Breiður hópur sýnenda á Tækni og viti 2007
Nú styttist óðum í stórsýninguna Tækni og vit 2007 og stefnir allt í að hún verði einn stærsti viðburður í íslenskum tækni- og þekkingariðnaði frá upphafi. Greinilegt er að mikill vöxtur er í tæknigeiranum um þessar mundir og mun það án efa koma skýrt fram á sýningunni. Tækni og vit 2007 verður haldin í Fífunni í Kópavogi dagana 8.-11. mars næstkomandi og verður opin fagaðilum fyrstu tvo dagana en almenningur verður einnig boðinn velkominn seinni tvo dagana, helgina 10. og 11. mars.
Þegar hafa um 100 fyrirtæki og stofnanir boðað þátttöku í sýningunni og koma þau úr öllum geirum tækniiðnaðarins. Þarna verða fyrirtæki úr tölvugeiranum, bæði hugbúnaðar-, vélbúnaðar- og netfyrirtæki, auk fjarskiptafyrirtækja, orkufyrirtækja, iðntæknifyrirtækja, öryggisfyrirtækja, opinberra stofnana og ráðuneyta, skóla, fjármálafyrirtækja og fjölmiðla, svo eitthvað sé nefnt.
Margit Elva Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Tækni og vits 2007 er ánægð með hve fjölbreyttir sýnendur verða. „Miðað við þann breiða hóp sem kominn er nú er ljóst að sýningin mun verða mjög fjölbreytt og skemmtileg, jafnt fyrir fagaðila sem almenning.“
Ýmsir viðburðir haldnir í tengslum við Tækni og vit 2007, þannig að ljóst er að tækni- og þekkingariðnaðurinn verður ofarlega í hugum fólks í marsbyrjun. Þar má fyrstan nefna UT-daginn, sem haldinn verður þann 8. mars á vegum forsætis- og fjármálaráðuneyta. Í tilefni hans verður ráðstefna í Salnum í Kópavogi þar sem fjallað verður um rafræna stjórnsýslu, rafræn skilríki og rafræn innkaup. Jafnframt munu Samtök iðnaðarins halda ráðstefnu um samskipti frumkvöðla og fjárfesta þann 9. mars, auk þess sem tilkynnt verður um afhendingu Vaxtarsprotans, sérstakra verðlauna til sprotafyrirtækja sem skilað hafa góðum árangri, að kvöldi 9. mars.
Nánari upplýsingar um Tækni og vit má finna á vefnum www.taekniogvit.is.