Tvöfalt fleiri umsóknir um nám í Listaháskóla Íslands
Listaháskóla Íslands (LHÍ) bárust tvöfalt fleiri umsóknir um nám við skólann í ár en í fyrra. Skólinn tilkynnti í febrúar að fallið yrði frá skólagjöldum frá hausti í kjölfar boðs Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskólaráðherra, um óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda.
Kristín Eysteinsdóttir, rektor LHÍ, fagnar aukinni aðsókn í skólann og segir að aldrei hafi jafn margar umsóknir borist. Umsóknarfrestur til náms við flestar deildir skólans rann út fyrir helgi og voru umsóknir tæplega þúsund talsins miðað við 538 umsóknir í fyrra. „Það er gríðarlega jákvætt að niðurfelling skólagjaldanna sé að hafa þessi áhrif,” segir Kristín. „Þetta staðfestir það sem við héldum, að kostnaðurinn væri stór hindrun fyrir mikið af nemendum.”
Fjárfesting í skapandi greinum skili sér margfalt til samfélagsins
Mesta aukningin er í arkitektúr, hönnun og myndlist. Líkt og undanfarin ár er leiklistardeild skólans vinsælust með um tvö til þrjú hundruð umsóknir en þar komast þó aðeins um tíu inn á ári hverju. Rektor telur að aðsókn í skólann verði enn meiri á næsta ári, sérstaklega þegar kemur að námi á meistarastigi.
„Við erum þakklát Áslaugu Örnu, háskólaráðherra, fyrir að gera okkur kleift að stíga þetta mikilvæga skref og skilja að fjárfesting í háskólanámi í listum og skapandi greinum mun skila sér margfalt til baka til samfélagsins. Framtíðin liggur í skapandi greinum og þessi stóraukna aðsókn staðfestir mikilvægi niðurfellingar skólagjalda sem tryggir jafnræði til náms óháð námsgrein,” segir rektor Listaháskóla Íslands í samtali við Vísi.
Jöfn tækifæri til náms óháð rekstrarformi skóla
Líkt og áður segir bauð háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra rektorum sjálfstætt starfandi háskóla óskert fjárframlög frá ríkinu gegn afnámi skólagjalda í febrúar sl. Undanfarin ár og áratugi hafa framlög til sjálfstætt starfandi háskóla landsins verið 60-80% af því sem þeir fengju ef rekstrarform þeirra væri opinbert. Þetta hefur leitt til þess að skólarnir innheimta skólagjöld sem fyrir þriggja ára grunnnám geta numið allt að tveimur milljónum króna og svo svipaðri upphæð fyrir tveggja ára mastersnám.
„Sú hugmyndafræði að fé fylgi nemendum að fullu óháð því hvaða skóla þeir sækja er ekki ný af nálinni í menntakerfinu, þó svo að hún sé það á háskólastiginu,” útskýrði Áslaug Arna þegar fyrirkomulagið var kynnt. „Ég tel sanngjarnt að nemendur hafi jöfn tækifæri til náms, óháð rekstrarformi skóla, og að þeir sem velji að stunda nám í sjálfstætt starfandi háskóla standi jafnfætis þeim sem stunda nám í opinberum skólum. Ríkið á ekki að gera upp á milli nemenda.”