Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 464/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 22. ágúst 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 464/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17050046

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru sem barst kærunefnd útlendingamála, dags. 23. maí 2017, kærði [...], f.h. [...], fd. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2017, um að synja kæranda um dvalarleyfi á Íslandi vegna fjölskyldusameiningar.

Kærandi gerir þá kröfu aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og lagt verði fyrir stofnunina að veita kæranda dvalarleyfi hér á landi. Til vara gerir þá kröfu að málinu verði vísað aftur til stofnunarinnar til viðeigandi afgreiðslu.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi hér á landi vegna fjölskyldusameiningar sem barn foreldris sem er með dvalarleyfi hér á landi þann 29. janúar 2016. Þeirri umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 16. maí 2017. Framangreind ákvörðun Útlendingastofnunar var kærð til kærunefndar útlendingamála þann 23. maí 2017. Með tölvupósti sama dag var óskað eftir athugasemdum stofnunarinnar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Gögn málsins bárust kærunefnd þann 1. júní 2017, en Útlendingastofnun gerði ekki athugasemdir við kæruna. Með tölvupósti, dags. 11. júlí 2017, óskaði kærunefnd eftir því að kærandi legði fram frekari gögn og var veittur frestur til 21. júlí 2017. Þann 20. júlí bárust umbeðin gögn ásamt greinargerð. Þann 9. ágúst sl. bárust kærunefnd útlendingamála frumrit fyrrgreindra gagna sem send höfðu verið Útlendingastofnun.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar byggði á því að fylgigögn umsóknar kæranda um dvalarleyfi væru ófullnægjandi. Kæranda hafi verið sent bréf, dags. 8. mars 2016, þar sem óskað hafi verið eftir frekari vottun á hjálagt sakavottorð, húsnæðisvottorð, gögn um framfærslu, frekari vottun á hjálagt hjúskaparstöðuvottorð og frekari vottun á hjálagt fæðingarvottorð. Hinn 19. apríl 2016 hafi Útlendingastofnun borist húsnæðisvottorð, sakavottorð og greiðsluseðlar. Með bréfi, dags. 5. ágúst 2016, tilkynnti Útlendingastofnun móður kæranda að framlögð forsjárgögn væru ekki fullnægjandi. Veittur var 30 daga frestur til að leggja inn umbeðin gögn áður en Útlendingastofnun tæki ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Útlendingastofnun barst tölvupóstur, dags. 8. september 2016, frá [...], eiginmanni móður kæranda. Í póstinum kom m.a. fram að það myndi taka lengri tíma en ella að fá gögnin vegna kosninganna í [...]. Hinn 16. nóvember 2016 var móður kæranda send ítrekun um að leggja inn fullnægjandi forsjárgögn. Þann 22. nóvember 2016 barst Útlendingastofnun gögn sem voru að mati stofnunarinnar ófullnægjandi og sendi í kjölfarið bréf þess efnis, dags. 5. desember 2016. Ítrekunarbréf hafi verið sent 8. febrúar 2017. Þann 16. febrúar sama ár hafi umbjóðandi kæranda haft samband við Útlendingastofnun símleiðis og óskað eftir frekari fresti til að leggja fram gögn.

Umbeðin gögn hafi ekki borist stofnuninni og hafi verið ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga um fullnægjandi fylgigögn með umsókn, þrátt fyrir beiðnir þar um. Þar af leiðandi hafi kærandi ekki sýnt fram á að hún hafi uppfyllt skilyrði laga um útlendinga um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar og hafnaði stofnunin því umsókn kæranda.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að þegar ákvörðun Útlendingastofnunar hafi verið tekin hafi vantað forsjárgögn sem verið var að vinna í að koma til Íslands. Það hafi tekið mun lengri tíma að fá þessi gögn en áætlað hafi verið. Gögnin hafi þurft að fara fyrir dómstól í [...] og þaðan til staðfestingar í höfuðborginni [...]. Þegar gögnin hafi verið komin til landsins hafi þurft að senda þau til Dublin á Írlandi til staðfestingar hjá [...] sendiráðinu. Nú séu gögnin komin til landsins og því sé óskað eftir því að kæranda verði veitt dvalarleyfi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum að því leyti sem hún hefur enn lagastoð.

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 29. janúar 2016 sem barn útlendings en um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar fyrir börn ef foreldri hefur dvalarleyfi hér á landi gilda ákvæði 69. og 71. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Í máli þessu sótti kærandi um dvalarleyfi sem nánasti aðstandandi útlendings sem dvelst hér á landi en kærandi kveðst vera dóttir [...] sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara og dvelur hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 70. gr. laga um útlendinga. Í 69. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 47. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 53/2003, með síðari breytingum, er að finna heimild til að veita nánustu aðstandendum útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 70. gr. laganna, dvalarleyfi hér á landi að uppfylltum grunnskilyrðum fyrir veitingu dvalarleyfis sem koma fram í 55. gr. og VIII. kafla laganna. Kærandi þarf því að uppfylla sérstök skilyrði 69. gr. laga um útlendinga ásamt grunnskilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laganna svo umsókn hans um dvalarleyfi verði samþykkt.

Í lögum um útlendinga nr. 80/2016 er að finna heimild í 71. gr. laganna til að veita barni yngra en 18 ára dvalarleyfi ef foreldri þess hefur dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 71. gr. laga um útlendinga skal barn vera í forsjá þess aðila sem það leiðir rétt sinn af. Samþykki beggja forsjárforeldra þarf að liggja fyrir við umsókn séu þeir fleiri en einn. Heimilt er að víkja frá þessu skilyrði vegna sérstakra aðstæðna, t.d. ef sannanlega næst ekki í forsjáraðila, enda mæli hagsmunir barnsins með því.

Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga um útlendinga skal umsókn um dvalarleyfi fylgja öll þau gögn og vottorð sem Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun gera kröfu um til staðfestingar á að umsækjandi uppfylli skilyrði sem lög, reglugerðir og önnur stjórnvaldsfyrirmæli kveða á um. Í 10. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 er kveðið á um að vegna umsóknar um dvalarleyfi skuli útlendingur leggja fram þau gögn sem talin eru nauðsynleg við afgreiðslu umsóknarinnar, m.a. sakavottorð, fæðingarvottorð, heilbrigðisvottorð, hjúskaparvottorð, gögn um framfærslu og gögn um forsjá barns.

Við mat á því hvort skilyrði 2. mgr. 71. gr. laga um útlendinga séu fyrir hendi telur kærunefnd útlendingamála að almennt verði að gera ríkar kröfur til sönnunar á gildi gagna sem lögð eru fram því til staðfestingar. Almennt er gerð sú krafa að fyrir liggi lögformleg staðfesting á gildi skjala sem sýna fram á hver fer með forsjá barns. Ástæða þessara ríku krafa eru skyldur sem hvíla á íslenskum stjórnvöldum að tryggja réttindi barna, m.a. að gera ráðstafanir gegn því að börn séu ólöglega flutt úr landi og haldið erlendis, sjá m.a. 11. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Ísland er aðili að Haag-samningnum um afnám áskilnaðar um staðfestingu erlendra opinberra skjala og er eingöngu krafist svonefndrar apostille-staðfestingar sérstaklega tilnefnds stjórnvalds í útgáfuríki skjalsins í stað einnig sendiráðs og/eða ræðisskrifstofu þess ríkis þar sem framvísa á skjalinu. Þegar skjal er gefið út af yfirvöldum ríkis sem ekki á aðild að samningnum þarf að jafnaði að liggja fyrir svonefnd keðjuvottun gagna frá upprunaríki skjalsins og sendiskrifstofu Íslands gagnvart upprunaríki.

Eins og að framan greinir synjaði Útlendingastofnun umsókn kæranda um dvalarleyfi vegna þess að fullnægjandi gögn höfðu ekki verið lögð fram að mati stofnunarinnar en stofnunin hafði óskað eftir fullnægjandi gögnum um hver færi með forsjá kæranda. Á kærustigi hefur kærandi lagt fram gögn sem bera með sér að [...] hafi fullt forræði yfir henni. Gögnin eru gefin út af [...] dómstóli, staðfest af utanríkisráðuneyti [...] og staðfest aftur af [...] sendiráðinu í Dublin á Írlandi.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna á þann hátt að þeir fái skoðun á máli sínu á tveimur stjórnsýslustigum. Að mati kærunefndar er það til hagsbóta fyrir kæranda að Útlendingastofnun taki afstöðu til þess hvort þau gögn sem kærandi hefur lagt fram eftir að stofnunin tók ákvörðun í málinu séu fullnægjandi. Kærandi getur þá eftir atvikum leitað eftir endurskoðun á því mati hjá kærunefnd. Þykir því rétt að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju. 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall re-examine her applications of residence permit.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Árni Helgason                                                                          Anna Valbjörg Ólafsdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta