Úrbætur á lyflækningasviði Landspítala
Fréttablaðinu 13. september
Við undirritaður og forstjóri Landspítala kynntum í gær sameiginlega yfirlýsingu um aðgerðir til að styrkja starfsemi lyflækningasviðs Landspítala. Það dylst engum að ástandið er alvarlegt og aðgerða þörf. Þetta taka heilbrigðisyfirvöld alvarlega og ég legg áherslu á að nú verði unnið hratt og örugglega að úrbótum.
Tuttugu læknar stóðu saman að grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær þar sem staðan á lyflækningadeild er rakin. Fyrirhugaðar aðgerðir til úrbóta sem ég og forstjóri LSH kynntum taka á flestum ef ekki öllum þeim þáttum sem læknarnir lýsa áhyggjum sínum yfir. Þótt það taki einhvern tíma að hrinda fyrirhuguðum úrbótum í framkvæmd bind ég miklar vonir við að með þessu takist að snúa vondri þróun við og byggja upp öflugt lyflækningasvið á nýjan leik.
Dregið verður úr álagi með fleiri hjúkrunarrýmum til að flýta fyrir útskrift sjúklinga að lokinni meðferð, fagleg forysta sviðsins verður styrkt, framhaldsmenntun í almennum lyflækningum verður efld með opinberri viðurkenningu yfirstjórnar heilbrigðis- og menntamála og auknum fjármunum. Starfshópi verður falið að gera tillögur um aukið hlutverk LSH sem háskólasjúkrahús og leiðir til að tryggja nýliðun í lyflækningum.
Stefnt er að því að nýta betur krafta og hæfni ýmissa fagstétta með markvissum aðgerðum og þannig munu læknar fá aukinn stuðning við störf sín. Bráðastarfsemi LSH verður styrkt og hún sameinuð á einum stað. LSH mun í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld halda áfram að endurskoða skipulag læknisþjónustu á Íslandi í því skyni að bæta aðgengi og gæði þjónustunnar um allt land, ásamt því að auka hagkvæmni.
Fagleg, örugg og aðgengileg heilbrigðisþjónusta er mikilvægt hagsmunamál allra landsmanna og við búum að mörgu leyti að mjög góðri heilbrigðisþjónustu sem við getum verið stolt af. Höfum hugfast að þetta er ekki sjálfgefið því víðtæk og sérhæfð heilbrigðisþjónusta með miklum gæðum eins og við þekkjum er geysilega kostnaðarsöm fyrir fámenna þjóð. Þetta er engu að síður það sem við viljum og með réttu hugarfari, mikilli vinnu og bestu mögulegri nýtingu fjármuna getum við í sameiningu tryggt áframhaldandi öfluga heilbrigðisþjónustu til frambúðar.