Aukið við rannsóknir á sviði verslunar
Framlag til Rannsóknaseturs verslunarinnar (RSV) hækkar úr fjórum milljónum í sex milljónir króna samkvæmt samningi sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Árni Sverrir Hafsteinsson forstöðumaður RSV undirrituðu í dag.
Samningnum er ætlað að auka við rannsóknir á sviði verslunar á árinu 2019 en áætlað er að verslunin standi að baki ríflega 8% landsframleiðslu og alls starfa um 30 þúsund manns í greininni. Almennt felst starfsemi Rannsóknasetursins í því að fylgjast með þróun og breytingum sem varða verslun og neysluhegðun og koma á framfæri upplýsingum um þetta til fyrirtækja og almennings.
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir: „Rannsóknasetrið gegnir lykilhlutverki sem upplýsingaveita um vísitölur og aðra tölfræði sem stjórnendur í verslun þurfa á að halda í ákvarðanatöku í daglegri stjórnun og vegna stefnumótunar til lengri tíma.“