Hoppa yfir valmynd
5. október 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Saman í tónlistarsókn

Við undirritun samnings Íslandsstofu og Iceland Airwaves um Live from Reykjavík.  Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar og nýsköpunarráðherra og formaður stýrihóps Saman í sókn, Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves og Pétur Þ. Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu.  - mynd

Íslandsstofa hefur fyrir hönd markaðsverkefnisins „Ísland – saman í sókn“ gert samkomulag við Iceland Airwaves um framkvæmd tónlistarhátíðarinnar Live from Reykjavík, í samstarfi við RÚV, Reykjavíkurborg, Icelandair og Landsbankann. Á hátíðinni, sem fara mun fram í nóvember, koma fram margir af þeim íslensku tónlistarmönnum sem lengst hafa náð á erlendum vettvangi ásamt yngra tónlistarfólki. Hátíðin verður send út beint á RÚV og Rás 2 hér á Íslandi, en aðgengileg í gegnum streymiþjónustu á vefnum erlendis.

Tilgangurinn er að styðja við sköpun íslenskra tónlistarmanna, þróa tækni til streymis sem nýtast mun íslenskum hátíðum til framtíðar og einnig að efla markaðs- og kynningarstarf íslenskrar tónlistar á erlendum vettvangi í samstarfi við ÚTÓN. Hægt verður að kaupa aðgang að hátíðinni utan landsteinanna í gegnum vefinn Dice.fm og mun 60% af öllum tekjum renna beint til þeirra listamanna sem spila á hátíðinni. Samhliða Live from Reykjavík mun ÚTÓN standa fyrir rafrænni ráðstefnu fyrir áhrifafólk úr tónlistargeiranum til að kynna íslenska tónlist og listamenn.

Íslensk tónlist er einn af þremur áhersluþáttum í markaðsaðgerðum „Ísland – saman í sókn“ sem koma til framkvæmda á næstu vikum. Efni sem framleitt verður í tengslum við hátíðina verður nýtt til kynningar á íslenskri tónlist og tónlistarstarfsemi og Íslandi sem áfangastað. Samkomulagið er einnig hluti af aðgerðapakka stjórnvalda til að styðja við menningu og listir á tímum COVID-19, sem mennta- og menningarmálaráðherra mun kynna á næstu dögum.

Alls hljóðar samningurinn upp á 25 milljónir kr.

Markaðsverkefnið „Ísland – saman í sókn“ er hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19 fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra formaður stýrihóps átaksins. Um er að ræða markaðs- og kynningarverkefni fyrir áfangastaðinn Ísland á völdum erlendum mörkuðum í því skyni að styrkja ímynd Íslands, auka eftirspurn og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu. Framkvæmd er í höndum Íslandsstofu, og aðgerðir á vegum verkefnisins fara fram undir merkjum „Inspired by Iceland“. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta