Sumarið er tími vaxtar
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
„Markmiðið er að fjölga tækifærum fyrir námsmenn og atvinnuleitendur sem vilja nýta komandi sumar til náms eða starfa. Framhalds- og háskólarnir hafa brugðist vel við og bjóða upp á fjölbreytta námskosti sem ég hvet fólk til að kynna sér. Það kom góð reynsla á þetta fyrirkomulag síðasta sumar þegar fjölmargir nýttu sér spennandi námsframboð. Sumarið er tími vaxtar, nám og aukin þekking getur sannarlega fengið fólk til að blómsta.“
13 framhaldsskólar taka þátt
Markhópur sérstakra námsúrræða á framhaldsskólastigi eru nemendur í framhaldsskólum, nýútskrifaðir nemendur úr grunnskólum, nemendur með annað móðurmál en íslensku sem vilja auka hæfni sína í íslensku, einstaklingar sem vilja styrkja stöðu sína á vinnumarkaði, brúa færnibil eða skipta um starfsvettvang.
Alls munu 13 framhaldsskólar bjóða upp á námstilboð sem munu ná til allt að 1500 nemenda. Í boði verða rúmlega 80 áfangar á afar breiðu áhugasviði, þar á meðal bóknámsáfangar í helstu kjarnagreinum; s.s. í íslensku, ensku og stærðfræði og í íslensku sem öðru tungumáli. Listnámsáfangar verða í boði, þar á meðal í lagasmíðum, tónfræði, grunnþáttum í keramiki, teikningu og grafík, og þá bjóða þrír listdansskólar upp á áfanga í klassískum ballet, jassdansi, nútímadansi. Nokkrir skóla munu bjóða upp á fjölbreytt iðn-, verk- og starfsnám svo sem kynningaráfanga í tréiðngreinum, rafiðngreinum og matreiðslu sem sérstaklega eru hugsaðir fyrir nemendur sem eru að hefja nám í framhaldsskóla og fyrir atvinnuleitendur. Aðrir áfangar verða í boði m.a. í málmiðngreinum, leiklist, kvikmyndagerð og listasögu.
300 námsleiðir í háskólum
Námsframboð í sumarnámi háskólanna er fjölbreytt en ríflega 300 námsleiðir á öllum fagsviðum mæta mismunandi markhópum með fjölbreyttum hætti. Um 5000 nemendur skráðu sig í sumarnám háskólanna í fyrra.
Allir háskólarnir sjö munu bjóða upp á nám í sumar og verður upplýsingar um námsframboð hvers skóla að finna á heimasíðum þeirra en aðsókn mun ráða því hvaða námsframboð verður endanlega í boði. Námið er ýmis skipulagt sem einingabærir áfangar eða styttri námskeið. Sérstök áhersla er á nám sem nýtist sem undirbúningur fyrir háskólanám, námskeið á sviði iðn- og verknáms, valkosti á sviði símenntunar og færnibrýr fyrir atvinnuleitendur sem vilja skipta um starfsvettvang. Boðið verður upp á nám sem tekur frá einni og upp í tíu vikur. Gert er ráð fyrir að skólar nýti jöfnum höndum kennsluhúsnæði fyrir staðnám og rafræna kennsluhætti, þannig að námsframboð geti nýst nemendum á landinu öllu, óháð kyni, fötlun og sérþörfum.
Upplýsingar um framboð og námskosti í sumarnámi verður að finna á heimasíðum skólanna og á vefnum næstaskref.is.