8. fundur nefndar um flutning á málefnum aldraðra til sveitarfélaga
- Fundarstaður: Velferðarráðuneytið – Verið – 3. hæð.
- Fundartími: Fimmtudagur 11. október 2012, kl. 14:00 – 15:30
Nefndarmenn:
- Bolli Þór Bollason formaður, skipaður af velferðarráðherra,
- Berglind Magnúsdóttir, tiln. af Öldrunarráði Íslands
- Harpa Ólafsdóttir, tiln. af Eflingu - stéttarfélagi
- Eyjólfur Eysteinsson, tiln. af Landssambandi eldri borgara
- Eiríkur Björn Björgvinsson, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga
- Gísli Páll Pálsson, tiln. af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu
- Hlynur Hreinsson, tiln. af fjármálaráðuneyti
- Unnar Stefánsson, tiln. af Landssambandi eldri borgara,
- Stefanía Traustadóttir, tiln. af innanríkisráðuneyti
Fjarverandi:
- Kristín Á. Guðmundsdóttir, tiln. af SFR og Sjúkraliðafélagi Íslands
- Helga Atladóttir, tiln. af Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga
- Steingrímur Ari Arason, skipaður af velferðarráðherra.
- Stella K. Víðisdóttir, tiln. af Sambandi íslenskra sveitarfélaga,
- Ólafur Þór Gunnarsson, tiln. af samstarfsnefnd um málefni aldraðra,
Aðrir fundarmenn: Sigurður Helgason, ráðgjafi, Hermann Bjarnason, Bryndís Þorvaldsdóttir og Einar Njálsson.
Fundarefni
1. Fundargerð síðasta fundar.
Fundargerðin var samþykkt með einni leiðréttingu.
2. Fundir um ágreining varðandi uppgjör lífeyrisskuldbindinga.
- fundur fulltrúa velferðarráðuneytis með fulltrúum fjármálaráðuneytis.
Einar gerði grein fyrir efni fundarins sem var haldinn 27/9 2012. Á fundinum kom fram jákvæður vilji af hálfu fjármálaráðuneytisins til að ganga til samninga við SFV og viðurkennd var nauðsyn þess að leysa málið til þess að áform ríkisstjórnarinnar um tilfærslu öldrunarþjónustu frá ríki til sveitarfélaga nái fram að ganga. Fjármálaráðuneyið vildi þó halda til haga þeim lagaskilgreiningum sem það hefur haft uppi, sem fela í sér að fullnusta lífeyrisskuldbindinga sé innifalin í daggjaldi hjúkrunarheimila. Af hálfu velferðarráðuneytisins var lagaákvæðum ekki mótmælt en lögð áhersla á að við útreikning daggjalda hafi ekki verið tekið tillit til lífeyrisskuldbindinganna. Af hálfu fjármálaráðuneytisins voru ekki bornar brigður á lýsingar á framkvæmd daggjaldaútreiknings. Annar fundur framangreindra aðila hefur verið boðaður 18. okt. næst komandi.
- fundur velferðarráðherra með stjórnarformanni og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Bolli gerði grein fyrir fundinun en um var að ræða reglulegan fund aðila. Ýmis mál á dagskrá, þar á meðal yfirfærsla öldrunarþjónustu og í tengslum við það ágreiningur um lífeyrisskuldbindingar hjúkrunarheimila. Ráðherra er áhugasamur um að leysa málið og hefur verið í sambandi þar um við fjármálaráðherra. Velferðarráðherra lýst þeirri skoðun að ekki væri rétt að láta þetta mál tefja vinnuna heldur verði því haldið til haga að leysa þurfi þennan ágreining áður en gengið verði frá samkomulagi um yfirfærsluna.
3. Greinargerð um kynnisferð til Danmerkur.
Greinargerðin var lögð fram á fundinum. Bolli og Sigurður kynntu efni hennar og sögðu frá ferðinni sem var í alla staði lærdómsrík. Greinargerðin ásamt fleiri gögnum sem aflað var í ferðinni verða sett inn á hópvinnusvæðið.
4. Næsti fundur.
Næsti fundur ákveðinn föstudaginn 23. nóvember 2012, kl. 10:30-12:00.
Fundi lauk kl. 15:30/ Einar Njálsson ritaði fundargerð.