Samgönguáætlun líkleg til að hafa jákvæð áhrif
Meðal niðurstaðna í skýrslu vegna umhverfismats samgönguáætlunar 2007 -2018 er að áætlunin sé líkleg til að hafa talsverð jákvæð samfélagsleg áhrif og ekki valda verulegum neikvæðum umhverfisáhrifum. Mikilvægt er talið að fjalla um mismunandi nýtingu hálendisins við ákvörðun um gerð og legu hálendisvega.
Umhverfismat samgönguáætlunar er nú unnið í fyrsta sinn í samræmi við lög sem samþykkt voru á Alþingi síðastliðið vor. Í vinnuhópi sem vann matið sátu fulltrúar samgönguráðuneytis, Vegagerðar, Siglingastofnunar og Flugmálastjórnar. Matsskýrsluna vann VSÓ ráðgjöf og er hún alls 59 síður auk korta.
Megináhrif samgönguáætlunar á samfélag eru talin snúa að umferðaröryggi, styttingu leiða og ferðatíma til þjónustu- og atvinnukjarna landsins. ,,Jafnframt eru langflestar framkvæmdir á samgönguáætlun fallnar til þess að hafa jákvæð áhrif á ferðir meirihluta landsmanna en sumar gætu haft neikvæð staðbundin áhrif í því tilfelli að framkvæmdir ýta undir erfða stöðu í jaðri stóru byggðakjarnanna,? segir meðal annars í inngangi matsskýrslunnar.
Tengsl við aðrar áætlanir
Einnig segir í inngangi skýrslunnar að stór hluti framkvæmda samgönguæáætlunar snúi að þjóðvegakerfinu. ,,Allar bætur og styttingar á því koma til með að bæta öryggi og auka umferð, þ.m.t. þungaflutninga. Á undanförnum árum hefur hlutdeild landflutninga aukist mjög hratt og eru ástæður þess margvíslegar, s.s. kostnaður fyrir flutnings- og dreifingaraðila og kröfur í samfélaginu.?
Í matsskýrslunni er farið yfir helstu markmið samgönguáætlunar og rakin tengsl hennar við aðrar áætlanir og alþjóðlega samninga. Meginhlutinn fjallar um umhverfisáhrif og eru skoðuð atriði eins og þróun byggðar, aðgerðir á sviði öryggis á vegum, í flugi og siglingum og metin eru áhrif á byggð og samfélag eftir landshlutum.
Um áhrif á náttúru segir meðal annars að undir það falli nátttúrufar, loftslag, haf, landslag og ímynd. Megináhrifin séu vegna taps á búsvæðum plöntu- og dýrategunda, skerðingar á landslagi og ímynd og hugsanleg áhrif samgangna á loftslag. Nýframkvæmdir eru fyrst og fremst vegaframkvæmdir en einnig er nefnd stækkun flugvalla á Akureyri og Egilsstöðum og gerð Bakkafjöruhafnar.
Samræma þarf sjónarmið um hálendisvegi
Um hálendisvegi segir meðal annars í matsskýrslunni: ,,Víðerni eins og miðhálendi Íslands eru nú óvíða annars staðar til í Evrópu nema helst í norðanverðri Skandinavíu og í því felst m.a. sérstaða þess. Helstu umhverfisáhrif vegna uppbyggingar hálendisvega eru á landslag og ímynd hálendisins. Í matsvinnunni kom fram að skort hefur samræmda stefnu stjórnvalda við landnotkun á þessu svæði. Það sé því mikilvægt verkefni stjórnvalda og almennings á næstu árum að samræma frekar sjónarmið um náttúruvernd og nýtingu þessara svæða en hagsmunir mismunandi aðila geta verið ólíkir frá einu svæði til annars.?
Fjallað er einnig um loftslag og segir að mikilvægt sé að losun mengandi efna í andrúmsloftið frá bílum aukist ekki í sama hlutfalli og umferð. Segir að í tillögu að samgönguáætlun og matsvinnu hafi komið fram ábendingar og hugmyndir um ýmsar aðgerðir sem taka eigi tillit til þegar draga eigi úr neikvæðum áhrifum.
Fram kemur meðal annars að draga skuli úr losun frá jarðefnaeldsneyti og að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa verði aukið. Stefnt skuli að því að notkun jarðefnaeldsneytis verði óveruleg innan fárra ára. Fram að því þurfi að eiga sér stað aðlögun þar sem hvatt verði til notkunar eyðslugrannra ökutækja með skattalegum aðgerðum. Notkun lítilla díselbíla verði gerð sérstaklega álitleg og hvatt til notkunar bíla sem nota annað og umhverfisvænna eldsneyti en jarðolíu. Unnið verði að því að metanvæða ákveðna markhópa ökutækja á höfuðborgarsvæðinu og lokamarkið sé að bílaflotinn og fiskiskip gangi fyrir vetni.
Unnt er að gera athugasemdir við matsskýrsluna til 20. nóvember og skulu þær sendar samgönguráðuneytinu, Hafnarhúsinu við Tryggvagötu, 150 Reykjavík. Sjá auglýsingu og matsskýrsluna hér.