Landspítali innan fjárlaga á fyrsta fjórðungi
Uppgjör Landspítalans fyrir fyrsta ársfjórðung 2010 liggur nú fyrir. Í bréfi Björns Zoëga, forstjóra LSH, til starfsmanna spítalans kemur fram að mikill árangur hafi náðst í hagræðingaraðgerðum. Þakkar Björn það samstilltu átaki allra starfsmanna, að spítalinn sé nú rekinn innan ramma fjárlaga. Meðal annars hafi tekist að fækka sólarhringsrúmum og færa starfsemi meira yfir á dagvinnutíma, sem hafi töluverðan sparnað í för með sér.
Björn ítrekar nauðsyn þess að viðhalda þessum góða árangri. „Við þurfum líka snerpu til að bregðast fljótt við ef eitthvað breytist. Áfram er það forgangsatriði að tryggja öryggi sjúklinga á erfiðum tímum,“ segir Björn Zoëga, forstjóri LSH.