Fyrsta matvælastefnan fyrir Ísland kynnt: Stefnan mörkuð til 2030
„Ísland býr yfir einstökum tækifærum á sviði matvælaframleiðslu en áskoranir framundan eru líka stórar, ekki síst á sviði loftslagsmála og lýðheilsu. Því er mikilvægt að móta skýra framtíðarsýn,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra sem ásamt Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti Matvælastefnu fyrir Ísland til ársins 2030 á streymisfundi í dag.
„Hornsteinn Matvælastefnu fyrir Ísland er sérstaða landsins þegar kemur að matvælaframleiðslu. Hún er óumdeild og henni eigum við að hampa í hvívetna. Tækifæri í íslenskri matvælaframleiðslu eru allt umlykjandi. Eftirspurnin eftir hreinni og heilnæmri vöru eykst sífellt og við erum vel í stakk búin til að svara þeirri eftirspurn. Markmið okkar er að tryggja samfellda hagsæld með aukinni verðmætasköpun,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Hér má sjá kynningarmyndband um Matvælastefnu
Stefna til 10 ára, aðgerðaáætlun endurskoðuð eftir 5 ár
Í stefnunni er fjallað um tækifæri og áskoranir íslenskrar matvælaframleiðslu til næstu tíu ára. Fjallað er um mikilvægi aðgengis að hollum mat til að tryggja lýðheilsu til framtíðar og áskoranir sem þarf að mæta til að tryggja fæðuöryggi landsmanna. Þá er fjallað um möguleika til að styrkja samkeppnishæfni og verðmætasköpun íslenskra framleiðenda, ekki síst með nýsköpun og rannsóknum. Jafnframt um nauðsyn þess að matvælaframleiðsla styðji við loftslagsmarkmið og mikilvægi sjálfbærrar nýtingar auðlinda landsins. Þá er fjallað um þróun á neyslumynstrum fólks og tækifærin til að bregðast við breyttum kröfum neytenda um gagnsæi og aukið aðgengi að upplýsingum.
Matvælastefna fyrir Ísland er mótuð með aðkomu ólíkra aðila sem hafa mikla og breiða þekkingu á málaflokknum, hagsmunaaðila og samtaka þeirra. Stefnan er mörkuð til 10 ára, til ársins 2030 og er ætlað að vera leiðbeinandi við ákvarðanatöku hins opinbera til að stuðla að aukinni verðmætasköpun í matvælaframleiðslu hér á landi, tryggja matvælaöryggi og auka velferð fólks í sátt við umhverfi og náttúru.
Matvælastefna Íslands er lifandi stefna sem mun taka mið af þróun og breytingum næstu ára og áratuga. Henni fylgir aðgerðaáætlun[Link] í rúmlega 30 liðum sem verður endurskoðuð að fimm árum liðnum. Ráðherrar í ráðherranefnd um Matvælastefnu, munu skipa fulltrúa hvers ráðuneytis í aðgerðastjórn til að fylgja eftir aðgerðaáætluninni.
Í verkefnisstjórn um mótun matvælastefnu fyrir Ísland sátu eftirfarandi aðilar:
Vala Pálsdóttir, formaður, skipuð án tilnefningar
Ingi Björn Sigurðsson, skipaður án tilnefningar
Gunnar Sigurðarson, tilnefndur af Samtökum iðnaðarins
Anna Guðmundsdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi
Sigurður Eyþórsson, tilnefndur af Bændasamtökum Íslands
Gunnar Egill Sigurðsson, tilnefndur af Samtökum verslunar og þjónustu
Þuríður Hjartardóttir, tilnefnd af Neytendasamtökunum
Jakob Einar Jakobsson, tilnefndur af Samtökum ferðaþjónustunnar
Kári Gautason, skipaður án tilnefningar
Rakel Garðarsdóttir, skipuð án tilnefningar
Þórarinn H. Ævarsson, skipaður án tilnefningar
Einnig sátu í verkefnisstjórninni þau Hrönn Ólína Jörundsdóttir og Arnljótur Bjarki Bergsson fyrir hönd Matís, Ragnheiður Héðinsdóttir frá Samtökum iðnaðarins og Brynja Laxdal frá Matarauði. Þá starfaði María Guðjónsdóttir með verkefnisstjórninni.
Hér má finna Matvælastefnu fyrir Ísland til 2030
Hér má finna aðgerðaáætlun stefnunnar
Vefsíða stefnunnar er: www.matvælastefna.is