Rauði krossinn á Íslandi sendir 46 milljónir til Tyrklands og Sýrlands
Rauði krossinn á Íslandi sendir alls 46 milljónir króna til að styðja við hjálpar- og mannúðarstörf vegna mannskæðu jarðskjálftanna sem urðu í Tyrklandi og Sýrlandi fyrir þremur mánuðum. Samtökin hófu neyðarsöfnun vegna jarðskjálftanna sama dag og fréttir bárust af hamförunum og með framlögum almennings og fyrirtækja söfnuðust rúmlega 23 milljónir króna. Fimmtán milljónir króna voru sendar fljótlega eftir jarðaskjálftana en sú upphæð kom að hluta frá neyðarsöfnuninni, að hluta frá Mannvinum Rauða krossins og með stuðningi utanríkisráðuneytisins.
Þeim fjárstyrk hefur nú verið fylgt eftir með 31 milljóna króna viðbótarframlagi sem styður við áframhaldandi mannúðarstarf í Sýrlandi. Ástandið þar í landi er sérlega bágborið vegna vopnaðra átaka sem hafa staðið yfir í meira en áratug með tilheyrandi eyðileggingu og mannfalli. Því er þörfin fyrir fjárhagsaðstoð meiri þar en í Tyrklandi, eins og fram kemur í frétt á vef Rauða krossins.
„Ljóst er að yfir 14,7 milljónir einstaklinga urðu fyrir áhrifum vegna skjálftanna, 60 þúsund manns týndu lífi og milljónir lentu á vergangi. Nú, þremur mánuðum síðar, þurfa þessir einstaklingar enn á miklum stuðningi að halda, sérstaklega fjárhagsaðstoð, eftir að hafa misst heimili sín, lífsviðurværi og allar eigur. Heilu samfélögin, jafnvel heilu borgirnar, neyðast nú til að byrja upp á nýtt og sú vegferð er rétt að byrja. Fjölskyldur eiga líka erfitt með að jafna sig á því áfalli sem þau hafa orðið fyrir og eru margar hverjar í tímabundnu húsaskjóli sem er ekki nægilega öruggt. Því er brýn þörf fyrir áframhaldandi stuðning og fjármagn til að styðja bæði við áríðandi þarfir sem og langtíma uppbyggingu,“ segir meðal annars í fréttinni.
Rauði krossinn þakkar öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóg og stutt neyðarsöfnunina og segir að hver einasta króna verði nýtt í hjálparstarf á hamfarasvæðinu og komi að góðum notum til að mæta þeim miklu erfiðleikum sem fólkið á hamfarasvæðunum standi frammi fyrir.