Ísland stendur vel í fjölda einkaleyfisumsókna á sviði lífvísinda
Ísland er á meðal þeirra landa sem á flestar umsóknir um einkaleyfi á sviði lífvísinda miðað við mannfjölda þrátt fyrir að einkaleyfisumsóknum íslenskra lífvísindafyrirtækja hafi farið fækkandi undanfarin ár. Birtum einkaleyfisumsóknum íslenskra fyrirtækja á sviði lífvísinda hjá Bandarísku einkaleyfa- og vörumerkjastofunni (USPTO) fjölgaði lítillega árið 2022 frá árinu áður en fækkaði hjá Evrópsku einkaleyfastofunni (EPO). Þetta kemur fram í nýbirtum tölum sem teknar voru saman fyrir Hugverkastofuna í tilefni Nýsköpunarþings sem verður haldið 26. október nk. og er í ár helgað líf- og heilbrigðisvísindum.
Í skýrslu Hugverkastofunnar Íslenskar einkaleyfisumsóknir á sviði lífvísinda 2010-2021 eru teknar saman upplýsingar um birtar umsóknir um einkaleyfi á uppfinningum á sviði lífvísinda frá Íslandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð, Þýskalandi, Sviss, Kína og Bandaríkjunum til USPTO og EPO. Í uppfærðum tölum fyrir árið 2022 kemur fram að miðað við höfðatölu voru það aðeins svissnesk og dönsk lífvísindafyrirtæki sem birtu fleiri einkaleyfisumsóknir heldur en íslensk.
Langflestar íslensku umsóknanna eru fyrir uppfinningar á sviði heilbrigðistækni og er Össur þar í forystu með 365 af 577 einkaleyfisumsóknum sem birtar voru frá íslenskum fyrirtækjum hjá USPTO og EPO árið 2022, eða 63% íslenskra umsókna. Umsóknir á sviði líftækni, matvælafræða og lyfja eru hins vegar almennt færri en í samanburðarlöndunum. Önnur íslensk fyrirtæki og stofnanir ofarlega á lista íslenskra umsækjenda innan lífvísinda eru Actavis, deCODE, Nox Medical, Skaginn 3X, Háskóli Íslands, ORF líftækni, Kerecis, Genís, Marel, Matís og Oculis.
Alls voru 327 umsóknir um einkaleyfi á sviði lífvísinda birtar hjá Hugverkastofunni árin 2010-2022. Meirihluti þeirra kemur frá alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum og er AstraZeneca þar umsvifamest með 33 umsóknir. Íslensk fyrirtæki og stofnanir áttu samtals sextán umsóknir, þar af komu þrjár frá Háskóla Íslands.