Hoppa yfir valmynd
7. janúar 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 279/2004 - Slysatrygging

slysatrygging



Miðvikudaginn 24. nóvember 2004


279/2004



A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins


Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 8. október 2004, mótt. 7. október 2004 kærir B, hrl. f.h. A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um bóta­skyldu vegna slyss.


Óskað er endurskoðunar og viðurkenningar bótaskyldu.


Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með tilkynningu um slys dags. 21. júní 2004 var tilkynnt um slys sem kærandi varð fyrir þann 29. september 2001. Segir í tilkynningu um lýsingu slyss að kærandi hafi verið á vegum atvinnurekanda ásamt samstarfsfólki að kynna sér aðstæður og ferð í C er hún varð fyrir grjóthruni og slasaðist.


Umsókn var synjað með bréfi Tryggingastofnunar dags. 9. júlí 2004, þar sem umrædd ferð hafi ekki verið í slíkum tengslum við vinnu að það falli undir vinnuslysa­tryggingu skv. almannatryggingalögum.


Í rökstuðningi með kæru segir:


Ágreiningur reis milli hennar og tryggingafélags atvinnurekandanns um orsök slyssins og eðli og var ekki leyst úr þeim ágreiningi endanlega fyrr en með dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp þann ..................

Með þeim dómi var fallist á kröfur kæranda en hvað varðar það atriði hvort krafa hennar nyti forgangs í þrotabú atvinnurekanda hennar í krafti ákvæða gjaldþrotalaga um vinnuslys segir í dómi Hæstaréttar:

Eins og áður var rakið varð varnaraðili fyrir umræddu slysi í C 29. september 2001 í ferð, sem farin var í nánum tengslum við starf hennar hjá D hf., eða innan við átján mánuðum fyrir frestdag. Verður því talið að krafa varnaraðila um bætur vegna örorku, er hún hlaut í slysinu, falli undir 5. tölulið 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991.

Tilvitnaður töluliður 112. gr. laga nr. 21/1991 er svohljóðandi:

kröfur um bætur vegna örorku eða dauðsfalls manns sem starfaði í þjónustu þrotamannsins og varð þar fyrir slysi sem olli örorku eða dauðsfalli og átti sér stað á því tímabili sem um ræðir í 1. tölul. eða eftir frestdag,

Úr því hefur þannig verið leyst fyrir dómstólum að kærandi varð fyrir vinnuslysi í skilningi laga.

.....

Það tilefni var sú niðurstaða dómstóla að öndvert við afstöðu atvinnurekandans þá væri slys kæranda vinnuslys. Sú niðurstaða er fyrirliggjandi og ekkert í lögum veitir Tryggingastofnun ríkisins heimild til að leggja annað mat á aðstæður á slysstað og tildrög ferðar kæranda þangað heldur en dómstólar hafa þegar lagt til grundvallar eins og bréf stofnunarinnar ber með sér að gert er. Til dæmis er þar lögð mikil áhersla á að makar starfsmanna hafi verið með í för því til staðfestu að líkindum að þar með geti ekki verið um vinnuferð að ræða. Slíkt mat stenst ekki, bæði er það efnislega rangt en einnig er stofnuninni alls ekki tækt að taka sér dómsvald, á einhvern hátt æðra Hæstarétti, vega og meta og léttvægan finna dóm Hæstaréttar. Niðurstöðu réttarins ber að leggja til grundvallar og fallast á greiðsluskyldu úr almannatryggingum á grundvelli réttar kæranda til bóta vegna afleiðinga vinnuslyss hennar.”


Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 7. október 2004. Barst greinargerð dags. 20. október 2004. Þar segir:


Launþegar eru slysatryggðir við vinnu sína. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar telst maður við vinnu:

a. þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar og kaffitímum.

b. í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.

Slys í ferðum, öðrum en ferðum til og frá vinnu og sendiferðum í þágu vinnunnar, falla þannig eingöngu undir slysatryggingar almannatrygginga ef starfsmaðurinn er á launum í ferðinni. Ennfremur segir í 3. mgr. sömu lagagreinar "Slys telst ekki verða við vinnu ef það hlýst að athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna." Það er því talið að tildrög slyss verði að hafa verið í beinum tengslum við það starf sem launþegi sinnir og tryggingagjöld eru greidd vegna.

Það eru því ekki öll slys sem verða í vinnu sem teljast bótaskyld heldur eingöngu þau sem falla undir ofangreinda skilgreiningu laganna. Vinnuveitandi getur hins vegar borið skaðabótaábyrgð á fleiri slysum en sú ábyrgð byggir á öðrum grundvelli en hin lögbundna og skýrt afmarkaða slysatrygging almannatrygginga.


Sá sem óskar bóta samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga þarf eðli máls samkvæmt að sýna fram á að atvik hans eigi undir ákvæði laganna. Til stuðnings umsókn um slysabætur er nauðsynlegt að öll gögn séu lögð fram sem upplýst geta málið. Í gögnum málsins kemur fram að kærandi lenti í slysi í C er hún varð fyrir grjóthrinu og slasaðist mjög alvarlega á fæti. Umrædd ferð mun hafa verið á vegum vinnu kæranda og var sambland af skemmtiferð og kynningu vegna væntanlegrar sölu á slíkri ferð. Ferðin var ekki farin á hefðbundnum vinnutíma heldur á laugardegi og voru makar með í ferðinni. Fram kom að það var ekki hluti af vinnuskyldu starfsmanna að fara í ferðina og starfsmenn fengu ekki greitt fyrir að fara í ferðina.

Með vísan til ofangreinds var umrædd ferð því ekki talin í slíkum tengslum við vinnu eins og krafa er gerð um í b. lið 2. mgr. 22. gr., sbr. einnig 3. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga, að hún félli undir vinnu í skilningi almannatryggingalaga.

Til stuðnings á afgreiðslu þessari leyfi ég mér að benda á Hæstaréttardóm nr. 421/2002. (sjá síðar)

Í ljósi framangreinds var umsókninni um greiðslu bóta úr slysatryggingum almannatrygginga synjað.

Mótmælt er fullyrðingu í kæru að ekki hafi verið tekið tillit til fyrningarfrests. Þvert á móti er það skýrlega tekið fram í áðurnefndu synjunarbréfi stofnunarinnar að kærufrestur sé liðinn og er það ein af ástæðum synjunar.

Því er mótmælt að umrædd niðurstaða Hæstaréttar bindi hendur Tryggingastofnunar við afgreiðslu málsins. Hæstiréttur byggir niðurstöðu sína á ábyrgð vinnuveitanda gagnvart starfsmanni sínum. Tryggingastofnun starfar hins vegar skv. sérlögum er varða almannatryggingar þar sem m.a. er ákvæði um vinnuslysatryggingu með þeim takmörkunum er í þeim lögum koma fram, sbr. hér áður.Það að vinnuveitandi sé dæmdur skaðabótaábyrgur gagnvart starfsmanni sínum jafngildir alls ekki því að um hafi verið að ræða vinnuslys í skilningi almannatryggingalaga. Hæstiréttur hefur ekki fjallað um málið út frá almannatryggingalögum enda allt önnur sjónarmið sem þar koma til skoðunar en þegar hefur verið dæmt um.


Hæstiréttur hefur hins vegar fjallað um ákvæði 22. gr. almannatryggingalaga í áðurnefndum dómi nr. 421/2002 en þar var ekki fallist á að lögreglumaður sem slasaðist í íþróttakeppni á vegum vinnuveitanda ætti rétt til bóta skv. 22. gr. almannatryggingalaganna. Byggt var á þeirri forsendu að hann hafi ekki verið við vinnu í skilningi almannatryggingalaga er hann slasaðist. Skipti ekki máli að mótið var haldið á vegum vinnuveitanda og að í kjarasamningi lögreglumanna væri ákvæði um að þeir teljist vera í vinnu er þeir stunduðu íþróttir ofl. á vegum félaga lögreglumanna.”


Greinargerðin var send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi dags. 21. október 2004 og gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt hefur ekki borist.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar á umsókn um slysabætur. Kærandi slasaðist alvarlega á fæti er hún var í gönguferð í C í lok september 2001 ásamt samstarfsmönnum sínum hjá D hf. Tryggingastofnun synjaði um bótaskyldu þar sem ekki hafi verið um vinnuslys að ræða.


Í rökstuðningi fyrir kæru er vísað til dóms Hæstaréttar sem hafi viðurkennt að um vinnuslys hafi verið að ræða.


Í greinargerð Tryggingastofnunar er því mótmælt að niðurstaða Hæstaréttar bindi hendur Tryggingastofnunar við afgreiðslu málsins. Hæstiréttur hafi ekki fjallað um málið út frá almannatryggingalögum. Ennfremur segir í greinargerðinni að ferð kæranda hafi verið sambland af skemmtiferð og kynningu vegna væntanlegrar sölu á slíkri ferð. Ferðin hafi verið farin utan hefðbundins vinnutíma og makar hafi verið með í ferðinni. Það hafi ekki verið hluti af vinnuskyldu að fara í ferðina og starfsmenn hafi ekki fengið greitt fyrir að fara í ferðina.


Fyrir liggur að tæp þrjú ár liðu frá því að slys átti sér stað og þar til tilkynning um það var send til Tryggingastofnunar. Kemur til sérstakrar skoðunar, hvort undantekningar­ákvæði 2. mgr. 23. gr. laga nr. 117/1993 eigi við, en þar er kveðið á um heimild til greiðslu bóta þó svo að meira en ár sé liðið frá atviki, enda séu tiltekin skilyrði uppfyllt. Skilyrðin eru nánar tiltekið, að drátturinn torveldi ekki gagnaöflun um atriði er máli skipta.

Að mati úrskurðarnefndar eru öll atvik í máli þessu vel upplýst og orsakasamband slyssins og heilsutjóns kæranda vel ljóst. Eru því skilyrði til að beita undanþáguákvæði 2. mgr. 23. gr. og falla frá eins árs fyrningarfresti laganna.


Ákvæði um slysatryggingar eru í III. kafla laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Í 24. gr. segir hverjir eru slysatryggðir samkvæmt kaflanum. Í 22. gr. laganna segir til hvers konar slysa tryggingarnar taka og eru vinnuslys þar á meðal.


Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi orðið fyrir vinnuslysi eða ekki, þ.e. hvort hún hafi slasast við vinnu eða ekki. Samkvæmt 2. mgr. 22. gr. telst maður vera við vinnu:

„ a. Þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.

b. í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.”


Þá segir í 1. málslið 3. mgr.: „Slys telst ekki verða við vinnu ef það hlýst af athöfnum slasaða sjálfs sem ekki standa í neinu sambandi við vinnuna.”


Úrskurðarnefndin fellst á það með Tryggingastofnun að meta verði sjálfstætt í máli þessu hvort skilyrði almannatryggingalaga um um bætur séu uppfyllt samkvæmt 22. gr. Umræddur dómur Hæstaréttar sem kærandi vitnar til lýtur að bótarétti hans gagnvart ábyrgðartryggingu vinnuveitanda og hefur því ekki fordæmi í málinu. Hins vegar telur nefndin að leggja beri til grundvallar við úrlausn málsins atvikalýsingu í dómnum og mat á framburði vitna og mat réttarins á stöðu stefnanda gagnvart fyrirtækinu er slysið varð.


Kærandi vann hjá D hf. og það liggur fyrir að meginstarfsemi fyrirtækisins var sala ferða um óbyggðir Íslands þar á meðal gönguferðir. Umrædd ferð var farin á vegum fyrirtækisins m.a. í því skyni að kynna starfsmönnum ferðaskrifstofunnar aðstæður enda ferðin á söluskrá vegna komandi sumars. Kærandi var því a.m.k. að hluta til ,,við vinnu” og ,,að störfum” er hún varð fyrir slysinu, í skilningi a.liðar 22. gr. almannatryggingalaga. Ekki þykir skipta úrslitamáli, þó kærandi hafi ekki fengið sérstaklega greitt fyrir ferðina, en fyrir liggur að kærandi þurfti heldur ekki að greiða fyrir hana og naut búnaðar fyrirtækisins og leiðsagnar starfsmanna þess í ferðinni. Að mati úrskurðarnefndar gætir þeirrar sérstöðu í þessu máli að kærandi vann á ferðaskrifstofu við það að selja ferðir um Ísland. Eðlilegt er að telja það hluta af slíku starfi, til þess að geta gefið viðskiptavinum réttar upplýsingar, að fara um landið og kynna sér aðstæður á þeim stöðum sem eru á söluskrá, án þess að greitt sé sérstaklega fyrir einstakar ferðir.


Bótaskylda samkvæmt 22. gr. laga nr. 117/1993 er því viðurkennd.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Bótaskylda Tryggingastofnunar ríkisins vegna slyss er A varð fyrir 29. september 2001 er viðurkennd.



F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga



_______________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta