Rúmar 90 milljónir til lýðheilsu- og forvarnaverkefna
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra úthlutaði í dag rúmlega nítíu milljónum króna í styrki úr lýðheilsusjóði til 139 verkefna og rannsókna. Við auglýsingu eftir umsóknum árið 2017 var m.a. lögð áhersla á aðgerðir til eflingar geðheilsu, forvarnir gegn sjálfsvígum, áfengis-, tóbaks- og vímuvarnir og verkefni sem beinast að minnihlutahópum til að stuðla að jöfnuði til heilsu.
Ráðherra úthlutaði styrkjunum að fegnum tillögum stjórnar Lýðheilsusjóðs sem mat umsóknir út frá því hvernig þær féllu að hlutverki sjóðsins sem er skilgreint í lögum um landlækni og lýðheilsu, nr. 41/2007 og lýðheilsustefnu velferðarráðuneytisins.
Athöfnin sem fór fram í grasagarðinum í Laugardal, hófst með ávarpi Óttars Proppé heilbrigðisráðherra sem sagði ánægjulegt hve margar umsóknir hefðu borist og hvað verkefnin væru fjölbreytt: „Verkefni ykkar eru mikilvægur liður í því að efla forvarnir og heilsueflingu hér á landi og þar með að auka vellíðan og lífsgæði einstaklinga og fjölmargra hópa“ sagði ráðherra meðal annars.
Kristín Heimisdóttir formaður lýðheilsusjóðs flutti ávarp og þá var kynnt verkefni Helgu Arnardóttur sem áður hefur hlotið styrk úr lýðheilsusjóði til verkefnisins HappApp en það er app sem byggir á vísindum jákvæðrar sálfræði. Í appinu eru æfingar sem efla hamingju og andlega vellíðan notenda.
Meðal verkefna sem hljóta styrk úr lýðheilsusjóði árið 2017 eru verkefni Núvitundarsetursins um innleiðingu núvitundar í sex grunnskóla að breskri fyrirmynd, verkefni Ársæls Arnarsonar um rannsókn á heilsu og lífskjörum skólabarna á Íslandi í alþjóðlegum samanburði, verkefni Akraneskaupstaðar um ráðgjöf og aðgerðir til heilsueflingar fólks 60 ára og eldra og samstarfsverkefni Kynís, Ástráðs, FKB og heilsueflandi framhaldsskóla um smokkasjálfsala í framhaldsskólum til að sporna við óvenju hárri tíðni klamydíu hér á landi.
Markmið lýðheilsusjóðs er að stuðla að heilsueflingu og forvörnum ásamt því að styrkja lýðheilsustarf sem samræmist markmiðum laga um landlækni og lýðheilsu. Heilbrigðisráðherra skipar stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn.