Hoppa yfir valmynd
18. janúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 504/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 504/2023

Fimmtudaginn 18. janúar 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Arnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. október 2023, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2023, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á árunum 2022 og 2023. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 7. september 2023, var óskað eftir gögnum frá kæranda vegna tekna hennar á tímabilinu janúar til ágúst 2023. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2023, var kæranda tilkynnt að hún hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu janúar til ágúst 2023 vegna lífeyrisgreiðslna og greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins, samtals að fjárhæð 1.071.600 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. október 2023. Með bréfi, dags. 26. október 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 7. desember 2023 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. desember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála kemur fram að kærandi hafi þann 14. september 2023 borist bréf þess efnis að hún hefði látið hjá líða að tilkynna um tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði verzlunarmanna frá janúar 2023 til ágúst 2023. Þessi ákvörðun hafi komið mjög flatt upp á kæranda þar sem hún hafi verið í góðri trú um að búið væri að tilkynna þessar tekjur. Í desember 2022 hafi kærandi farið á skrifstofu Tryggingastofnunar í Reykjanesbæ og fengið þar aðstoð starfsmanns útibúsins við gerð umsóknar um ellilífeyri. Þar hafi verið fylltar inn allar tekjur sem eigi að koma fram og það skjal hafi kærandi farið með á skrifstofu Vinnumálastofnunar í Reykjanesbæ sama dag. Starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi sagt að það væri í góðu lagi að þiggja bætur annars staðar frá ef gert væri grein fyrir þeim og ef eitthvað væri ekki í samræmi við lög og reglur yrði kæranda tafarlaust tilkynnt um það. Það sé svo ekki fyrr en níu mánuðum seinna að kærandi hafi fengið tilkynningu þess efnis að Vinnumálastofnun hefði ofreiknað bætur til kæranda. Það geti ekki talist eðlileg vinnubrögð að níu mánuðum síðar fái kærandi slíka tilkynningu. Það verði að skoða í ljósi réttarríkis að kærandi hafi verið í góðri trúi um að umsókn hennar samrýmdist þeim lögum og reglum sem hafi verið í gildi á þeim tíma ásamt því að fá aðstoð sérfræðinga frá Tryggingastofnun og Vinnumálastofnun.

Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar skuli skerða bætur vegna tekna, þar með talið fjármagnstekna, sem hinn tryggði hafi haft á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur. Af lagaáskilnaði 76. gr. stjórnarskrárinnar og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar leiði að lagaákvæði sem mæli fyrir um skerðingu atvinnuleysisbóta verði að vera skýr og ótvíræð um þá skerðingu. Jafnframt verði ákvarðanir stjórnvalda að eiga sér stoð í lögum og ef um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða verði að gera strangari kröfur til skýrleika þeirrar lagaheimildar sem hún byggi á. Túlka verði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar í ljósi þessara skýrleikakrafna.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 sé ítarlega fjallað um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Kærandi hafi uppfyllt allar þær skyldur sem á henni hvíli samkvæmt lögum og því verði að telja að hin kærða ákvörðun sé til komin vegna óskilvirknis á milli kerfa Tryggingastofnunar og Vinnumálastofnunar. Í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 komi fram að Tryggingastofnun ríkisins skuli láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar séu við framkvæmd laganna. Það virðist sem gögn hafi ekki skilað sér á milli stofnana þrátt fyrir að ljóst sé að þeim hafi verið skilað inn og það sé ótækt að kærandi verði látin bera hallann af því.

Kærandi fari fram á að bótaréttur haldist og að umrædd skuld verði felld niður. Ljóst sé að ákvörðun framtíðarbóta skuli fara eftir útreikningum sem hafi legið fyrir frá desember 2022. Ekki sé hægt að gera meiri kröfur til atvinnuleitenda en lög geri ráð fyrir. Kærandi hafi uppfyllt öll framangreind ákvæði og meira til. Meiri kröfur verði að gera til hins opinbera og verði að láta stofnanir hins opinbera bera hallann af því að ekki sé unnt að samrýma þau kerfi sem þurfi til útreikninga bóta. Það geti ekki talist eðlilegt að láta bótaþega bera hallann af því að opinber kerfi virki ekki eins og eðlilegt þyki.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar þann 22. maí 2022. Á umsókn um atvinnuleysisbætur hafi kærandi tilgreint að hún væri reiðubúin til að taka starfi frá og með þeim degi. Engar tekjuáætlanir hafi verið skráðar hjá Vinnumálastofnun samhliða umsókn. Umsókn kæranda hafi verið samþykkt 7. júní 2022 og henni hafi verið tilkynnt um það sama dag og að bótaréttur hennar væri útreiknaður 70%.

Með erindi, dags. 7. september 2023, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun greiðslna og hún innt eftir skýringum á tekjum frá janúar 2023 til ágústloka 2023 frá Tryggingastofnun ríkisins, Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóði verslunarmanna. Greiðsluseðlar hafi borist vegna júlí og ágúst 2023 frá kæranda. Með ákvörðun, dags. 14. september 2023, hafi kæranda verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 1.081.178 kr. vegna tímabilsins frá janúar 2023 til og með ágúst 2023. Þá hafi kæranda einnig verið gert að sæta tveggja mánaða bið eftir greiðslum á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Þann 18. september 2023 hafi Vinnumálastofnun borist bréf frá lögfræðingi kæranda þar sem þess hafi verið krafist að ákvörðun stofnunarinnar frá 14. september 2023 yrði afturkölluð, ellegar rökstuðningur veittur. Mál kæranda hafi verið endurupptekið í kjölfar erindisins og þann 25. september 2023 hafi fyrri ákvörðun frá 14. september 2023 verið felld niður. Samdægurs hafi verið tekin ný ákvörðun í máli kæranda, henni sent innheimtubréf vegna umrædds tímabils og tilkynnt að krafa næmi 1.071.600 kr. og að innheimta færi fram með skuldajöfnuði. Kæranda hafi ekki verið gert að sæta viðurlögum eftir endurskoðun stofnunarinnar á máli hennar.

Misritun sé að finna í afturköllun stofnunarinnar frá 25. september 2023 en þar sé vísað til ákvörðunar frá 18. september sem leiðréttist nú en um hafi verið að ræða afturköllun á ákvörðun frá 14. september 2023. Beiðni um rökstuðning hafi einnig verið afgreidd 25. september 2023. Í rökstuðningi megi sjá að fjárhæð kröfu frá fyrri ákvörðun hafi verið leiðrétt af hálfu stofnunarinnar.

Við yfirferð á máli kæranda við undirbúning að ritun umsagnar þessarar hafi farið fram ítarlegri skoðun á greiðsluskrám og allt árið endurreiknað með tilliti til skráninga á áætlunum og rauntekjum kæranda. Til grundvallar hafi verið lögð skráning frá Skattayfirvöldum og yfirferð gerð á greiðslum safnsjóða, svo sem Greiðslustofu lífeyrissjóða og Lífeyrissjóða Bankastræti 7. Sú endurskoðun hafi leitt til enn frekari lækkunar á kröfu stofnunarinnar vegna ársins og í dag nemi hún 953.179 kr. að teknu tilliti til þeirrar skuldajöfnunar sem þegar hafi átt sér stað.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um rétt launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysistrygginga. Mál þetta varði skerðingu á greiðslum atvinnuleysistrygginga vegna tekna. Kærandi fái reglulegar tekjur frá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun en á árinu 2023 séu þær greiðslur að meðaltali ríflega 370.000 kr. á mánuði. Vinnumálastofnun beri á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að taka ákvörðun um skerðingu á atvinnuleysistryggingum vegna tekna atvinnuleitenda. Í ákvæðinu segi meðal annars:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hennar skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hennar til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hennar um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hún fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Við útreikning á skerðingu Vinnumálastofnunar sé horft til reiknireglu 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem stofnuninni sé gert að framfylgja við skerðingu á atvinnuleysisbótum vegna tekna. Ákvæðið feli í sér að þegar samanlagðar tekjur og atvinnuleysisbætur séu hærri en sem nemi óskertum rétti atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta, að viðbættu frítekjumarki, skuli skerða atvinnuleysisbætur um helming þeirra tekna sem séu umfram. Reikniregla sú sem birtist í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar megi setja upp með eftirfarandi hætti:

Þar sem kærandi sé ekki í hlutastarfi sé tryggingarhlutfall hennar ekki skert og því yrði enginn munur á atvinnuleysisbótum hennar og óskertum rétti hennar til atvinnuleysisbóta. Útreikningur á skerðingu þegar atvinnuleitandi sé einungis með tilfallandi tekjur eða fjármagnstekjur og sé ekki í hlutastarfi megi því einfalda með eftirfarandi hætti:

Bótréttur kæranda sé 70% miðað við framlögð gögn og ætti hún þá rétt á atvinnuleysisbótum að fjárhæð 231.909 kr. á mánuði árið 2023. Frítekjumark atvinnuleysistrygginga sé 81.547 kr. Samkvæmt tekjuupplýsingum kæranda sem aflað sé hjá Skattinum hafi hún verið með 363.511 kr. í tekjur í september 2023 en fram að því tekjur frá 365.140 kr. upp í 415.116 kr. á mánuði á árinu 2023. Á eftirfarandi töflu megi sjá nákvæmar tölur eftir mánuðum:

Tímabil

Samanlagðar tekjur

Skerðing ((tekjur-frítekjurmark)/2)

jan

365.140 kr

141.797 kr

feb

365.636 kr

142.045 kr

mar

366.264 kr

142.359 kr

apr

367.257 kr

142.855 kr

maí

367.697 kr

143.075 kr

jún

374.412 kr

146.433 kr

júl

415.116 kr

166.785 kr

ágú

379.760 kr

149.107 kr

sep

363.511 kr

140.982 kr

 

Skerðing á atvinnuleysisbótum kæranda sé því eftirfarandi miðað við meðaltal tekna:

(373.866 kr. - 81.547 kr.)/2 = 146.160 kr. Skerðingar til kæranda nemi að meðaltali 146.160 kr. Óskertrar grunnatvinnuleysisbætur nemi 331.298 kr. á mánuði og 70% bótaréttur veiti 231.909 kr. á mánuði eins og fram hafi komið.

Líkt og fyrr segi skuli atvinnuleitandi sem hafi fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. en hann hafi átt rétt á endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd, að viðbættu 15% álagi. Fella skuli niður álagið ef atvinnuleitandi færi rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í athugasemdum með 39. gr. í frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Kæranda hafi ekki verið gert að greiða álag á skuld.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2023, um að innheimta hjá kæranda ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið janúar til ágúst 2023 vegna lífeyrisgreiðslna og greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Kærandi fékk greiðslur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóði verzlunarmanna og Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu janúar til ágúst 2023 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun. Ljóst er að tekjurnar höfðu áhrif á fjárhæð atvinnuleysisbóta til handa kæranda, sbr. framangreint ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga nr. 54/2006 um frádrátt vegna tekna. Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi upplýst Vinnumálastofnun um greiðslurnar í desember 2022 en fyrirliggjandi samskiptasaga málsins ber þess þó ekki merki.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ljóst að endurkröfuheimild Vinnumálastofnunar er meðal annars bundin við það að einstaklingur hafi fengið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hann átti rétt á. Þar sem ekki lá fyrir tekjuáætlun vegna framangreindra greiðslna kæranda fékk hún greiddar hærri atvinnuleysisbætur en hún átti rétt á. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. september 2023, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta