Hoppa yfir valmynd
24. mars 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Tíðniheimildir til 20 ára með skilyrðum um háhraðafarnetsþjónustu í byggð og á stofnvegum

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Fjarskiptastofa hefur gefið út endurnýjaðar tíðniheimildir fyrir háhraða farnet til Nova ehf., Símans hf. og Sýnar hf. Með þessu er fyrirtækjunum heimiluð áframhaldandi notkun tiltekinna tíðna á 800, 900. 1800, 2100 og 3600 MHz tíðnisviðum næstu tvo áratugi.

Í tíðniheimildum eru sett skilyrði sem stuðla að því að háhraða farnetsþjónusta verði aðgengileg fyrir landsmenn alla og að á stofnvegum landsins verði þjónustan slitlaus eftir því sem tæknilega er gerlegt. Hraða- og útbreiðslukröfur fara stigvaxandi á næstu árum og eru endanlegar lágmarkskröfur að a.m.k. 99% heimila og vinnustaða hafi aðgang að háhraðaþjónustu um farnet. Þar af nái a.m.k. 97% heimila og vinnustaða þjónustu með 1 Gb/s hraða að lágmarki.

„Þessi útgáfa tíðniheimilda, með tímasettum skilmálum um uppbyggingu háhraðafarnetsþjónustu í byggð og á stofnvegum, markar tímamót í fjarskiptum á Íslandi og er stórt skref í áttina að gígabitalandi þar sem aðgengi að gígabita ljósleiðara- og farnetssambandi verður almennt í allri byggð. Þar að auki tryggir þessi ráðstöfun samfellt háhraðanetsamband á helstu samgönguleiðum landsins, stofnvegum, sem er forsenda sambands við 112 og hagnýtingar upplýsingakerfa sem fólk og farartæki munu treysta á í fyrirsjáanlegri framtíð, segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra fjarskiptamála.

,,Sú samstaða sem náðst hefur um þessa metnaðarfullu uppbyggingu farneta, að hluta í samstarfi markaðsaðila og opinberra aðila, er til fyrirmyndar og stórt púsl í stærri mynd um tækifærin sem felast í þekkingarsamfélagi hérlendis."

Samvinna farnetsfyrirtækja til uppbyggingar á stofnvegum og hálendi

Samkvæmt tíðniheimildum skal byggja upp aðstöðu og þjónustu á stofnvegum landsins og tilteknum hálendisvegum svo að a.m.k. 30 Mb/s hraði náist á öllum stofnvegum innan fárra ára og 150 Mb/s í kringum árið 2030, ef þörf verður fyrir slíkan hraða á vegunum. Á hálendinu er gert ráð fyrir 10 Mb/s hraða á Uxahryggjum, Kjalvegi, Sprengisandi og Fjallabaksleið nyrðri fyrir árslok 2031.

Tíðnirétthöfum er heimilað að vinna saman að uppbyggingu á stofnvegum og á hálendi. Kostnaður vegna uppbyggingar skal skiptast jafn á milli farnetsfyrirtækjanna og Öryggisfjarskipta ehf. sem fengu tíðniheimild með slíkum heimildum árið 2022. Fjarskiptastofa hefur sett ramma um samskipti fyrirtækjanna vegna verkefnisins sem tryggja á að samstarfið raski ekki samkeppni. Sameiginleg uppbygging og notkun samkvæmt heimildum skal aðeins vera á svæðum þar sem markaðsbrestur telst vera fyrir hendi skv. ákveðnum viðmiðum. Þá fer öll samvinna fyrirtækjanna eftir sérstökum reglum um hátterni og samskipti sem Fjarskiptastofa setti þegar viðræður hófust í fyrra. 

Nánari upplýsingar má nálgast á vef Fjarskiptastofu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta