Mannanafnanefnd, úrskurður 10. september 2007
FUNDARGERÐ
Ár 2007, sunnudaginn 10. september, var haldinn símafundur í mannanafnanefnd. Mætt voru Ágústa Þorbergsdóttir, Baldur Sigurðsson og Kolbrún Linda Ísleifsdóttir. Tekið var fyrir:
1. Mál nr. 51/2007 Millinafn: Kjarrval
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Með úrskurði mannanafnanefndar í máli nr. 49/2006, uppkveðnum þann 20. nóvember 2006, var hafnað beiðni dóms- og kirkjumálaráðuneytisins fyrir hönd [...] um samþykki millinafnsins Kjarrval. Í málinu var um nafnbreytingarbeiðni að ræða þar sem umsækjandi hafði farið þess á leit að fá að taka upp millinafnið Kjarrval. Þrátt fyrir að nafninu Kjarrval hafi verið hafnað sem almennu millinafni var umsækjanda talið heimilt að taka upp nafnið Kjarrval sem sérstakt millinafn á grundvelli 3. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996, en [...] hafði borið nafnið Kjarrval, en nafnið færi ekki á mannanafnaskrá. Þar sem skráning sérstakra mannanafna skv. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 45/1996 og 5. mgr. 13. gr. sömu laga heyrir ekki undir mannanafnanefnd var málið framsent Þjóðskrá til meðferðar og afgreiðslu á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur farið fram á endurupptöku málsins þar sem í fyrrnefndum úrskurði mannanafnanefndar hafi ekki verið tekin afstaða til þess hvort nafnið Kjarrval fullnægi þeim skilyrðum sem sett eru í 2. mgr. 6. gr. mannanafnalaga nr. 45/1996 til að geta talist almennt millinafn, en ráðuneytinu sé nauðsynlegt að fá niðurstöðu í það álitaefni til að geta tekið afstöðu til þess hvort nafnið Kjarrval fullnægi þeim áskilnaði í 3. mgr. 6. gr. laganna að vera millinafn sem víki frá ákvæðum 2. mgr. 6. gr. laga um mannanöfn. Þar sem millinafnið Kjarrval er hvorki á mannanafnskrá né hefur verið samþykkt formlega af mannanafnanefnd, sem er skilyrði nafnbreytingar skv. 1. mgr. 13. gr. laga um mannanöfn, sbr. 5. mgr. sömu greinar, fer ráðuneytið fer þess að á leit, með skírskotun til 1. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1996, að nefndin láti í ljós álit sitt á því hvort heimila skuli framangreinda nafnbreytingu á grundvelli 13. gr. sömu laga.
Að mati mannanafnanendar er skilyrðum endurupptöku fullnægt og því er málið tekið til meðferðar að nýju.
Nafnið Kjarrval uppfyllir þau almennu skilyrði sem gerð eru til millinafna skv. 6. gr. laga nr. 45/1996. Það er dregið af íslenskum orðstofnum, hefur ekki nefnifallsendingu, hefur ekki áunnið sér hefð sem eiginnafn karla eða kvenna, er ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og er ekki þannig að það geti orðið nafnbera til ama. Hins vegar er ekki hægt að samþykkja nafnið Kjarrval sem almennt millinafn þar sem líkindi í framburði við ættarnafnið Kjarval geri það að verkum að upp geti komið árekstur við það nafn sem notað hefur verið sem ættarnafn og því óheimilt öðrum en þeim sem hafa rétt til nafnsins, sbr. 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, sbr. einnig 24. gr. sömu laga. Og þar sem nafnið Kjarrval víkur ekki frá ákvæðum 2. mgr. 6. gr. laganna, sbr. ofangreint, er það ekki heimilt sem sérstakt millinafn skv. 3. mgr. 6. gr. sömu laga.
Úrskurðarorð:
Beiðni um millinafnið Kjarrval er hafnað, bæði sem almennt og sem sérstakt millinafn.
- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -
Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.