Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2022 Forsætisráðuneytið

1061/2022. Úrskurður frá 3. febrúar 2022

Hinn 3. febrúar 2022 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1061/2022 í máli ÚNU 21110015.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 22. nóvember 2021, kærði A synjun Herjólfs ohf. á beiðni um aðgang að ráðningarsamningi og starfslýsingu framkvæmdastjóra félagsins. Kærandi óskaði eftir upplýsingunum hinn 26. október 2021 en var synjað um aðgang að þeim með erindi, dags. 18. nóvember 2021. Í erindinu er vísað til laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og tekið fram að upplýsingar um starfsfólk verði ekki afhentar.

Eins og mál þetta er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að kynna kæruna Herjólfi ohf. og veita félaginu kost á að koma á framfæri umsögn um hana, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að ráðningarsamningi Herjólfs ohf. við framkvæmdastjóra félagsins og starfslýsingu hans. Úrskurðarnefndin hefur áður fjallað um samhljóða beiðni kæranda til Herjólfs ohf. í úrskurði nefndarinnar nr. 860/2019. Þá er og vísað til úrskurðar nefndarinnar nr. 1055/2021, þar sem nefndin komst að þeirri niðurstöðu að Herjólfi ohf. væri ekki skylt að veita aðgang að ráðningarsamningi yfirskipstjóra félagsins.

Herjólfur ohf. er opinbert hlutafélag og fellur sem slíkt undir upplýsingalög, sbr. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum fer því eftir meginreglu 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum sem greinir í 6.–10. gr. laganna.
Í 7. gr. upplýsingalaga er fjallað um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum um málefni starfsmanna aðila sem lögin taka til. Er meginreglan sú að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna tekur ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti. Í 2. mgr. 7 gr. er að finna undantekningar frá þessari meginreglu hvað varðar opinbera starfsmenn og í 4. mgr. sömu greinar er að finna undantekningar varðandi starfsmenn lögaðila sem falla undir upplýsingalög samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laganna. Þar kemur fram að skylt er að veita upplýsingar um nöfn og starfssvið starfsmanna, sbr. 1. tölul., og um launakjör og menntun æðstu stjórnenda, sbr. 2. tölul. málsgreinarinnar. Rétturinn til upplýsinga um málefni starfsmanna lögaðila sem falla undir upplýsingalög skv. 2. mgr. 2. gr. er þannig þrengri en rétturinn til upplýsinga um opinbera starfsmenn. Af þessu leiðir að Herjólfi ohf. er ekki skylt að veita kæranda aðgang að ráðningarsamningi og starfslýsingu framkvæmdastjóra félagsins.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Herjólfs ohf., dags. 18. nóvember 2021, að synja A um aðgang að ráðningarsamningi og starfslýsingu framkvæmdastjóra félagsins, er staðfest.


Hafsteinn Þór Hauksson, formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta