Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2018 Utanríkisráðuneytið

Markmið 2: Ekkert hungur

Ef rétt er að farið geta landbúnaður, skógrækt og sjávarútvegur séð öllum fyrir nægum og næringarríkum mat auk þess að skapa atvinnu og tekjur. Raunveruleikinn er hins vegar annar. Jarðvegur, ferskvatn, höfin, skógar og líffræðilegur fjölbreytileiki eiga á hættu að skaðast meira en þegar er orðið, með fyrirsjáanlega slæmum afleiðingum fyrir líf fólks og umhverfið. Loftslagsbreytingar hafa ennfremur ýtt undir vandann þar sem þær auka líkurnar bæði á flóðum og langvarandi þurrkum. Í mörgum þróunarríkjum á fólk sem býr í dreifbýli erfitt með að ná endum saman, með þeim afleiðingum að það neyðist til þess að flytja í borgir þar sem þeirra bíður oft atvinnuleysi og fátækt. Alþjóðlegir matvæla- og landbúnaðarmarkaðir þurfa að breytast verulega svo tryggja megi öllum næringarríka fæðu. Í alþjóðlegri þróunarsamvinnu hafa íslensk stjórnvöld beitt sér fyrir því að draga úr fátækt og hungri, bæði í samstarfsríkjum sem og í gegnum fjölþjóðastofnanir.

Útrýming hungurs og aðgengi að fæðu

Á Íslandi er framboð næringarríkrar fæðu gott og enginn á að þurfa að búa við sult. Íslensk stjórnvöld sjá til þess að þeir sem ekki ná endum saman fái viðeigandi aðstoð, t.d. í formi margskonar bóta. Afar mikilvægt er að ná til allra sem eru í slíkri stöðu, í samræmi við markmið Heimsmarkmiðanna um að skilja enga hópa eftir við innleiðingu þeirra. Ríkisstjórnin hefur kveðið skýrt á um að spornað verði við fátækt og að stuðningi verði beint til þeirra sem eru í mestri þörf. Þetta verði gert m.a. með endurskoðun kerfis barnabóta, vaxtabóta, barnalífeyris og húsnæðisbóta þar sem fjárhagslegum stuðningi verði beint með markvissari hætti að tekjulægri hópum. Einnig verði örorkulífeyriskerfi almannatrygginga einfaldað með fækkun bótaflokka, sameiningu frítekjumarka og með innleiðingu starfsgetumats þegar við á með áherslu á getu fólks til starfa. Líkt og að framan greinir teljast 1-3% íbúa landsins í þeim hópi sem býr við sárafátækt, samkvæmt skilgreiningu Velferðarvaktarinnar. Það er sá hópur sem er hvað viðkvæmastur og fylgjast þarf með að grunnþörfum hans sé mætt, m.a. hvað varðar næga og næringarríka fæðu. Sjá verður til þess að hungur og vannæring verði aldrei að vandamáli hér á landi.

Sjálfbær matvælaframleiðsla Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum. Lögð verður áhersla á nýsköpun og vöruþróun til að stuðla að byggðafestu, auka verðmætasköpun og nýta tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi. Meginmarkmiðið er að landbúnaður á Íslandi sé sjálfbær og vernd búfjárstofna sé tryggð. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að bregðast við vanda sauðfjárbænda til skemmri og lengri tíma. Samhliða nýrri kynslóð landbúnaðarsamninga verða innleiddir sérstakir aðlögunarsamningar um nýja starfsemi til sveita. Með þeim verður rudd braut fyrir bændur til að byggja upp nýjar búgreinar eða hasla sér völl á öðrum sviðum. Slíkir aðlögunarsamningar til búháttabreytinga verða tímabundnir og háðir skilyrðum um byggðafestu, verðmætasköpun og búsetu viðkomandi jarðar og geta stuðlað að nýsköpun, náttúruvernd og nýjum áherslum í rannsóknum og menntun. Þá mun ríkisstjórnin jafnframt ráðast í aðgerðir til að þróa lífhagkerfið enn frekar, grænar lausnir og aðferðir til að draga úr umhverfisáhrifum matvælaframleiðslu með hvötum og stuðningi sem miði meðal annars að kolefnisjöfnun greinarinnar. Í því skyni þarf að efla lífrænan landbúnað sérstaklega.

Ísland á alþjóðlegum vettvangi

Meginmarkmið Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu er að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli kynjajafnréttis, mannréttinda og sjálfbærrar þróunar. Sérstaklega skal hugað að réttindum barna og að þau fái tækifæri til að dafna og þroska hæfileika sína. Vannæring getur haft varanleg neikvæð áhrif á andlegan og líkamlegan þroska barna. Aðgangur að næringarríkri fæðu er lykilatriði en aðrir þættir eins og aðgengi að hreinu vatni og bættri salernisaðstöðu, bólusetningar og aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu hafa einnig mikil áhrif. Í Malaví, samstarfslandi Íslands, búa um 42% barna undir 5 ára aldri við mikla vaxtarhömlun.9 Þar í landi hafa íslensk stjórnvöld veitt fé í verkefni eins og öflun hreins vatns, byggingu spítala og máltíðir fyrir skólabörn. Ísland styður m.a. Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Báðar stofnanir sinna mikilvægum næringarverkefnum í þróunarlöndum og á mannúðarsvæðum. Þá ber að nefna að þróunarsamvinna og annað alþjóðasamstarf Íslands á sviði landgræðslu og sjálfbærra fiskveiða miðar að því að auka fæðuöryggi í heiminum.

9 UNICEF, UNICEF Data: Monitoring the Situation of Children and Women, data.unicef.org/country/mwi/.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta