Hoppa yfir valmynd
20. júlí 2017 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 421/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 20. júlí 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 421/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17060008

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 6. júní 2017 kærði maður er kveðst vera […] , fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. maí 2017, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt staða flóttamanns og alþjóðleg vernd á grundvelli 1. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða á grundvelli 1. mgr. 74. gr. útlendingalaga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 4. nóvember 2016. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 28. nóvember 2016 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 9. maí 2017, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 6. júní 2017. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 27. júní 2017. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 6. júlí 2017 ásamt talsmanni sínum og túlki. Í viðtalinu var kæranda veittur frestur til 14. júlí 2017 til að skila inn viðbótargögnum. Engin frekari gögn bárust kærunefnd.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að honum stafi ógn af tveimur mönnum í […] og hann óttist um líf sitt þurfi hann að snúa aftur til heimaríkis síns. Yfirvöld í […] geti ekki veitt honum vernd.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og vegna sérstakra tengsla við landið skv. 74. gr. og 78. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

VI. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann kveðst vera fæddur og uppalinn í […] í […] í norðausturhluta […]. Hafi kærandi búið við ágætan efnahag í heimaríki og hafi hann séð fyrir sér með rekstri biljarðstofu frá því í september 2015. Ástæða flótta hans frá heimaríki sé að honum stafi ógn af tveimur mönnum sem hafi beitt hann ofbeldi. Mennirnir hafi ráðist á kæranda vopnaðir hnífum og m.a. brotið hönd kæranda og veitt honum áverka á fæti. Um sé að ræða tvær árásir og hafi sú fyrri átt sér stað 10. janúar 2016 og sú síðari 7. ágúst sama ár. Hafi kærandi þurft að leita á spítala vegna áverkanna sem hann hafi hlotið. Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki leitað til lögreglu þá hafi lögregluyfirvöld vitað af árásunum. Kærandi hafi óttast um líf sitt og ekki séð aðra undankomuleið en að flýja heimaríki sitt. Kærandi hafi flúið […] og í kjölfarið hafi mennirnir sett sig í samband við bróður kæranda sem búi í […] og sagt honum að þeir hyggist finna kæranda og drepa hann.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun 28. nóvember 2016 kvaðst kærandi ekki vita deili á mönnunum sem hafi hótað honum og ráðist á hann. Hafi kærandi einungis gefið þær skýringar að hann telji þá vera […] og að líklega hafi þeir verið ósáttir við rekstur biljarðstofunnar, t.d. varðandi opnunartíma og áhrif kæranda á ungt fólk. Í greinargerð kæranda til kærunefndar breytir kærandi frásögn sinni og kveðst vita hverjir mennirnir séu, en frásögn hans varðandi rekstur sinn og árásir mannanna helst óbreytt. Kærandi kveðst hafa átt í ástarsambandi við stúlku og séu mennirnir bræður hennar. Í fyrra skiptið sem kærandi hafi hitt mennina hafi þeir sagt honum að þeir […] og að kærandi yrði að slíta sambandinu við systur þeirra. Þeir hafi einnig sagt kæranda að systir þeirra væri barnshafandi. Þar sem kærandi hafi verið ástfanginn af stúlkunni hafi hann ekki látið sér segjast og haldið áfram að hitta hana. Skömmu síðar hafi stúlkan horfið og kveður kærandi engan vita hvað hafi orðið af henni, en einhverjir hafi haldið því fram að bræður hennar hafi tekið hana af lífi.

Kærandi kveðst ekki hafa ekki leitað til lögreglu í kjölfar hótana mannanna vegna ótta um að þurfa að slíta sambandinu við stúlkuna. Þá sé kynlíf utan hjónabands álitinn glæpur í […]. Einnig leggi lög ættbálka bann við slíkri hegðun og eigi kærandi því yfir höfði sér fangelsisrefsingu og jafnvel dauðarefsingu í […]. Kærandi segir að gerð hafi verið tilraun til að finna sátt í málinu á vettvangi ættbálka hans og stúlkunnar og hafi frændi kæranda talað við fjölskyldu stúlkunnar fyrir hans hönd. Hafi þessar sáttaumleitanir aðeins gert illt verra og hafi frændi kæranda ráðið honum frá því að leita til lögreglu og hvatt kæranda til að flýja land.

Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður og stöðu mannréttinda í heimaríki kæranda. Þar kemur fram að frá því að […] hafi öryggisástandið í landinu verið afar ótryggt. Undanfarin ár hafi óöld ríkt í landinu og […] brotið gegn alþjóðlegum mannréttindalögum og séu alvarleg mannréttindabrot útbreidd í landinu. Átök milli […], útbreidd spilling og skortur á gagnsæi á öllum stigum stjórnkerfis og samfélagsins hafi dregið úr völdum stjórnvalda og mannréttindavernd í ríkinu. Hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hvatt ríki til að snúa ekki nokkrum […], sem komi frá svæðum í […].

Samtökin Human Rights Watch telji […], með stuðningi Bandaríkjamanna og annarra ríkja, almennt hafa getað veitt eigin borgurum vernd gegn sókn […], en hins vegar sé ekki til staðar skilvirk mannréttindavernd í […]. Löggæslan í […] sé markvissari sé hún borin saman við suður- og mið-[…]. Í skýrslu danska flóttamannaráðsins kemur m.a. fram að öryggissveitir […] séu öflugar og geti að einhverju leyti tryggt öryggi á svæðinu. Heimildir bendi til þess að […] yfirvöld hafi möguleika á því að veita mjög skilvirkt öryggi á þeim svæðum sem þau stjórna, en hvort yfirvöld í […] geti veitt vernd fari eftir því hver það sé sem standi að baki ofsóknum. Yfirvöld veiti t.a.m. ekki vernd hafi einstaklingur átt í deilum við stjórnmálamann. Þá hafi samtökin Human Rights Watch lýst […] réttarkerfinu með þeim hætti að það sé undir pólitískum þrýstingi og notað til þess að kæfa niður andóf og gagnrýnisraddir. Þá velti aðgengi að réttarkerfi […] á því um hvaða þjóðernis- eða trúarhópa sé að ræða, hvaða ættbálki viðkomandi tilheyri, tengslum viðkomandi, hver séu fjölskyldutengsl viðkomandi, og að mjög erfitt sé fyrir einstaklinga að leita réttar síns upp á eigin spýtur. Þá segir í skýrslu danska flóttamannaráðsins að sumir ættbálkar í […] séu valdameiri þar heldur en stjórnvöld.

Í samantekt frá innflytjenda- og flóttamannanefnd Kanada frá 2016 komi fram að heiðurstengt ofbeldi sé algengt í […]. Heiður fjölskyldunnar sé tengdur kynferðislegri hegðun kvenkyns fjölskyldumeðlima. Konur séu álitnar eign fjölskyldunnar og geti karlkyns fjölskyldumeðlimir stjórnað lífi kvennanna m.a. hverjum þær giftast. Meðal þess sem teljist ganga gegn heiðri fjölskyldunnar sé kynlíf utan hjónabands. Gangi kona gegn heiðri fjölskyldunnar kann hún að vera myrt í því skyni að endurvekja heiður fjölskyldunnar. Í skýrslunni komi fram að samkvæmt opinberum tölum sé tíðni heiðursmorða um […] á hverju ári í […], sé þá einungis um að ræða atvik sem séu tilkynnt til lögreglu og á sjúkrahús. Á undanförnum árum hafi stjórnvöld í […] reynt að skýra lagaákvæði og herða refsingar gegn heiðursmorðum en lögunum hafi ekki verið fylgt eftir með fullnægjandi hætti og hafi morðingjarnir oft komist upp með glæpi sína. Lög ættbálka séu oft sterkari en lög ríkisins og sé innleiðing laganna því erfið í samfélagi sem sé stjórnað af heiðurslögum ættbálka. Leiðtogar ættbálka séu valda- og áhrifamestu aðilarnir þegar leysa eigi úr fjölskyldudeilum. Í skýrslunni sé einnig tekið fram að viðkomandi karlmaður, sem í óleyfi eigi í ástarsambandi við konu, sé í mikilli hættu á að vera drepinn. Enga aðstoð sé að fá fyrir karlkyns fórnarlömb heiðurstengds ofbeldis. En þó komi fram að ef karlmaður sem óttist heiðurstengt ofbeldi myndi sækjast eftir vernd lögreglu yrði honum líklega boðin lögregluvernd, en að eini möguleikinn á að hann nyti raunverulegrar verndar væri ef hann væri í umsjá lögreglunnar, sem geti ekki talist raunhæft til lengri tíma.

Af þessu sé ljóst að heiðursmorð sé djúpstætt vandamál í […]. Kærandi heldur því fram að möguleg fórnarlömb heiðursofbeldis séu sérstakur þjóðfélagshópur í […] skv. skilgreiningu b-liðar 3. mgr. 38. gr., sbr. 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga. Fórnarlömb heiðursofbeldis hafi það sameiginlegt að hafa, eða vera talin hafa, tekið þátt í athæfi sem sé fordæmt af samfélaginu og verði ekki tekið til baka. Fordæming samfélagsins og umburðarlyndi gagnvart ofbeldinu sem umræddir einstaklingar verði fyrir feli í sér brot á mannréttindum þeirra og ofsóknir sem að jafnaði kosti fórnarlömbin lífið.

Falli kærandi því undir skilgreiningu flóttamanns eins og hún kemur fram í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga þar sem kærandi hafi orðið fyrir heiðurstengdu ofbeldi og hótunum af hálfu fjölskyldu stúlku sem hann átti í ástarsambandi við. Kærandi teljist því vera flóttamaður í skilningi ákvæðanna og eigi rétt á alþjóðlegri vernd skv. 1. mgr. 37. gr. og 40. gr. laga um útlendinga.

Heiðurstengt ofbeldi sé ekki tekið alvarlega af lögreglu og sé almennt viðhorf lögreglunnar það að hún rannsaki ekki heiðurstengd mál þar sem þau séu álitin fjölskyldumál. Enga raunhæfa aðstoð sé að fá fyrir karlkyns fórnarlömb heiðurstengds ofbeldis. Kærandi gerir athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar er snýr að möguleika kæranda á ættbálkavernd í […]. Samkvæmt skýrslu Flóttamannastofnunnar Sameinuðu þjóðanna beri að líta svo á að vernd af hálfu ættbálka sé einungis möguleg til skamms tíma og sé hún hvorki skilvirk né lögmæt. Mótmælir kærandi því mati Útlendingastofnunar að vernd ættbálka verði jafnað til verndar yfirvalda. Heimildir bendi til þess að lög ættbálka geti skapað fórnarlömbum heiðurtengds ofbeldis mun verri stöðu en lög ríkisins.

Varðandi varakröfu kæranda kemur fram í greinargerð að með vísan til ótryggs ástands í […] og viðvarandi spillingar í löggæslu- og dómskerfi landsins sé ljóst að stjórnvöld þar í landi hafi hvorki getu né vilja til að vernda kæranda. Eins og komið hafi fram í fyrri umfjöllun þá hafi lög til varnar fórnarlömbum heiðursofbeldis í […] ekki verið fylgt eftir með fullnægjandi hætti. Hafi þetta í för með sér refsileysi gerenda. […]. Þrátt fyrir að ástandið í […] sé að mörgu leyti skárra en annars staðar í […] þá bendi heimildir til þess að þó svo að öryggissveitir í […] séu skilvirkar, sé ástandið þar víða óstöðugt og ótryggt. [...]. Í greinargerð er vísað til nýlegrar ákvörðunar Útlendingastofnunar, frá 2. nóvember 2016, sem sé að mati kæranda í öllum grundvallaratriðum sambærileg máli hans. Í því máli hafi verið um að ræða […] sem hafi verið búsettur í […] sem sé skammt frá heimabæ kæranda. Hafi umræddum einstaklingi einnig borist líflátshótanir líkt og kæranda. Útlendingastofnun hafi í þessu máli talið að með vísan til þeirrar óaldar sem ríki í […] væri ekki nægilega tryggt að einstaklingurinn gæti fengið fullnægjandi aðstoð yfirvalda á heimasvæði sínu vegna aðstæðna sinna og almennra aðstæðna í […]. Kærandi telur útilokað að ástandið hafi breyst svo mjög til batnaðar síðan þá að hægt sé að fullyrða að kærandi sé öruggur í […].

Kærandi gerir athugasemdir við heimildarvinnu Útlendingastofnunar og þær ályktanir sem dregnar eru í hinni kærðu ákvörðun. Í fyrsta lagi gerir kærandi athugasemd við áherslu Útlendingastofnunar á ummæli hans í viðtali þar sem kærandi kvað að ekki ríkti slæmt ástand eða hættuástand á því svæði sem hann hafi búið á í […]. Stjórnvöldum ríkis sem beri ábyrgð á umsókn aðila um alþjóðlega vernd sé ekki heimilt að senda hann til heimaríkis án þess að framkvæma sjálfstæða rannsókn á því hvort slík sending samræmist meginreglu þjóðarréttar um non-refoulement, sbr. 1. mgr. 42. gr. útlendingalaga. Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við þær heimildir sem Útlendingastofnun notast við, en stofnunin byggi á vefmiðlunum […] í hinni kærðu ákvörðun. Samræmist það ekki rannsóknarskyldu Útlendingastofnunar að grundvallarályktanir séu dregnar af slíkri heimild í máli sem varði jafn ríka hagsmuni og í tilviki kæranda. Umræddar heimildir séu einnig í andstöðu við afstöðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem leggist gegn endursendingum til […]. Af ofangreindu sé ljóst að aðstæður kæranda uppfylli skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því geri kærandi þá kröfu að honum verði veitt viðbótarvernd.

Með vísan til alls sem liggi fyrir í málinu áréttar kærandi að endursending hans til […] bryti gegn 42. gr. útlendingalaga.

Varðandi þrautavarakröfu kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er í greinargerð vísað til athugasemda með frumvarpi með sömu lögum. Þar komi meðal annars fram að veita verði stjórnvöldum svigrúm við mat á því hvenær rétt sé að veita dvalarleyfi samkvæmt greininni og að heildarmat á öllum þáttum máls verði að fara fram. [...] hafi ríkt í […] og geti yfirvöld ekki veitt kæranda þá vernd sem hann þarfnist. Þrátt fyrir að heimildir bendi til að dregið hafi úr […]. Ekki sé unnt að útiloka að […] muni herja á svæðið í framtíðinni. Ástandið í […] sé langt frá því að vera gott þó svo að ástandið sé að mörgu leyti skárra en annars staðar í landinu.

Að lokum bendir kærandi á að ekki sé mögulegt fyrir hann að búa annarsstaðar í […]. Almennt séu ekki forsendur til að kanna möguleika á flótta innan heimalands ef ljóst sé að ríkið skorti vilja eða getu til að vernda einstaklinga gegn ofsóknum, enda dugi þá ekki flutningur innanlands. Um sé að ræða einstaklingsbundið mat á persónulegum aðstæðum kæranda og sé engin lausn fólgin í því að hann myndi flytjast innanlands í […].

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 121. gr. laganna, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga með áorðnum breytingum að því leyti sem hún hefur enn lagastoð, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi ekki lagt fram gögn til að sanna á sér deili. Þann 6. desember 2016 hafi kærandi þreytt tungumála- og staðháttarpróf sem staðfesti að kærandi sé þaðan sem hann segist vera.

Fellst kærunefnd því á að kærandi sé […] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í […] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

Í ofangreindum gögnum kemur fram að flestir […] í […] búi í norðurhluta landsins. Árið 2005 hafi […] verið tryggð […] í stjórnarskrá […]. Á síðastliðnum árum hafi stjórn […] náð að koma á pólitískum stöðugleika og aukið hagvöxt á svæðinu. […] en ekki ríkisstjórn […]. Fyrir utan hefðbundna lögreglu sé […] einnig með öryggissveit sem nefnist […]. […] sé talið tiltölulega öruggt svæði þökk sé […] hernum sem nefnist […]. Her […] og öryggissveitir þeirra hafi unnið hörðum höndum við að verja svæðið gegn […]. Af gögnunum má ráða að spilling sé mikið vandamál í […], þar á meðal í stjórnmálum, löggæslu- og réttarkerfinu. Á undanförnum árum hafi talsvert verið unnið að því að uppræta spillingu af hálfu embættismanna í landinu og eitthvað hafi miðað áfram í þeim málum. Á tímabilinu 2005 til 2014 hafi […] stjórnvöld, þar á meðal svæðisstjórn […], unnið í samstarfi við Evrópusambandið að umbótum á stofnunum ríkisins svo sem lögreglu, dómstólum og fangelsum landsins. Áætlunin nefnist […] og hafi m.a. […] lögreglumenn og […] dómarar undirgengist þjálfun í því skyni að koma á skilvirkri laga- og mannréttindavernd.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Til að teljast flóttamaður hér á landi þarf kærandi að sýna fram á að aðstæður hans séu slíkar að þær falli undir 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. flóttamannasamning Sameinuðu þjóðanna, eða 2. mgr. 37. gr. sömu laga. Kærandi kveðst vera í hættu í heimaríki vegna hótana af hálfu tveggja einstaklinga sem séu bræður stúlku sem kærandi hafi átt í ástarsambandi við. Hafi bræðurnir hótað kæranda í tvígang ásamt því að beita hann ofbeldi. Þá telji kærandi að líf hans sé í hættu í […] þar sem samband hans við stúlkuna sé ekki samfélagslega viðurkennt á svæðinu.

Í 1. mgr. 37. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. útlendingalaga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Almennt ber að telja ótta umsækjanda um alþjóðlega vernd ástæðuríkan ef hann getur á nægilega skýran hátt sýnt fram á að áframhaldandi dvöl í heimaríki sé honum óbærileg af ástæðum sem tilgreindar eru í 1. mgr. 37. gr. eða yrði óbærileg af sömu ástæðum ef hann sneri aftur. Hugtakið „ástæðuríkur ótti við ofsóknir“ inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn a.m.k. að sýna fram á að ákveðnar líkur séu á að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi kveðst óttast ofsóknir af hálfu bræðra stúlku sem hann hafi átt í ástarsambandi við. Greindi kærandi frá þeim hótunum og því ofbeldi sem hann kveðst hafa orðið fyrir af hálfu bræðranna. Kærandi kveður lögreglu í heimaríki hans ekki geta veitt honum fullnægjandi vernd. […] sé ættbálkasamfélag þar sem reglur ættbálksins gangi framar landslögum. Af þeim sökum geti lögreglan í […] ekki veitt honum vernd gegn bræðrunum. Kærandi lagði ekki fram gögn til stuðnings frásögn sinni af þeirri atburðarás sem hann hefur lýst.

Kærunefnd telur að í frásögn kæranda af atvikum og atburðum í heimalandi hans gæti misræmis. Framburður kæranda hefur verið óstöðugur um ástæður flótta hans frá heimaríki og þá er tímalína atburða að nokkru leyti á reiki. Mat á trúverðugleika frásagnar kæranda er byggt á viðtali við kæranda hjá kærunefnd, afritum af tveimur viðtölum hans hjá Útlendingastofnun, öðrum gögnum málsins og upplýsingum um heimaríki kæranda. Nokkurt ósamræmi er á milli lýsinga kæranda á tilteknum en mikilvægum atriðum í upphaflegum viðtölum við Útlendingastofnun og síðari frásögnum hans.

Kærandi sagði í þjónustuviðtali hjá Útlendingastofnun í nóvember 2016 að tveir menn hafi komið og hótað honum með fjögurra vikna millibili. Í viðtali við Útlendingastofnun síðar í sama mánuði breytti kærandi frásögn sinni og kvað sjö mánuði hafa liðið á milli árása mannanna, þar sem þeir hafi hótað kæranda og beitt hann ofbeldi. Í báðum viðtölum við Útlendingastofnun í nóvember 2016 segist kærandi ekki þekkja mennina sem hafi hótað honum. Í seinna viðtali kæranda við Útlendingastofnun kvað kærandi mennina vera trúaða og hann teldi þá hafa hótað sér vegna óánægju þeirra við rekstur biljarðstofunnar, t.d. varðandi opnunartíma og áhrif kæranda á ungt fólk. Í greinargerð kæranda frá 27. júní 2017 breytir kærandi frásögn sinni hvað þetta varðar og segist vita að mennirnir séu bræður stúlku sem hann hafi verið í sambandi við. Aðspurður í viðtali hjá kærunefnd af hverju hann hafi ekki greint frá stúlkunni fyrr sagði kærandi að hann hafi verið hræddur við túlkinn hjá Útlendingastofnun. Hann hafi ekki vitað hver túlkurinn væri né hvaðan hann kom, kærandi benti einnig á að hann þekki ekki íslenska réttarkerfið né þau lög og reglur sem gilda hér.

Í greinagerð kæranda kemur fram að stúlkan sem kærandi hafi átt í ástarsambandi við hafi horfið á meðan kærandi var enn þá í […]. Í viðtali við kærunefnd sagði kærandi að hann hafi verið að hitta stúlkuna þar til að hann flúði […]. Stúlkan sé núna horfin og hann viti ekki hvað hafi orðið um hana eftir að hann kom til Íslands. Spurður út í þetta misræmi bað talsmaður kæranda um orðið og kvað þetta hafi verið misskilning á milli hans og kæranda. Kærandi staðfesti frásögn sína þess efnis að hann hefði verið að hitta stúlkuna þar til hann flúði […]. Aðspurður hvernig kærandi og stúlkan hefðu getað verið í samskiptum svaraði kærandi að þau hafi fyrst hist fyrir utan biljarðstofu kæranda en síðar hafi þau verið í sambandi í gegnum smáskilaboð. Aðspurður hvort kærandi hafi reynt að hafa samband við stúlkuna kvaðst kærandi ekki vera með símanúmerið hennar.

Í greinargerð kæranda kemur fram að mennirnir hafi vitað við fyrri árásina að systir þeirra væri barnshafandi. Í viðtali hjá kærunefnd staðfesti kærandi þetta. Kærunefnd spurði næst kæranda hvort að bræðurnir hafi vitað við fyrri árásina að systir þeirra væri þegar búin að eiga sína fyrstu kynlífsreynslu. Neitaði kærandi því og sagði að þegar mennirnir réðust fyrst á hann hafi þeir ekki vitað af ástarsambandi kæranda og systur þeirra heldur einungis að þau hafi verið að tala saman. Bætti kærandi við að ef bræðurnir hefðu vitað af ástarsambandi kæranda og stúlkunnar hefðu þeir drepið hann. Var það ekki fyrr en í seinna skiptið sem þeir vissu að þau hafi átt í ástarsambandi en þá hafi ekki verið ljóst að stúlkan væri barnshafandi. Hafi kærandi flúið […] þegar hann hafi frétt að stúlkan væri barnshafandi þar sem hann hafi óttast um líf sitt. Aðspurður um þetta misræmi í greinargerð og frásögn kæranda segir kærandi þetta vera mistök og að talsmaður hafi misskilið hann. Eftir að kærandi kom til Íslands hafi hann haft samband við bróður sinn sem hafi sagt kæranda að stúlkan væri horfin.

Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvaðst kærandi ekki óttast yfirvöld heldur einungis umrædda bræður. Jafnframt greindi kærandi frá því að hann hafi ekki leitað til lögreglunnar vegna umræddra ofsókna. Hafi það verið vegna þess að hann hafi ekki vitað hverjir það voru sem hafi hótað honum en lögreglan í […] hefði ekki getað aðstoðað hann nema hann hefði getað borið kennsl á mennina. Í greinagerð kemur fram að kærandi hafi vitað hverjir mennirnir voru. Aðspurður í viðtali hjá kærunefnd af hverju hann hafi ekki leitað til lögreglu sagði kærandi að hún hefði ekki getað veitt honum vernd. Bætti kærandi síðar við að lögreglan væri búin að gefa út handtökuskipun á hendur kæranda og væri að leita að honum. Hafi kærandi komist að því tveimur dögum áður en hann hafi flúið […] að lögreglan væri að leita að honum. Aðspurður af hverju hann hafi ekki greint frá því fyrr að lögreglan væri að leita að honum svaraði kærandi að hann hafi ekki viljað segja túlkinum hjá Útlendingastofnun það. Aðspurður hvernig hann viti að lögreglan sé að leita að honum vegna sambands hans við stúlkuna sagði kærandi að þetta hafi verið hans eina vandamál á þessum tíma.

Í viðtali hjá kærunefnd í júlí 2017 kvaðst kærandi ætla reyna nálgast handtökuskipunina sem lögreglan í […] hefur gefið út á hendur honum. Kærunefnd veitti kæranda frest til 14. júlí 2017 til að afla þessa gagns. Engin gögn bárust nefndinni.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er það mat kærunefndar að talsvert misræmi sé í frásögn kæranda af ástæðum flótta hans frá […]. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn máli sínu til stuðnings. Ósamræmi er á milli þess sem kærandi sagði í viðtali hjá Útlendingastofnun og þess sem byggt var á í greinargerð til kærunefndar. Þá var enn frekar ósamræmi á milli greinargerðar og þess sem fram kom í viðtali hjá kærunefnd. Innra ósamræmi var einnig í framburði kæranda í viðtali hjá kærunefnd. Þegar framangreint er virt heildstætt er það mat kærunefndar að frásögn kæranda af atburðum og ástæðum flótta sé að mestu ótrúverðug og verður því ekki lagt til grundvallar í málinu að kærandi sé fórnarlamb heiðurstengds ofbeldis eða sé í hættu vegna slíks ofbeldis. Kærunefnd fellst hins vegar á að kærandi hafi orðið fyrir ofbeldi af hálfu tveggja manna í heimaríki sínu og verður sú frásögn lögð til grundvallar í máli kæranda.

Eins og rakið er í greinargerð kæranda hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna lagst gegn endursendingum einstaklinga til […] sem koma frá þeim svæðum þar sem átök geisa, þar sem ástandið er brothætt eða óöruggt eftir að hafa verið undir stjórn […], eða þeim svæðum þar sem […] er enn við völd. Þá telur flóttamannastofnunin óráðlegt að senda einstaklinga frá slíkum svæðum til annarra svæða innan […]. Samkvæmt þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er ljóst að heimabær kæranda sé á öruggu svæði í […]. Tiltölulega langt sé í átakasvæði þar sem stjórnarher […] og her […] berjast við […]. Verður því ekki talið að viðvörun Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eigi við um einstaklinga sem eru í sambærilegri stöðu og kærandi.

Verði kærandi fyrir ofbeldi í heimaríki sínu er það mat kærunefndar að gögn sýni að hann eigi þess kost að leita aðstoðar og verndar yfirvalda. Þó að fallast megi á að skilvirkni lögregluyfirvalda og dómstóla sé að nokkru leyti ábótavant og spilling sé talsverð í landinu er það mat kærunefndar, með vísan til þeirra gagna sem nefndin hefur kynnt sér, að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld í […] geti ekki eða vilji ekki veita kæranda vernd gegn þeirri hættu sem hann telji sig vera í m.a. með því að ákæra eða refsa fyrir þær athafnir sem feli í sér ofsóknir, sbr. c-lið 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til þess sem að framan hefur komið fram telur kærunefnd að kærandi hafi ekki ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi laga um útlendinga.

Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í greinagerð kemur fram að öryggissveitir […] séu öflugar og þær geti að einhverju leyti tryggt öryggi á svæðinu, en að ástandið í […] sé með þeim hætti að enginn aðili hafi þar fulla stjórn. Kærunefnd telur að ekki sé hægt að líkja heimabæ kæranda við […]. Borgin sé í næsta nágrenni […] og hafi […] og stjórnarher […] lengi barist við […] um yfirráð á svæðinu. Heimabær kæranda sé hins vegar langt inn í landi […] þar sem lögregla og öryggissveitir hafi stjórn á aðstæðum.

Máli sínu til stuðnings vísar kærandi einnig til fyrri ákvörðunar Útlendingastofnunar frá 2. nóvember 2014. Kærandi telur að það mál sé í öllum grundvallaratriðum sambærilegt máli kæranda en aðstæður einstaklingsins voru taldar falla undir ákvæði útlendingalaga um viðbótarvernd. Í tilefni tilgreindrar athugasemdar bendir kærunefnd á að umræddur úrskurður Útlendingastofnunar hafi ekki fordæmisgildi fyrir ákvarðanir kærunefndar.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í þeim skýrslum og gögnum sem kærunefnd hefur farið yfir kemur fram að svæði […] sé talið öruggt og séu lögregla og öryggissveitir […] öflugar og vel búnar. Að teknu tilliti til trúverðugleikamats bendir ekkert til þess að kærandi sé í raunverulegri hættu, á heimasvæði sínu í […], á að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu verði hann sendur aftur til […].

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. útlendingalaga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga nr. 80/2016 kemur fram að erfiðar almennar aðstæður geta tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við náttúruhamfarir eða langvarandi stríðsástand í heimaríki. Langvarandi stríðstástand hafi ríkt í heimaríki kæranda og heldur kærandi því fram að yfirvöld í […] geti ekki veitt honum þá vernd sem hann þarfnist. Af þeim gögnum og skýrslum sem kærunefnd hefur farið yfir má draga þá ályktun að þrátt fyrir að ótryggt ástand ríki á ákveðnum landsvæðum í heimaríki kæranda þá teljist svæðið þar sem kærandi hafði búsetu öruggt svæði. […] sé jafnframt með virkt refsivörslukerfi sem geti veitt kæranda viðeigandi vernd.

Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Ívar Örn Ívarsson Þorbjörg Inga Jónsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta