Sótt um tekjufallsstyrki fyrir 2,7 milljarða króna
419 rekstraraðilar sóttu um tekjufallsstyrki fyrir um 2,7 milljarða króna fyrstu dagana eftir að opnað var fyrir umsóknir og hefur Skatturinn, sem fer með framkvæmd úrræðisins, þegar afgreitt 69 umsóknir fyrir um 590 m.kr.
Tekjufallsstyrkir nýtast fjölmörgum rekstraraðilum sem hafa þurft að sæta takmörkunum vegna sóttvarnarráðstafana og er markmiðið að styðja við þau fyrirtæki sem hafa orðið fyrir meira en 40% tekjufalli vegna faraldursins.
Tugþúsundir einstaklinga nýtt ýmis úrræði
Síðustu mánuði hafa yfir 3.000 fyrirtæki og tugþúsundir einstaklinga nýtt sér ýmis úrræði stjórnvalda sem eru á annan tug talsins – styrki, lán og annað. Þannig hafa um 1.200 rekstraraðilar fengið lokunarstyrki fyrir um 1,7 ma.kr. og senn verður opnað fyrir umsóknir um viðspyrnustyrki sem Alþingi samþykkti í desember og er ætlað að tryggja að fyrirtæki geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.
Fjölmörg önnur úrræði hafa boðist vegna áhrifa Covid-19. Þar má nefna stuðningslán, viðbótarlán, laun í sóttkví, ráðningarstyrki, styrki til greiðslu launa á uppsagnarfresti, tekjutengdar atvinnuleysisbætur og frestun skattgreiðslna. Einnig aðgerðir á borð við barnabótaauka, sem greiddur var út sl. vor, ferðagjöf sem gildir út 31. maí nk. og endurgreiðslu virðisaukaskatts af starfsemi sem felur í sér endurbætur og viðhald húsnæðis, heimilisaðstoð og bílaviðgerðir, en sú aðgerð gildir út árið. Fjármála- og efnahagsráðuneytið heldur úti upplýsingasíðu um nýtingu úrræðanna.