Ísland býður sig fram til setu í framkvæmdastjórn UNESCO
Framboð Íslands nýtur stuðnings Norðurlandanna en þau hafa í sameiningu lagt ríka áherslu á að norrænt ríki eigi sæti í stjórn UNESCO. Norðurlöndin hafa skipst á að taka sæti í stjórninni frá upphafi en nú er komið að Íslandi að bjóða sig fram til setu í stjórn UNESCO fyrir tímabilið 2021 til 2025. Ísland átti síðast sæti í stjórn UNESCO tímabilið 2001-2005 en þá var Sveinn Einarsson, leikstjóri og rithöfundur, formaður íslensku UNESCO nefndarinnar. Áður hafði Ísland setið í stjórn 1981-1987.
Hlutverk íslensku UNESCO nefndarinnar er að vera ríkisstjórninni og sendinefnd Íslands á aðalráðstefnu UNESCO til ráðuneytis í málum er varða UNESCO, auk þess að vera tengiliður milli UNESCO og íslenskra mennta-, vísinda- og menningarstofnana. Gert er ráð fyrir að framboð Íslands og seta í framkvæmdastjórn UNESCO kosti árlega um 58 milljónir króna á árunum 2019-2025.