Hoppa yfir valmynd
24. nóvember 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 248/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 248/2021

Miðvikudaginn 24. nóvember 2021

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 16. maí 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 16. febrúar 2021 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 7. maí 2020, sem barst Sjúkratryggingum Íslands 12. maí 2020, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Landspítala X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 16. febrúar 2021, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. maí 2021. Með bréfi, dags. 18. maí 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 28. maí 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar þess að synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 verði endurskoðuð.

Í kæru er greint frá því að aðdraganda málsins megi rekja til þess að kærandi hafi farið í eggörvun þann X í tengslum við meðferð hjá C. Vegna aukinna verkja frá kvið hafi hún leitað á bráðamóttöku Landspítala þann X. Eftir skoðun hafi hún verið send á kvennadeild þar sem hún hafi verið lögð inn. Þrátt fyrir heiftarlega verki hafi kærandi verið send heim daginn eftir og sagt að leita aftur myndu einkenni versna.

Aðfaranótt X hafi kærandi vaknað með gríðarlega mikla verki í kvið og sársaukinn hafi verið það mikill að hún hafi kastað upp ótal sinnum að eigin sögn. Þá hafi maki hennar haft samband við kvennadeildina símleiðis og þeim verið sagt að koma upp á spítala. Við komuna hafi kærandi ekki getað gengið sökum verkja og verið lögð inn. Þar hafi hún fengið morfín til verkjastillingar. Að sögn kæranda hafi þó morfínið dugað skammt og hún hafi alltaf verið sprautuð aftur með meira morfíni og verkjalyfjaskammtur aukinn, þrátt fyrir augljóslega versnandi ástand. Kærandi lýsi því þannig að henni hafi verið haldið í rúminu í margar klukkustundir án þess að gripið væri til frekari aðgerða eða skoðunar á henni, en verkirnir hafi verið orðnir óbærilegir fyrir kæranda. Þá segi kærandi að ný vakt hafi tekið við og enginn hafi virst vita neitt um hennar mál.

Bæði móðir kæranda og maki hennar hafi furðað sig á því að enginn hafi virst ætla að gera neitt fyrir kæranda sem hafi verið meðtekin af verkjum, annað en að sprauta hana niður með hverri morfínsprautunni á fætur annarri og alltaf hafi tíminn styst sem morfínið virkaði. Þegar kærandi hafi sagst vera svo verkjuð að hún hafi hreinlega haldið að hún myndi láta lífið og verið við það að falla í yfirlið, hafi hún og maki hennar krafist þess að eitthvað yrði gert í málunum. Um nóttina, tæpum sólarhring eftir að kærandi hafi upphaflega komið á Landspítala, hafi verið ákveðið að senda hana í aðgerð. Þar sem skurðlæknir hafi ekki verið á svæðinu hafi hún þurft að bíða til kl. 8:00 um morgunninn til að komast í aðgerðina.

Í aðgerðinni hafi komið í ljós að kærandi væri með Ovarian torsion og fjarlægja hafi þurft annan eggjastokk hennar sem þá hafi verið þrísnúinn og að sögn skurðlæknisins afar illa farinn og stutt í drep. Kærandi hafi fyrst fengið að heyra af því að eggjastokkurinn hafi verið fjarlægður eftir aðgerðina, en enginn hafi minnst á þá áhættu áður en hún hafi farið í aðgerðina. Að sögn kæranda hafi þetta verið mikið áfall fyrir hana.

Sjúkratryggingar Íslands hafi komist að þeirri niðurstöðu í ákvörðun sinni frá 16. febrúar 2021 að greining og meðferð sem hafi byrjað í kjölfar komu á Landspítala þann X hafi verið í samræmi við almennt viðtekna og gagnreynda læknisfræði og að ekkert komi fram í gögnum málsins sem bendi til þess að greiningu eða meðferð hafi ekki verið háttað með fullnægjandi hætti á Landspítala. Með vísan til þess væru skilyrði 2. gr. laga nr. 111/2000 ekki uppfyllt.

Þá hafi Sjúkratryggingar Íslands bent á að ógerlegt væri að segja til um hvenær snúningur á eggjastokknum hafi átt sér stað, en líklegt væri að hann hafi átt sér stað á milli heimsóknanna tveggja á Landspítala, þ.e. X og X. Enn fremur hafi Sjúkratryggingar Íslands talið að snúningur eggjastokksins væri afleiðing örvunar eggjastokka og eggheimtu sem hafi farið fram hjá C.

Kærandi geti ekki fallist á framangreinda ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands og byggi á því að Ovarion torsio hafi verið greint of seint og hún látin bíða alltof lengi með morfín áður en grunur um torsio hafi verið staðfestur. Þeir heiftarlegu verkir sem kærandi hafi verið með við komuna á kvennadeildina að morgni X hafi átt að gefa nægt tilefni til þess að gripið væri strax til viðeigandi aðgerða. Sérstaklega í ljósi þess að hún hafi leitað á spítalann nokkrum dögum áður vegna slæmra verkja.

Að mati kæranda sé augljóst að mögulega hefði verið hægt að bjarga eggjastokknum hefði hún verið send strax í bráðaaðgerð við komuna á kvennadeildina að morgni X. Í stað þess hafi hún verið látin bíða með óbærilega verki í næstum því sólarhring, án þess að nokkuð væri gert. Hún telji að það hefði getað skipt sköpum að grípa strax inn í aðstæður og grunur um torsio hafi átt að vakna miklu fyrr þegar litið sé til þeirra gríðarlega miklu verkja sem kærandi hafi þjáðst af. Þrátt fyrir að prufur hafi ekki greint torsio upphaflega hafi það ekki átt að geta dulist starfsfólkinu hversu slæmt ástand kæranda hafi verið og að augljóslega væri um alvarlegt ástand og bráðatilvik að ræða. Þá hafi einkenni hennar samræmst einkennum þegar um hafi verið að ræða torsio.

Þá segir að í samskiptum frá X við spítalann sé símtali við maka kæranda lýst. Þar segi meðal annars: „Liggur nú kvalin á gólfinu, kúgast og er óglatt. Hafði verið ráðlagt við útskrift héðan að hafa samband ef verkir myndu versna. Bið konu að koma á deild og deildarlæknir látinn vita.“

Í dagál X í dagnótu deildarlæknis, sem sé skráð kl. 00:00, sé talað um að kærandi verði sett upp fyrir akút kviðsjáraðgerð til greiningar morguninn eftir (þ.e. morguninn X). Þá segi að undirrituð og ábyrgur sérfræðingur muni ræða við skurðstofu og lækna á skurðstofu í fyrramálið.

Aftur á móti virðist hafa verið ákveðið að bíða með að senda kæranda í aðgerð sem hafi upphaflega verið fyrirhuguð morguninn eftir að kærandi hafi verið lögð inn á deildina að nóttu X. Í dagál þann X segi:

„Grunur um intermitted/sub tortion af ovariea. serf. D vill verkjastilla hér á deild ef hún er ekki batandi svo er plan á gera laprascopic aðgerð. [...]Hækkað morphine í 5 mg PN til að verkjastilla. Endurtaka Hb vegna auka fritt vökvð í kvið. – Er fastandi en vegna blóðflæði er þá ólíklegt að hún er að fara í aðgerð – kvöldvakt fylgir eftir blóðprufur.“

Þá liggi fyrir og megi sjá á yfirliti yfir lyfjagjafir og hjúkrunarskráningu að kærandi hafi verið búin að fá marga skammta af verkjalyfjum og morfíni án þess að ástandið hafi skánað. Þannig telji kærandi að alltof langur tími hafi liðið þar til hún hafi komið á spítalann og þar til hún hafi loksins verið send í aðgerðina. Upphaflegt plan hefði þannig átt að standa, þ.e. að senda hana strax í aðgerð að morgni X. Í því felist hinn eiginlegi sjúklingatryggingaratburður, þ.e. að ekki hafi verið gripið nægilega snemma til viðeigandi aðgerða þegar hún hafi leitað á Landspítala aðfaranótt X, þrátt fyrir að hún hafi verið með heiftarlega verki og allt bent til þess að um Ovarian torsion hafi verið að ræða.

Nú sé kærandi einum eggjastokk fátækari og hafi enn fremur glímt við andlegar afleiðingar atburðarins. Tilhugsunin um að mögulega hefði verið hægt að bjarga eggjastokknum hefði hún fengið viðeigandi meðferð strax, hryggi kæranda. Kærandi og maki hennar hafi enn fremur verið að reyna að eignast barn og nú séu líkurnar enn minni, þeim í óhag.

Með vísan til framangreinds byggi kærandi á því að hún hafi ekki fengið viðeigandi meðferð á Landspítala í samræmi við góða og viðurkennda læknisfræði og því sé um að ræða bótaskylt atvik samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi byggi á því að starfsfólk Landspítala hafi vanrækt skyldu sína með því að greina hana of seint með Ovarian torsion og með því að grípa of seint inn í, þrátt fyrir að aðstæður að öllu leyti hefðu gefið til kynna hversu alvarlegt ástandið hafi verið og að aðgerð væri nauðsynleg og óumflýjanleg. Að mati kæranda hefði hún svo sannarlega átt að fá að njóta vafans í stað þess að vera látin bíða með morfín í alltof langan tíma.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands 12. maí 2020. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem hafi farið fram á Landspítalanum X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og málið í framhaldinu verið tekið fyrir á fundi fagteymis í sjúklingatryggingu sem skipað sé læknum og lögfræðingum Sjúkratrygginga Íslands. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 16. febrúar 2021, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu væru ekki uppfyllt.

Í hinni kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé vísað til færslu sérfræðings í taugalækningum frá X þar sem komi fram að kærandi hafi afmýlandi taugasjúkdóm (polyneuropathu) og hafi um tíma fengið nanogammameðferð (immúnóglóbúlín). Kærandi hafi kvartað um skjálfta, þreytu og taugaverki og óskað eftir að hefja aftur meðferð. Þessi greining hafi verið staðfest með taugarannsókn þann X og upphaf veikindanna talin vera veirusýking í X.

Taugalæknir hafi séð kæranda á göngudeild þann X og þar sé meðal annars ritað í sjúkraskrá að kærandi „[…] Er með Charcot Marie tooth og hefur líklega fengið Guillaine barré líka mynd í tengslum við herpes sýkingu þar sem hún svaraði immunoglobulínum en nú er mænuvökvinn algjörlega eðlilegur og get ég ekki sé að immunoglobulín geti hjálpað eins og staðan er í dag.“

Þann X sé meðal annars ritað í bráðamóttökuskrá LSH: „[…] X ára kona sem kemur með kviðverki eftir eggheimtuaðgerð fyrir 3 dögum. Var aðeins aum fyrsta daginn og svo hafa verkirnir í kviðnum bara aukist. Eins og þrýstingur yfir öllum kviðnum en mest ofarlega í kvið. Finnst kviðurinn einnig vera að þenjast út. Upplifir að það sé erfitt að anda, að hún nái ekki að draga andann alla leið inn. Svimi og hitatilfinning, ekki beint ógleði en einhver óþægindi. Verkirnir versna við alla hreyfingu einnig óþægindi þegar hún borðar/drekkur.“

Við leggangaómskoðun þann X segi meðal annars: „[…] Erfitt að sjá leg vegna skugga en virðist vera tóm. Má sjá vægan frían vökva. Stækkaðir eggjastokkar bilateralt. Hægri eggjastokkur mælist um 8-9 cm x 6 cm lengst með folliculum. Vinstri mælist um 6 x 6 cm með mörgum folliclum.“ Kærandi hafi verið hitalaus. Í útskriftarnótu þann X segi: „Fékk morfín við innlögn en svaraði svo vel Panodil og ibufen. Er verkjalaus á útskriftardegi, blóðprufa án athugasemda. Útskrifast heim. Enginn frekari eftirfylgni áætluð af 21A.“

Kærandi hafi leitað aftur til Landspítala þann X og þá sé lýst kviðverkjum kæranda hægra megin í kviðarholi neðan til. Þann X hafi sérfræðingur í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum gert kviðsjáraðgerð á kæranda. Í aðgerðarlýsingu hans segi meðal annars að „[…] Það eru stækkaðir eggjastokkar bilateralt og sá vinstri er í eðl. stöðu en sá hægri er léttblæðandi og blæðir við minnstu snertingu á honum. Hann er þrísnúinn en þó ekki alveg allt blóðflæði skert og ekki komin necrosa í. Við setjum inn 10 mm trocar í miðlínu og annan 5 mm í hægri flankann. Snúum ofan af þessu og reynum að blóðstilla en illa gengur að fá blóðstillingu þar sem að við minnstu snertingu rofnar capsulan og út vellur blóð. Ákveðið er því eftir töluverðan tíma að fjarlægja adnexið og er farið inn með LigaSure þeim megin og infundibulopelvic og utero-ovarian ligamentin tekin í sundur.“ Í læknabréfi þann X komi fram að kærandi hafi fyrst verið grunuð um oförvunarheilkenni (OHSS) en það hefði ekki verið staðfest við prufur.

Fyrir liggi greinargerð meðferðaraðila dags. 13. júlí 2020. Þar segi meðal annars:

„Þegar kærandi leitar til bráðamóttöku þann X og síðar lögð inn á kvennadeild er greinilega um stækkaða eggjastokka að ræða, meira hægra megin og það afleiðing af örvun eggjastokka við eggheimtu. Verkjastillist vel og er útskrifuð heim tiltölulega verkjafrí, þarf væg verkjalyf. Lýsir því þegar hún leggst aftur inn að hún hafi verið batnandi þar til deginum áður en hún leggst inn þann X og svo vaknað við versnandi verki sem höfðu meiri karakter af torsio þ.e.a.s. stöðugir verkir og versnandi í köstum og svöruðu illa verkjalyfju. Allvanalegt er að það verði verkir þegar oförvun eða örvun á eggjastokkum er um að ræða við meðferð þar sem á að ná í egg. Vanalega svara þeir verkjalyfjum vel og hjaðna og lagast á vikutíma eða svo. Hins vegar svara verkir vegna torsio verkjalyfjum illa, þeir koma í köstum, oftar en ekki fylgir ógleði og uppköst með og því er stigsmunur á þessum verkjum sem konan lýsir þann X vs. þann X. Ég tel því ekki hafa verið um misgreiningu að ræða þann X. Ástæða þess að hún fór í aðgerð þann X þar sem fjarlægja þurfti hægri eggjastokk vegna torsio er ekki vegna meðferðar á Landspítala þann X heldur afleiðing af meðferð á C þar sem eggjastokkar voru örvaðir til að ná í egg.“

Við ákvörðun á því hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu sé litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaðferð eða -tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þurfi að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo að skilyrði séu fyrir greiðslu bóta. Sjúklingatrygging bæti ekki tjón sem sé afleiðing grunnsjúkdóms eða grunnáverka og það sé því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar sem hann hafi gengist undir.

Samkvæmt 4. tölul. 2. gr. laganna skuli greiða bætur, hljótist tjón af meðferð eða rannsókn og tjónið sé af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem sé meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skuli líta til þess hve tjón sé mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skuli taka mið af því hvort algengt sé að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur hafi gengist undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mætti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni. Þá skuli við mat á því hvort heilsutjón falli undir 4. tölul. 2. gr. líta til þess hvort misvægi sé á milli annars vegar þess hversu tjón sé mikið og hins vegar hve veikindi sjúklings hafi verið alvarleg og þeim afleiðingum af rannsókn eða meðferð sem almennt hafi mátt búast við. Fylgikvillinn þurfi því bæði að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur (minna en 1-2% tilvika).

Fyrirliggjandi gögn sýni að kærandi hafi haft snúinn eggjastokk þann X. Einkenni þess séu oft ósértæk en algengast sé að konur hafi kviðverk sem geti verið svæsinn, stækkaðan eggjastokk og ógleði. Snúningurinn hafi greinst í kviðsjáraðgerð þann X. Fyrstu viðbrögð lækna við slíkar aðstæður sé að reyna að vinda ofan af snúningnum og geti það haft í för með sér að eggjastokkurinn nái eftir það að starfa eðlilega. Í tilfelli kæranda hafi það verið reynt án árangurs í téðri aðgerð þann X. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé ekki tilefni til að finna að þeirri ákvörðun að fjarlægja eggjastokkinn, enda virðist hún hafa verið tekin eftir eðlilega og faglega umþóttun í samræmi við almennt viðtekna og gagnreynda læknisfræði.

Þegar kærandi hafi leitað til kvennadeildar Landspítala þann X hafi læknar Landspítala talið þá skýringu nærtækasta að um væri að ræða örvun eða oförvun á eggjastokkum. Þekkt sé að konur geti haft kviðverki eftir örvun og eggheimtu. Samkvæmt tiltækri heimild hafi um 7,6% kvenna meðalsvæsna verki af því tagi 2-3 dögum eftir eggheimtu. Að jafnaði séu slíkir verkir vægari en verkir vegna snúnings eggjastokks og ógleði sé algengari fylgikvilli snúnings en eggheimtu. Kærandi hafi ekki haft ógleði og heldur ekki hita sem fylgi einnig alloft snúningi. Verkurinn hafi svarað verkjalyfjum og kærandi hafi útskrifast „tiltölulega verkjafrí“. Þá megi einnig geta þess að þann X hafi kviðverkurinn einkum verið staðsettur ofarlega í kvið, en í seinni legunni hafi verkurinn verið staðsettur neðarlega í kvið hægra megin. Fyrrnefnda verkjastaðsetningin bendi ekki sérstaklega til snúnings eggjastokks. Ómskoðun sé aðalmyndgreiningaraðferðin við þær aðstæður sem um ræði. Ómskoðun hafi verið gerð, en hafi ekki leitt til grunsemda um snúning eggjastokks.

Með vísan til framangreinds telji Sjúkratryggingar Íslands greiningu og meðferð, sem hafi byrjað í kjölfar komu á Landspítala þann X, vera í samræmi við almennt viðtekna og gagnreynda læknisfræði. Að mati Sjúkratrygginga Íslands verði ekki fundið að þeirri ákvörðun að taka eggjastokkinn í aðgerð þann X. Ekkert komi fram í gögnum málsins sem bendi til þess að greining eða meðferð hafi ekki verið háttað með fullnægjandi hætti á Landspítala. Með vísan til þess séu skilyrði 2. gr. laganna ekki uppfyllt.

Snúningur eggjastokks hafi hins vegar nær örugglega átt sér stað einhvern tíma í umræddu ferli sem afleiðing örvunar eggjastokka og eggheimtu, en þær aðgerðir séu sagðar hafa farið fram á stofnuninni C. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé ógerlegt að segja hvenær snúningurinn hafi átt sér stað, en líklegast virðist að það hafi gerst á milli heimsóknanna tveggja á Landspítala, þ.e. X og X. Slíkur fylgikvilli sé að sönnu fátíður en sé þó vel lýst. Kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu vegna tjóns í tengslum við sjúkdómsmeðferð hjá sjálfstætt starfandi læknum skuli beina til vátryggingafélags viðkomandi. Kæranda sé bent á að setja sig í samband við C og fá upplýsingar um vátryggingafélag þess eða viðkomandi læknis og senda umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu til þess vátryggingafélags. Þá er vakin athygli á að Sjúkratryggingar Íslands hafa ekki tekið afstöðu til mögulegrar bótaskyldu hins sjálfstætt starfandi þjónustuaðila.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar meðferðar á Landspítala X séu bótaskyldar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að starfsfólk Landspítala hafi vanrækt skyldu sína með því að greina hana of seint með Ovarian torsion og með því að grípa of seint inn í.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg.

Fyrir liggur að kærandi kom þann X á Landspítala með kviðverki eftir eggheimtuaðgerð þremur dögum fyrr. Kærandi var aðeins aum fyrsta daginn og svo jókust verkirnir í kviðnum.

Við leggangaómskoðun þann X kom fram að erfitt var að sjá leg vegna skugga og voru báðir eggjastokkar stækkaðir. Kærandi var hitalaus. Í útskriftarnótu þann X kemur fram að kærandi hafi fengið verkjalyf og útskrifast heim án verkja. Blóðprufur voru án athugasemda.

Kærandi leitaði aftur til Landspítala þann X og þá var lýst kviðverkjum hægra megin í kviðarholi neðan til. Við fyrstu skoðun var ekki merki um skert blóðflæði til eggjastokka. Þann X gerði sérfræðingur í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum kviðsjáraðgerð á kæranda í kjölfar viðvarandi verkja. Í aðgerðarlýsingu hans kemur fram að vinstri eggjastokkur sé eðlilegur en sá hægri hafi verið þrísnúinn en þó ekki alveg allt blóðflæði skert og ekki komið drep. Í aðgerð hafi verið reynt að snúa ofan af en illa hafi gengið að fá blóðstillingu og því hafi ekki reynst unnt að bjarga eggjastokknum sem hafi þurft að fjarlægja.

Ljóst er að eftir örvun á eggjastokkum eru auknar líkur á kviðverkjum en sú sjúkdómsmynd sem fram kom X til X samrýmdist slíku heilkenni að mati úrskurðarnefndarinnar. Þá liggur fyrir að í ferli sem þessu er aukin hætta á snúningi.

Þegar kærandi kom á sjúkrahúsið voru við skoðun merki um blóðflæði til eggjastokks. Vel er þekkt að greiningarferli í ástandi sem þessu er flókið og getur það leitt til tafa[1]. Vegna áframhaldandi og í raun versnandi einkenna var framkvæmd kviðarholsspeglun og reynt að laga snúninginn en það tókst ekki. Niðurstaðan var þá að eggjastokkur var fjarlægður og var það lífsnauðsynlegt að mati úrskurðarnefndarinnar. Vissulega hefði mátt skýra út fyrir kæranda þegar kviðarholsaðgerð var fyrirhuguð að möguleiki væri á að fjarlægja þyrfti líffærið, væri staðan slæm. Þrátt fyrir það verður ekki annað séð en að meðferð í þessu flókna veikindaferli hafi verið eðlileg og tímanleg. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að meðferð hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 



[1] Ovarian torsion: 10‐year perspective - White - 2005 - Emergency Medicine Australasia - Wiley Online Library

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta