UT-blaðið 2007
UT-dagurinn verður haldinn á vegum forsætis- og fjármálaráðuneyta þann 8. mars næstkomandi. Með honum vilja ráðuneytin vekja athygli á þeim tækifærum sem Íslendingar hafa á sviði upplýsingatækni, rafrænnar þjónustu og fjarskipta. Á UT-daginn verður m.a. haldin ráðstefna í Salnum í Kópavogi og verður dagskrá hennar kynnt nánar síðar. Jafnframt mun UT-blaðið verða gefið út til að kynna umfjöllunarefni ráðstefnunnar og skapa umræðu um málefni sem tengjast upplýsingatækni á Íslandi.
Blaðið verður hið veglegasta, í 250 x 360 mm broti, upplag verður 65.000 eintök og verður því dreift með Morgunblaðinu laugardaginn 3. mars. Einnig verður blaðinu dreift til allra helstu ráðuneyta og stofnana hins opinbera og meðal gesta á stórsýningunni Tækni og vit 2007, sem fram fer 8. – 11. mars. Blaðið fær því mjög góða dreifingu meðal almennings og opinberra stofnana en jafnframt tryggt að það nái til fagfólks í tækni- og þekkingargeiranum sem mun sækja Tækni og vit 2007.
Efnistök UT-blaðsins:
Blaðið mun fjalla á lifandi hátt um meginumræðuefni UT-dagsins að þessu sinni, sem er sjálfsafgreiðsla í þjónustu opinberra stofnana. Fjallað verður m.a. um lausnir á borð við rafrænar þjónustuveitur, rafræn skilríki og rafræn opinber innkaup auk ýmislegs annars sem tengist þessum málum.
Útgefandi: AP almannatengsl í samvinnu við forsætis- og fjármálaráðuneyti.