Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 279/2020 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. ágúst 2020 er kveðinn upp

svohljóðandi

úrskurður nr. 279/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20070002

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.          Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli KNU20050004, dags. 11. júní 2020, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. apríl 2020, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari Kirgistan (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 8. febrúar 2020. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 15. júní 2020. Þann 23. júní 2020 lagði kærandi fram beiðni um frestun réttaráhrifa ásamt fylgigögnum. Kærandi lagði þá fram beiðni um endurupptöku þann 3. júlí sl. Þann 8. júlí 2020 barst kærunefnd greinargerð kæranda. Beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa var synjað með úrskurði, dags. 14. júlí 2020.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi vísar til fyrirliggjandi gagna í málinu varðandi málavexti auk þeirra gagna og upplýsinga sem fylgi greinargerð hans til kærunefndar. Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að þegar ákvörðun hafi verið tekin í máli hans hafi málið ekki verið nægilega upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því til stuðnings vísar kærandi m.a. til þess að mat stjórnvalda er varðar sérstakar ástæður hafi verið ófullnægjandi auk þess sem stjórnvöld hafi ekki lagt fullnægjandi mat á sérstök tengsl kæranda við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Þá vísar kærandi til þess að brot gegn rannsóknarreglunni hafi leitt til rangrar niðurstöðu um að hann verði ekki fyrir broti gegn 42. gr. laga um útlendinga og að ekki skuli beita 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í þessu samhengi vísar kærandi m.a. til nýlegs dóms Mannréttindadómstóls Evrópu. Jafnframt telji kærandi að í ljósi tungumálaörðugleika og óvissu um lögfræðiaðstoð vegna umsóknar sinnar sé sú hætta uppi að hann verði fyrir broti gegn 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 3. gr. sáttmálans.

Þá byggir kærandi á því að 32. gr. a og b reglugerðar nr. 276/2018 sé ekki að efni til í samræmi við lögmætisregluna og því hafi stjórnvöldum verið óheimilt að beita ákvæðum reglugerðarinnar. Því til stuðnings vísar kærandi til þess að viðmiðunarreglur í ákvæðinu geri strangari kröfur um hvað teljist vera sérstakar ástæður en leiði af hinni efnislegu túlkun 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til þess að reglugerðin gefi sjónarmiðum um mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins og skilvirkni umsóknarferlisins mikið vægi þótt ekki verði ráðið af 36. gr. laga um útlendinga og undirbúningsgögnum að það sjónarmið eigi að vera ráðandi við mat stjórnvalda er varðar það hvort umsókn verði tekin til efnismeðferðar hérlendis. Kærandi vísar jafnframt til þess að 32. gr. b reglugerðarinnar geri ráð fyrir að réttur umsækjanda um alþjóðlega vernd til að fá efnismeðferð hérlendis á grundvelli fyrri dvalar sé takmarkaður við að umsækjandi hafi áður verið með útgefið dvalarleyfi hér á landi í eitt ár eða lengur. Þá bendir kærandi á að reglugerðin geri mun þrengri kröfur en fram komi í greinargerð með frumvarpi með 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, þ.e.a.s. í reglugerðinni sé gerð krafa um alvarlega mismunun í viðtökuríki þrátt fyrir að aðeins sé kveðið á um mismunun í frumvarpinu. Þá telji kærandi að með gildistöku reglugerðar nr. 276/2018 hafi verið gerðar mun strangari kröfur um hvenær heilsufarsástæður, mismunun og tengsl við landið koma til skoðunar.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda þann 11. júní 2020. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í beiðni sinni um endurupptöku byggir kærandi m.a. á því að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við mat á því hvort hann hefði sérstök tengsl við landið, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því samhengi vísar kærandi til þess að þrátt fyrir að hafa vegabréfsáritun frá þýskum stjórnvöldum hafi hann einungis millilent þar í landi á leið sinni til Íslands, hann hafi hins vegar verið hér á landi í u.þ.b. fimm mánuði og því séu tengsl hans sterkari við Ísland en Þýskaland. Kærunefnd bendir á að kærandi hefur eingöngu dvalið hér á landi í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd sem hefur verið synjað um efnismeðferð og hefur aldrei verið með dvalarleyfi hér á landi. Til viðbótar við framangreint er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá ítrekar kærandi að endursending hans til viðtökuríkis geti leitt til þess að hann muni sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð þar í landi, sbr. 42. gr. laga um útlendinga og vísar í því sambandi til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu frá 2. júlí 2020 í málum nr. 2880/13, 75547/13 og 13114/15, N.H. o.fl. gegn Frakklandi. Málið varðaði fimm einstaklinga sem sóttu um alþjóðlega vernd í Frakklandi árið 2013. Skráning umsókna þriggja þeirra tafðist um meira en þrjá mánuði og á þeim tíma þurftu þeir að mestu að búa á götunni án aðstoðar, án aðgangs að hreinlætisaðstöðu, án möguleika á að sjá sér farboða og í stöðugum ótta við að verða fyrir ofbeldi. Dómurinn taldi að þær aðstæður sem þessir þrír einstaklingar þurftu að búa við hafi verið þess eðlis og náð því alvarleikastigi að teljast brot á 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Atvik þessi áttu sér stað fyrir sjö árum í Frakklandi en fyrirhugað er að senda aðila þessa máls til Þýskalands. Með vísan til þeirra skýrslna sem kærunefnd hefur kynnt sér um málsmeðferð og stuðning við umsækjendur um alþjóðlega vernd í Þýskalandi og reifuð voru í úrskurði hennar, dags. 11. júní 2020, er ljóst að ekki sé raunhæf hætta á að aðili þessa máls hljóti þá meðferð sem tilvísaður dómur mannréttindadómstólsins tekur til. Af þeim sökum telur kærunefnd að dómurinn hafi ekki þýðingu fyrir niðurstöðu þess máls sem hér er til umfjöllunar.

Í greinargerð sinni vísar kærandi til bráðabirgðaákvæðis við reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 og má af því ráða að hann telji sig hafa heimild til dvalar hér á landi samkvæmt því bráðabirgðaákvæði. Samkvæmt ákvæðinu eins og það hljóðar í dag, sbr. reglugerð nr. 769/2020 um breytingu á reglugerð um útlendinga, er útlendingi sem dvaldi hér á landi fyrir 20. mars 2020 í samræmi við 8. gr. reglugerðar um útlendinga og 1. mgr. 49. gr. laga um útlendinga en hefur ekki komist til síns heima vegna ferðatakmarkana, sóttkvíar eða einangrunar heimilt að dvelja hér á landi án dvalarleyfis eða vegabréfsáritunar til og með 10. september 2020. Þá segir jafnframt í ákvæðinu að það komi ekki í veg fyrir frávísun eða brottvísun þeirra sem voru í ólögmætri dvöl fyrir 20. mars 2020 á öðrum grundvelli samkvæmt ákvæðum útlendingalaga. Ljóst er að tilgangur ákvæðisins var að tryggja að einstaklingar sem voru hér í löglegri dvöl á grundvelli áritunar eða áritunarfrelsis yrðu í þeirri stöðu áfram þrátt fyrir að ferðahindranir vegna Covid-19 faraldursins kæmu í veg fyrir heimför. Þá er einnig ljóst samkvæmt texta ákvæðisins að það kemur ekki í veg fyrir frávísun vegna ástæðna annarra en að hafa dvalist hér lengur en áritun eða áritunarfrelsi heimilaði. Kæranda var vísað frá landi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna. Það er því niðurstaða kærunefndar að bráðabirgðaákvæði við reglugerð um útlendinga, sbr. reglugerð nr. 769/2020, leiði ekki til þess að rétt sé að endurupptaka mál kæranda.

Að öðru leyti byggir kærandi í greinargerð sinni með beiðni um endurupptöku á máli sínu á sömu málsatvikum og málsástæðum og hann byggði á og bar fyrir sig í kærumáli sínu fyrir kærunefnd, en kærunefnd hefur þegar tekið afstöðu til þeirra málsástæðna. Þá lagði kærandi ekki fram ný gögn með beiðni sinni um endurupptöku sem kærunefnd telur til þess fallin að hafa áhrif á fyrri niðurstöðu nefndarinnar.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála í máli KNU20050004, dags. 11. júní 2020, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður nefndarinnar var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

 

                                                                                                                                 Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                                Bjarnveig Eiríksdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta