Nýr aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra
Andrés Ingi Jónsson hefur tekið við sem aðstoðarmaður Álfheiðar Ingadóttur heilbrigðisráðherra.
Hann mun leysa Lísu Kristjánsdóttur af, sem fer í fæðingarorlof – en hún á von á sínu þriðja barni á næstu vikum.
Andrés Ingi hefur undanfarnar vikur starfað sem upplýsingafulltrúi heilbrigðisráðuneytisins og leysti áður af sem upplýsingafulltrúi umhverfisráðuneytisins. Áður var hann verkefnisstjóri hjá Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, en þar á undan blaðamaður á 24 stundum.
Andrés er með meistarapróf í alþjóðastjórnmálum frá University of Sussex og BA-gráðu í heimspeki frá Háskóla Íslands.