Góður árangur Íslands í Evrópsku netöryggiskeppninni
Ísland tók í fyrsta skipti þátt í Evrópsku netöryggiskeppninni (e. European Cyber Security Challenge) sem haldin var í Austurríki dagana 13. til 16. september. Lið Íslands stóð sig með prýði í keppninni og hafnaði í 17. sæti af 33 liðum sem tóku þátt. Auk Evrópulanda var nokkrum gestaliðum frá löndum utan Evrópu boðið að taka þátt.
Fyrri hluti keppninnar var svokallað Jeopardy Style CTF og hafnaði íslenska liðið þar í 20. sæti. Í seinni hluta keppninnar náði lið Íslands frábærum árangri þegar það endaði í 13. sæti í Attack/Defence CTF og skoraði þ.a.l. hærra en lið stærri landa á borð við Kanada og Bandaríkin.
Danska liðið stóð uppi sem sigurvegari í keppninni í ár með tæp þrettán þúsund stig. Ísland lauk keppni með tæp fimm þúsund stig sem verður að teljast aðdáunarverður árangur.
Lið Íslands skipuðu þeir keppendur sem náðu bestum árangri í Netöryggiskeppni Íslands fyrr á árinu. Keppnin er haldin af frumkvæði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins er er framkvæmd af Gagnaglímufélagi Íslands (GGFÍ) sem einnig sér um þjálfun íslenska liðsins og að skipuleggja þátttöku í Evrópsku netöryggiskeppninni.