og séð um og sinnt sinni vakt í fleiri ár.
- Kærandi bendir á að hún hafi verið upplýst 5. maí 2021 um að þrír karlar yrðu ráðnir í stöður leiðtoga. Hún hafi í framhaldinu farið á fund framkvæmdastjóra ásamt trúnaðarmanni og óskaði skýringa og var henni þá tjáð að hún væri „of viðkvæm“. Samkvæmt greinargerð trúnaðarmanns hafi hún verið metin hæfust þeirra sem sóttu um störfin og hafi þannig „tikkað í öll box“ hvað hæfni varðar. Það hafi þó ekki verið hægt að ráða hana þar sem hún hafi verið frá vinnu vegna veikinda.
- Kærandi tekur fram að eftir ráðningarferlið hafi hún aldrei fengið endurgjöf um atriði sem hún gæti bætt. Telur kærandi að tilvísun kærða til þess að hún sé viðkvæm sé skýr vísbending um mismunun. Kærandi viti ekki hvað hafi fengið kærða til þess að telja hana viðkvæma en það skjóti skökku við að kona með góð meðmæli frá þeim sjálfum fái ekki tækifæri til þess að sanna sig.
- Telur kærandi að þessi skyndilega mikla rýni í veikindi sé leið kærða til þess að fela mismunun. Kærandi bendir á að málið eigi ekki að snúast um veikindi sín heldur mismunun, hún fái engin tækifæri til að sanna sig né bæta. Hinir karlkyns umsækjendurnir fái tækifæri til þess að sanna sig, en kærandi hafi strax verið talin of viðkvæm. Tekur kærandi fram að hún sé nú komin í ársleyfi frá fyrirtækinu þar sem hún geti ekki hugsað sér að vinna þar á meðan þessi mismunun sé til staðar hjá stjórnendum.
- Kærandi bendir á að hún hafi óskað eftir nánari upplýsingum frá framkvæmdastjóra mannauðsmála um skráningu á fjarvistum. Telur hún að fjarvistirnar hafi verið reiknaðar miðað við 84% starfshlutfall en hlutfallið væri mun lægra hefði hún verið í 100% starfshlutfalli. Tekur kærandi fram að stór hluti fjarvistanna hafi verið vegna skólagöngu sem hafi verið með leyfi yfirmanns.
- Þá bendir kærandi á að fjarvistir sem skráðar voru á seinni dagvakt og bætivakt hafi verið umsamdar. Hafi þær verið taldar með séu það væntanlega rangfærslur. Telur kærandi að með því að telja fjarvistir vegna jarðarfarar og andláts stjúpföður síns með sé kærði að finna sér eitthvað til þess að skýla sér á bak við sem sé ósanngjarnt og kuldalegt.
- Kærandi tekur fram að hún hafi verið með mjög góða mætingu, tilbúin til þess að taka þátt í allri vinnu.
- Að lokum tekur kærandi fram að hún hafi upplifað ógnandi hegðun í seinna viðtalinu sem tekið var af tveimur körlum og hafi hún komist í uppnám þegar annar þeirra sagði að hún þyrfti „að heilla þá upp úr skónum“. Hún hafi ekki þekkt þessa karla sem tóku viðtölin eins lengi og kærði heldur fram, eða í tíu ár, annan hafi hún þekkt í um sex ár og hinn mun styttra.
SJÓNARMIÐ KÆRÐA
- Kærði hafnar því að fyrirtækið hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020 við ráðningu í starf leiðtoga í skautsmiðju enda hafi sú ákvörðun að ráða ekki kæranda að þessu sinni ekkert með mismun á grundvelli kyns að gera.
- Kærði tekur fram að hann hafi frá stofnun haft það að markmiði að ná jöfnum kynjahlutföllum. Þótt það hafi ekki enn gengið fullkomlega eftir hefur talsverður árangur náðst. Hlutfall kvenkyns leiðtoga í álframleiðslu er 40% og viðhaldsleiðtogar eru karl og kona. Í tækniteymi ferlisins eru fimm konur af 13 starfsmönnum eða 38%. Kærði vinni eftir jafnréttisáætlun sem nýlega hafi verið yfirfarin og samþykkt af Jafnréttisstofu. Þá hafi kærði unnið skipulega að jafnréttismálum með utanaðkomandi aðila síðastliðin tvö ár sem gengur út á að finna tækifæri til umbóta í ferlum fyrirtækisins með það að markmiði að gera betur.
- Kærði bendir á að ástæða fyrir ráðningu leiðtoga hafi verið að auka stuðning við starfsmenn í skautsmiðju og þar með starfsánægju og helgun en hvort tveggja hafi hríðfallið undanfarin ár. Einnig hafi borið á fleiri vandamálum og erjum starfsmanna en þekkist annars staðar á vinnustaðnum. Staðan hafi því verið grafalvarleg og byrjuð að ógna rekstraröryggi skautsmiðju.
- Kærði tekur fram að framkvæmdastjóri álframleiðslu hafi verið ábyrgur fyrir ráðningunni. Rekstrarstjóri skautsmiðju og næsti yfirmaður leiðtoga skautsmiðju hafi komið að ráðningarferlinu að öllu leyti og voru ákvarðanir teknar í samráði við framkvæmdastjóra. Þá hafi tiltekinn starfandi leiðtogi skautsmiðju verið ráðgefandi aðili í ráðningunum og gefið sitt mat á hæfni þeirra umsækjenda sem hann þekkti til. Umsækjendur hafi ekki vitað af aðkomu hans þar sem kærði hafi ekki viljað að starfandi leiðtogi yrði fyrir hugsanlegu aðkasti frá starfsmönnum skautsmiðju. Samkvæmt venju hafi mannauðsteymi kærða verið með í skipulagningu og framkvæmd ráðninganna frá fyrsta degi.
- Kærði bendir á að markmiðið hafi verið að ráða þrjá leiðtoga. Við skoðun og mat á umsækjendahópnum hafi töluvert margir verið taldir hæfir við fyrstu skoðun. Var flestum þeirra boðið í fyrsta viðtal þar sem sami spurningalistinn var lagður fyrir þá. Eftir fyrsta viðtal hafi svörin verið metin af framkvæmdastjóra og rekstrarstjóra en hæfnismat leiðtoga skautsmiðju var notað til hliðsjónar. Eftir það mat hafi verið ákveðið að bjóða einum umsækjandanum eina stöðuna. Sá umsækjandi hafi staðið upp úr eftir fyrsta viðtal auk þess sem hann hafði unnið sem afleysingaleiðtogi í skautsmiðju í langan tíma við góðan orðstír. Eftir stóðu tvær lausar stöður og var sex umsækjendum boðið í seinna viðtal, tveimur konum og fjórum körlum. Einn karlinn dró umsókn sína til baka áður en kom að seinna viðtalinu og því stóðu fimm umsækjendur eftir, tvær konur og þrír karlar. Þegar umsækjendurnir voru boðaðir til síðara viðtalsins var lagt fyrir þau verkefni sem þau áttu að svara í viðtalinu.
- Eftir seinna viðtal mat kærði fjóra umsækjendur hæfa byggt á svörum við verkefninu og var ein kona í þeim hópi. Til þess að velja á milli þessara fjögurra umsækjenda voru fleiri þættir teknir inn í matið, svo sem hæfni til að höndla álag, reynsla, mætingar og saga um öryggismál. Að því mati loknu skáru tveir umsækjendanna sig úr og voru þeim boðin þau tvö störf sem eftir stóðu. Annar þeirra sem fékk ekki starfið var talinn hafa minni þekkingu á skautsmiðju en hinir og því talinn minna hæfur. Hinn glímdi við heilsufars- og mætingavandamál sem ekki var talið hæfa því verkefni sem leiðtogar skautsmiðjunnar þyrftu að geta tekist á við og því talinn minna hæfur en þeir sem voru valdir.
- Kærði tekur fram að í öllu ferlinu hafi verið leitast eftir því að finna hæfasta eða hæfustu einstaklingana til að takast á við það stóra og mikilvæga verkefni sem leiðtogar skautsmiðju stóðu frammi fyrir. Leitað var eftir einstaklingum sem gætu sinnt starfinu og verið góð fyrirmynd annarra starfsmanna. Gildi fyrirtækisins í ráðningarmálum hafi einnig verið höfð til hliðsjónar, t.a.m. í jafnréttismálum. Kærði bendir á að þótt það virðist skjóta skökku við að ráða aðeins karlmenn í þessar þrjár stöður í skautsmiðju þar sem markmið fyrirtækisins sé að jafna kynjahlutföll sé staðan engu að síður sú að hlutfall kvenna í leiðtogastörfum hjá kærða sé 40% sem sé innan þeirra markmiða sem fyrirtækið hafi sett sér í jafnréttismálum.
- Kærði tekur fram að fjarvistir og fjarvistasaga hafi vægi þegar einstaklingar eru metnir í störf leiðtoga en starfið felist í stjórnun vakthóps, í þessu tilfelli 10-11 einstaklinga. Slíkt hafi fordæmisgildi gagnvart öðrum starfsmönnum hópsins en það sé alltaf metið með tilliti til ástæðu fjarvistanna og reynt sé að sýna sanngirni út frá ástæðu þeirra og hvernig horfur séu með framhaldið hjá viðkomandi. Í tilfelli kæranda hafi fjarvistir verið miklar tímabilið sem var skoðað, þ.e. 1. mars 2020 til 28. febrúar 2021, en ekki síður sé það eðli þeirra sem hafi valdið kærða áhyggjum. Kærandi hafi verið opinská með það að stór hluti hennar veikinda sé vegna kvíða og tengdra mála. Áhyggjur kærða snúist um getu kæranda til að höndla álag og erfiðar aðstæður sem geti komið upp í störfum leiðtoga, ekki síst með hennar eigin hagsmuni og velferð að leiðarljósi.
- Kærði tekur fram að engar fjarvistir eða skýringar séu skráðar vegna skólagöngu kæranda en vegna slíkra fjarvista skuli skrá skýringu. Ef kærandi vilji meina að þær séu skráðar á veikindi séu upplýsingar frá starfsmanninum ranglega tilkynntar og ekki í samræmi við vinnulýsingu. Fjarvistir á seinni dagvakt og bætivakt sem kærandi nefni hafi verið hluti af minnkuðu starfshlutfalli hennar, séu þær vaktir skráðar á launalaust leyfi og komi því ekki inn í útreikninginn.
- Kærði bendir á að fjarvistir vegna fráfalls nákomins ættingja séu skráðar á sérstaka ástæðu og á umræddu tímabili sé engin slík skráning. Á næstu tímabilum á eftir komi slíkar færslur en þær hafi ekki komið inn í þennan útreikning. Ef þær færslur eru skráðar á veikindi séu upplýsingar frá starfsmanninum ranglega tilkynntar og ekki í samræmi við vinnulýsingu. Í svona tilvikum sýni kærði mikla nærgætni og sveigjanleika sem skilgreint er í vinnulýsingu hvernig skuli meðhöndla og kærði teygi sig ansi langt til að koma til móts við starfsmenn. Um það sé hægt að fá vitnisburð fjölda starfsmanna ef þurfa þyki.
- Kærði tekur fram að fjarvistir kæranda séu um þrisvar sinnum fleiri en meðaltalið hjá fyrirtækinu og því geti kærði ekki verið annað en ósammála þeirri fullyrðingu kæranda að mætingar hennar hafi verið góðar.
- Fullyrðingu kæranda um að kærði sé að mismuna henni vegna kyns og fötlunar/kvíðasjúkdóms hafnar kærði. Til að sinna starfi leiðtoga vakthóps þurfi ákveðna eiginleika og þar á meðal er geta til að takast á við erfiðar aðstæður, pressu í framleiðslu, til að höndla erfið starfsmannamál og alvarleg slys og atvik sem upp kunna að koma. Það hafi verið mat þeirra sem komu að ráðningunni að þessi þáttur hjá kæranda væri ekki sterkur og að það væri ekki skynsamlegt að setja hana í þessar aðstæður miðað við hennar stöðu í aðdraganda þessarar ráðningar. Þrátt fyrir fullyrðingar um að hún gæti sinnt 100% vinnu og að fjarvistir yrðu ekki vandamál væri einfaldlega, í ljósi fyrri reynslu, ekki til staðar traust um að það myndi ganga eftir.
- Kærði tekur fram að starfsmenn eigi að fá endurgjöf frá sínum leiðtoga á frammistöðu og mætingar. Framkvæmdastjóri mannauðsmála hafi leitað eftir umsögn leiðtoga kæranda þar sem fram hafi komið að frammistöðusamtöl hafi átt sér stað og mætingar hennar hafi verið ræddar oftar en einu sinni. Áhersla leiðtoganna hafi ekki verið á þá þætti sem kærandi þyrfti að laga til að auka líkur sínar á að vera ráðin í leiðtogastarf heldur fyrst og fremst sem framleiðslustarfsmaður. Það sé frekar starfsmannsins sjálfs að meta það ef hann er að máta sig við slíkt hlutverk. Kærandi hafi vissulega komið til greina í hlutverkið en það hafi verið mat þeirra sem að ráðningunni komu að aðrir umsækjendur stæðu henni framar eftir heildstætt mat.
- Kærði tekur fram að kærandi hafi þekkt þá tvo stjórnendur sem tóku seinna viðtalið og átt við þá mörg samtöl. Sé því hafnað að eitthvað í viðtalinu hafi gefið tilefni til að upplifa sem ógn. Fyrirtækið ráði yfir 50 starfsmenn í fastar stöður og 110 sumarstarfsmenn að jafnað á ársgrundvelli og aldrei hafi fyrirtækið fengið ábendingu um að þeir sem taki viðtöl hafi verið ógnandi. Einnig bendir kærði á að kærandi hafi ekki séð ástæðu til þess að koma þeirri ábendingu á framfæri við fyrirtækið eftir viðtalið, en starfsmenn séu hvattir til þess að upplýsa um slík atvik ef þau koma upp, hvort sem er undir nafni eða nafnlaust.
- Þá bendir kærði á að kærandi hafi verið valin í nám á vegum fyrirtæksins í tvígang og verið valin til afleysinga og annarra ábyrgðarhlutverka hjá fyrirtækinu í gegnum tíðina eins og svo margar aðrar hæfileikaríkar konur. Kærandi hafi því verið ein af þeim starfsmönnum sem fyrirtækið hafi haft í huga sem framtíðarstjórnanda hjá fyrirtækinu og hafi hún fengið endurgjöf eftir ráðningarferlið um það sem hún þyrfti að bæta til að svo gæti orðið í framtíðinni.
- Kærði ítrekar að fjarvistir hafi verið einn hluti í mati á starfsmönnum ásamt fjölmörgum öðrum þáttum sem fyrirtækið hefur skilgreint mikilvæga við mat á hæfni og getu umsækjenda til að sinna starfi leiðtoga. Kærði hafnar því alfarið að hafa brotið gegn ákvæðum laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna við ráðningu í starf leiðtoga í skautsmiðju fyrirtækisins. Ástæður þess að aðrir aðilar voru valdir snúi að öllu leyti að öðrum þáttum en kynferði.
NIÐURSTAÐA
- Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með ráðningu þriggja karla í störf leiðtoga í skautsmiðju.
- Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
- Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnurekandanum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í starfið sem um ræðir í málinu hjá kærða.
- Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endurskoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
- Í auglýsingu um störfin kom fram að verkefni og ábyrgð leiðtoga skautsmiðju væru að fylgja því eftir að teymið framleiddi samkvæmt áætlun og uppfyllti þarfir viðskiptavina á öruggan, heilbrigðan og umhverfisvænan hátt, sinna mannauðsmálum teymisins og gegna lykilhlutverki í helgun starfsmanna með því að miðla upplýsingum, skýra væntingar til hlutverka, tryggja þjálfun og veita stuðning, hvatningu og endurgjöf og vinna að því að þróa teymi ólíkra einstaklinga með heilindi, árangur og umhyggju að leiðarljósi. Áhersla væri lögð á jákvæð samskipti og góðan starfsanda í teyminu.
- Ekki var gerð sérstök krafa um menntun önnur en að æskilegt væri að leiðtoginn hefði menntun sem nýttist í starfi og fimm ára reynslu af framleiðslu eða stjórnun. Gerð var krafa um að leiðtoginn gæti stutt og hvatt starfsmenn, en um leið tekið á erfiðum málum af festu. Jafnframt var gerð krafa um frumkvæði í starfi, vilja til að vinna að stöðugum úrbótum og metnað til að ná árangri, auk kröfu um sterka öryggisvitund. Tekið var fram að leiðtogastarf krefðist nákvæmni og skipulagshæfileika og að mikilvægt væri að leiðtogi hefði gott vald á íslensku og tölvuvinnu. Þá var góð enskukunnátta talin kostur.
- Í málinu liggur fyrir að flestir umsækjendanna voru taldir hæfir til að gegna starfi leiðtoga í skautsmiðju og þeir því teknir í viðtal. Að mati kærða stóð einn karlkyns umsækjandinn framar öðrum eftir það viðtal miðað við þær hæfniskröfur sem komu fram í auglýsingu og þau verkefni sem leiðtogi skautsmiðju kæmi til með að annast og var honum því boðið eitt starfið. Að sama skapi stóðu sex aðrir umsækjendur, tvær konur og fjórir karlar, framar þeim sem eftir stóðu miðað við þessar sömu hæfniskröfur og var þeim boðið í síðara viðtal vegna tveggja leiðtogastarfa. Kærunefndin bendir á að þar sem ekki er mælt fyrir um þessar hæfniskröfur í lögum er það kærða að ákveða þær í ljósi þeirra þarfa sem hann telur nauðsynlegt að uppfylla til starfrækslu þeirra verkefna sem um ræðir með hagsmuni fyrirtækisins að leiðarljósi. Að mati kærunefndar verður ekki betur séð en að þær hafi verið málefnalegar.
- Fyrir síðara viðtal dró einn karlanna umsókn sína til baka og stóðu því fimm umsækjendur eftir, þrír karlar og tvær konur. Þá var verkefni lagt fyrir þessa fimm umsækjendur sem þau áttu að leysa í viðtalinu. Að viðtalinu loknu og mati á úrlausnunum voru fjórir taldir hæfastir, þrír karlar og kærandi. Við mat á þessum fjórum umsækjendum var ákveðið að leggja áherslu á tiltekna matsþætti umfram aðra, þ.e. hæfni til að höndla álag, reynslu, mætingar og öryggismál. Í ljósi eðlis leiðtogastarfs í skautsmiðju verður að telja að það hafi verið málefnalegt.
- Af matsblaði sem liggur fyrir í málinu má ráða að kærandi og þeir tveir sem hlutu störfin hafi að loknu síðara viðtali fengið jafnmörg stig í sumum matsþáttum sem lágu til grundvallar mati á umsækjendum, þ.m.t. í úrlausn verkefnis, reynslu og öryggismálum, en mismörg stig í öðrum þáttum, þ.m.t. í hæfni til að höndla álag og mætingu. Verður ekki annað ráðið en að lagt hafi verið mat á efnislegt inntak þessara þátta. Að mati kærunefndar verður heldur ekki annað séð af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu en að niðurstaða um hvað félli undir þessa matsþætti hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og að mat á þeim hafi verið forsvaranlegt. Í því sambandi er þó rétt að benda á að jafnvel þótt einhver munur kunni að vera á stigagjöfinni er það einungis hluti af margþættu og heildstæðu mati ráðningaraðila á umsækjendum.
- Þá hefur kærði lýst því að það sem hafi ráðið úrslitum við mat á hæfni þessara umsækjenda hafi verið heildstætt mat á öllum matsþáttum. Byggði kærði mat sitt einkum á upplýsingum í viðtölum, faglegri þekkingu og frammistöðu að öðru leyti, auk upplýsinga um mætingu umræddra starfsmanna sem kærði bjó yfir.
- Fyrir liggur að samræmdar spurningar voru lagðar fyrir umsækjendur í viðtölum og fengu upplýsingar sem komu fram í þeim vægi í mati kærða. Ekki verða gerðar athugasemdir við það að upplýsingar í viðtölum hafi verið hluti af heildarmati á umsækjendum eða að ómálefnalegt hafi verið að byggja á þeim upplýsingum sem þar komu fram jafnvel þótt um hafi verið að ræða upplýsingar um heilsu í ljósi eðlis þeirra starfa sem um var að ræða. Þá verða ekki gerðar athugasemdir við að kærði hafi byggt á upplýsingum sem hann bjó yfir um mætingu umsækjenda en um var að ræða heilt ár áður en störfin voru auglýst, þ.e. tímabilið 1. mars 2020 til 28. febrúar 2021. Ágreiningur milli aðila um ástæður fjarvista hefur ekki áhrif á þessa niðurstöðu.
- Nánar tiltekið byggði heildarmat á umsækjendum á starfsreynslu og öðrum atriðum, eins og hugarfari umsækjenda til að styðja við starfsmenn skautsmiðju. Einnig var hæfnismat leiðtoga skautsmiðju notað til hliðsjónar og þar með hæfni þeirra og afstaða í víðara samhengi, sem gat haft þýðingu fyrir starf leiðtoga. Með vísan til þessa og þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. gagna sem lýsa því sem fram kom í viðtölum og upplýsingum um mætingu sem kærði bjó yfir, verður ekki betur séð en að val kærða á þeim umsækjendum sem voru valdir til að gegna starfi leiðtoga hafi fallið vel að þeim sjónarmiðum sem kærði lagði áherslu á og ekkert sem bendir til að valið hafi ekki verið forsvaranlegt. Ágreiningur um það hvað fór á milli aðila í síðara viðtali hefur ekki áhrif á þessa niðurstöðu. Þá verður ekki talið að kynbundin sjónarmið hafi haft áhrif á meðferð málsins að þessu leyti, þ.e. að tveir karlar, samstarfsmenn kæranda, hafi tekið viðtal við hana.
- Að framangreindu virtu verður að mati kærunefndar að telja að mat kærða á þeim sjónarmiðum sem hann lagði til grundvallar við val á hæfustu umsækjendunum hafi verið málefnaleg og forsvaranleg og innan þess svigrúms sem hann hafði. Þá er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að málsmeðferð kærða við ráðningu í störf leiðtoga í skautsmiðju hafi að öðru leyti verið ómálefnaleg eða farið gegn lögum nr. 150/2020.
- Telur kærunefnd því að mat kærða á umsækjendum, eins og það birtist í gögnum málsins, leiði ekki líkur að því að við ráðninguna hafi kæranda verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
- Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðningu í starf leiðtoga í skautsmiðju. Samkvæmt því verður ekki fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020.
- Rétt er að árétta að samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga nr. 150/2020 skal atvinnurekandi gæta þess að starfsfólk verði ekki beitt órétti í starfi, svo sem með tilliti til starfsöryggis, starfskjara eða mats á árangri, á grundvelli þess að hafa kært kynjamismunun. Jafnframt skal atvinnurekandi gæta þess að starfsmenn verði ekki látnir gjalda þess í starfi að kvartað hafi verið undan eða kærð mismunun eða krafist leiðréttingar á grundvelli laganna.
Ú r s k u r ð a r o r ð
Kærði, Alcoa Fjarðaál sf., braut ekki gegn lögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna við ráðningu í þrjú störf leiðtoga í skautsmiðju.
Kristín Benediktsdóttir
Andri Árnason
Anna Tryggvadóttir