Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2013 Dómsmálaráðuneytið

Verklag við umsóknir hælisleitenda tekið til skoðunar

Innanríkisráðherra hefur ákveðið að fara yfir allt verklag er lýtur að málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd eða hæli, hérlendis. Nær sú endurskoðun til verkferla allt frá því að hælisleitandi gefur sig fram við komu til Íslands, meðferð Útlendingastofnunar, ráðuneytisins og annarra aðila sem koma þurfa að málum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra átti í dag fund með Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, í framhaldi af ummælum hennar um að einstaklingar sem ekki teldust flóttamenn litu Ísland sem fýsilegan kost þar sem málsmeðferð tæki langan tíma og að hér gætu þeir fengið frítt fæði og húsnæði á meðan.

Á fundinum fór forstjórinn yfir stöðuna í afgreiðslu mála hælisleitenda en umsóknum hefur fjölgað mjög síðustu árin og hafa margfalt fleiri umsóknir verið lagðar fram það sem af er þessu ári en á sama tíma í fyrra.

Innanríkisráðherra hefur í framhaldi af þessu ákveðið að yfirfara alla málsmeðferð við hælisumsóknir. Kannaður verður málshraði og meðferð hælisumsókna hjá stofnunum og öðrum aðilum sem hlut eiga að máli, allt frá því að mál hælisleitanda berst viðkomandi lögreglustjóra, í flestum tilvikum lögreglustjóra á Suðurnesjum, og þar til endanleg ákvörðun á stjórnsýlustigi er komin til framkvæmda.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta